28.04.1988
Sameinað þing: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6917 í B-deild Alþingistíðinda. (4873)

482. mál, kynbætur á svínum og alifuglum

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Ágústsson):

Herra forseti. Á þskj. 832 flyt ég fsp. til hæstv. landbrh. um kynbætur á svínum og alifuglum. Hljóðar fsp. á þessa leið, með leyfi forseta:

„1. Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að komið verði á fót stöð til kynbóta á svína- og alifuglastofnunum?

2. Hefur verið athugað með hvaða hætti bæta má svína- og alifuglastofna hér á landi til aukinnar framleiðni í þessum búgreinum?"

Eins og flestum er kunnugt er óheimilt að flytja til landsins sæði eða stofna til kynbóta á þessum dýrum af ótta við sjúkdóma sem slíkur flutningur gæti haft í för með sér. Því vakna þær spurningar, sem í fsp. koma fram, hvort ekki sé mögulegt á þessu sviði að setja upp kynbótastöðvar fyrir svín og alifugla með sama hætti og gert er um nautgripi, refi, minka og önnur eldisdýr.

Hagkvæmni slíkrar stöðvar er augljós fyrir neytendur því það liggur ljóst fyrir að bæði kjúklinga- og svínastofnar, sem notaðir eru til undaneldis hér á landi, eru orðnir úrkynjaðir og skila ekki þeirri framleiðni sem þeir með kynbótum gætu gert.

Það er mín trú að framleiðslukostnaður þessara vörutegunda kæmi til með að minnka verulega með tilkomu slíkra stöðva og mundi verða til þess að verð á þessum vörum lækkaði jafnframt því sem vandi kjúklingabænda mundi minnka stórum og heilbrigð samkeppni gæti hafist á nýjan leik.

Að lokum er við að bæta að kostnaður við slíka stöð er ekki mikill og gæti jafnvel verið fjármagnaður af framleiðendum.