28.04.1988
Sameinað þing: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6929 í B-deild Alþingistíðinda. (4887)

486. mál, birting heimilda um utanríkismál

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er vissulega mjög brýn þörf á því að fyrr en seinna verði gengið frá þessum málum og sköpuð aðstaða til þess á Þjóðskjalasafni fyrst og fremst að varðveita, flokka og hafa aðgengileg mikilvæg skjöl varðandi sögu þjóðarinnar, ekki síst í sambandi við samskipti okkar út á við. Þetta er ekki í nokkru horfi.

Eins og hæstv. ráðherra vék hér að hefur Þjóðskjalasafnið ekki getað tekið við skjölum sem það þó lögum samkvæmt á að veita viðtöku ekki síðar en 30 árum eftir að þau voru undirrituð eða frágengin í viðkomandi ráðuneyti og setja á reglur um aðgang að þessum skjölum og reglugerð á grundvelli laga um Þjóðskjalasafn Íslands, en slík reglugerð hefur enn ekki verið sett á grundvelli laganna sem sett voru fyrir tveimur árum um Þjóðskjalasafnið. Aðstæðurnar hvað það snertir eru vægast sagt mjög bágar og mætti um það hafa mörg orð. Þarna hafa stjórnvöld með vissum hætti lyklana í hendinni með fjárveitingum, en það hefur ekki verið staðið að því sem skyldi.

Það var upplýst þegar lögin um Þjóðskjalasafnið voru til athugunar að uppi í utanrrn. væru það 200 hillumetrar, sem þeir kalla, af skjölum sem ekki væru komin til Þjóðskjalasafns og reyndar ekki öll sagan sögð því að í utanrrn. var eftir að fara í geymslu þar sem nokkuð var af eldri skjölum, eins og þar segir. Svo eru menn hér á Alþingi að ræða Íslandssöguna frá því fyrir fáum áratugum á grundvelli erlendra heimilda sem hafa verið gerðar aðgengilegar á grundvelli þarlendra laga eða eftir atvikum á grundvelli leyniskjala sem með einhverjum hætti koma úr slíkum söfnum eða frá erlendum aðilum. Þetta er auðvitað hin mesta hneisa og alls ekki undir þessu búandi. Þess vegna hljótum við hér á Alþingi Íslendinga að gera kröfu um að úr þessu verði bætt hið fyrsta og að aðgangur að þessum skjölum verði rúmur. Það þarf auðvitað ekki að velta lengi vöngum yfir því, herra forseti, að skjöl sem eru orðin nokkurra áratuga gömul og varða stjórnsýsluna á Íslandi eiga að vera öllum aðgengileg undantekningalaust.