28.04.1988
Sameinað þing: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6923 í B-deild Alþingistíðinda. (4879)

495. mál, förgun hættulegs efnaúrgangs

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á þessu máli. Mig langaði til að koma fram með eina ábendingu til hæstv. heilbrmrh. Svo er að hér sem annars staðar er mikið í umferð af rafhlöðum til nota í ýmiss konar tæki sem innihalda nikkelkadmíum. Þetta veldur mikilli mengun og t.d. er það svo á Norðurlöndunum að þar er bannað að fleygja slíkum rafhlöðum með venjulegu sorpi. Mönnum er gert að skila þeim í lyfjabúðir þaðan sem þeim er síðan komið í förgun.

Það er alveg augljóst að í þessum efnum er mjög pottur brotinn hér hjá okkur og það verður að koma upp aðstöðu hér og það sem allra, allra fyrst til þess að unnt sé að losna við hættuleg efni af ýmsu tagi þannig að hvorki mönnum né náttúru stafi skaði af eða verði til spillingar.