28.04.1988
Sameinað þing: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6923 í B-deild Alþingistíðinda. (4881)

495. mál, förgun hættulegs efnaúrgangs

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Ég get vissulega — við skulum kannski segja því miður — tekið undir með þeim hv. þm. sem hafa tekið þátt í umræðum um að hér er víða pottur brotinn. Ástandið er því miður alls ekki í nægjanlega góðu lagi.

Ég vil þó minna á að í þinginu eru nú til meðferðar tvö lagafrv., annað um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit sem nú er komið frá nefnd í Ed., sem er að vísu fyrri deild, og ég vona sannarlega að nái fram að ganga í næstu viku eða áður en þingi lýkur í vor og annað lagafrv. um eiturefni og hættuleg efni sem vissulega þyrfti líka að verða að lögum vegna þess, eins og kom fram í svari mínu áður, að núgildandi lagaákvæði eru 20 ára gömul og úrelt og taka ekki mið af þeim aðstæðum sem ríkja í dag og þess vegna mjög brýnt að fá ný ákvæði þessa frv. í lög þannig að hægt verði að setja reglur um vinnulag skv. nýjum lögum.

Varðandi ítrekaða spurningu hv. fyrirspyrjanda, 12. þm. Reykv., um það hverjir eigi að hafa þetta eftirlit hef ég áður gert grein fyrir því að bæði Vinnueftirlit ríkisins og Hollustuvernd ríkisins eru þær eftirlitsstofnanir opinberar sem eiga að hafa með þetta eftirlit að gera, annaðhvort sjálfar eða þá yfirumsjón með eftirliti annarra aðila eins og heilbrigðiseftirlitsins í landinu og heilbrigðisfulltrúanna sem orðið er nokkuð gott lag á með. Þeir eru nú starfandi í öllum umdæmum, hefur reyndar komið fram vegna fsp. fyrr í vetur. Við eigum því að hafa eftirlitskerfi í nokkuð góðu lagi ef okkur tekst að byggja það þannig upp með leikreglum eða reglugerðarsetningu og auðvitað með þeim fjármunum sem nauðsynlegir eru til þess að þetta starf geti verið virkt eins og það nauðsynlega þarf að vera.

Varðandi staði til og aðferðir við að farga þessum hættulegu efnum, eins og fram kom bæði hjá hv. þm. Eiði Guðnasyni og Hjörleifi Guttormssyni, þá vil ég segja frá því að ég er nú að ganga frá skipun nefndar sem á að fjalla einmitt um þetta mál sérstaklega, þ.e. hvar og hvernig við komum fyrir sorpi, úrgangi og öðrum þeim efnum, þar á meðal þessum hættulegu efnum, sem við erum vissulega í miklum vandræðum með í dag.