28.04.1988
Sameinað þing: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6930 í B-deild Alþingistíðinda. (4888)

489. mál, Hæstiréttur

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Ágústsson):

Herra forseti. Á Alþingi hefur verið lagt fram frv. um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði. Þetta frv. hefur valdið dellum á milli lögmanna og embættismanna. Sú fsp. sem ég legg hér fyrir hæstv. dómsmrh. á þskj. 839 tengist þessu máli á þann veg að spurt er hvort endurbætur séu fyrirhugaðar á meðferð mála sem hefur verið áfrýjað til æðri réttar. Fyrirspurnin er í þremur liðum:

„1. Er í undirbúningi athugun á því hvernig flýta megi afgreiðslu dómsmála frá niðurstöðu héraðsdóms til flutnings máls í Hæstarétti?"

Ástæða þessarar spurningar er sú í fyrsta lagi að oft líður langur tími frá því að máli er áfrýjað þar til dómur Hæstaréttar liggur fyrir og í öðru lagi hvort búast megi við því að þriðja dómsýslustigi verði komið á til að létta af Hæstarétti hinum mikla fjölda mála sem til hans er skotið.

Þá er í öðru lagi spurt: Stendur til að fjölga dómurum í Hæstarétti?

Mín skoðun er sú að núverandi skipan sé óeðlileg þegar mál geta oltið á því hverjir skipa dóminn í hvert og eitt sinn þegar á það er litið að í mörgum málum sitja aðeins þrír dómarar í réttinum. Gildi dóma er því lítið og dregur takmarkað úr því að málum sé skotið til Hæstaréttar.

Á það ber einnig að líta að Hæstiréttur hefur sérstöðu fram yfir æðri dóma erlendis. Hér á landi dæmir hann ekki aðeins um lagaatriði heldur einnig sönnunaratriði sem er mjög óheppilegt með tilliti til öryggis og festu. Í vestrænum ríkjum er þessi skipun löngu afnumin og millidómstigið dæmir alfarið með sönnunum um sýknu eða sekt. Þó erfitt kunni að sanna að sú skipan sem er í Hæstarétti hafi valdið því að niðurstaða hafi byggst á því hverjir hinir átta dómarar hafi setið í réttinum er sú hætta alltaf fyrir hendi. Ég minnist þess að nýlega hefur verið kveðinn upp dómur þar sem niðurstaðan valt á dómara sem kvaddur var til sökum þess að sá sem dæmdi málið í undirrétti var hinn 5. dómari og þurfti því að víkja sæti.

Þriðja spurningin sem ég legg fyrir hæstv. dómsmrh. er hvort unnið sé að því,að finna nýtt og hentugra húsnæði fyrir Hæstarétt. Í mínum huga er það skömm fyrir lýðræðisþjóð að búa ekki betur að æðsta dómstólnum en raun ber vitni. Það húsnæði sem Hæstiréttur er í nú er bæði lítið og óhentugt. Í áraraðir hefur það staðið til en ekkert orðið úr framkvæmd og því er spurningin sett fram í von um að þessi ríkisstjórn sé velviljaðri en þær fyrri.