28.04.1988
Sameinað þing: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6931 í B-deild Alþingistíðinda. (4889)

489. mál, Hæstiréttur

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Hv. 11. þm. Reykv. spyr í fyrsta lagi hvort í undirbúningi séu athuganir á því hvernig flýta megi afgreiðslu dómsmála frá niðurstöðu héraðsdóms til flutnings í Hæstarétti. Sem svar við þessari spurningu vil ég benda á að frá því að dómurum var fjölgað í Hæstarétti með lögum frá árinu 1982 hefur svonefndur málahali hjá réttinum styst og það er nú ekki talin ástæða til þess að gera sérstakar ráðstafanir til að flýta gangi mála sem áfrýjað er til réttarins. Þó er talið að e.t.v. megi flýta undirbúningi málflutnings fyrir réttinum með því að einfalda dómsgerðir frá héraðsdómstólum og jafnframt að einfalda ágrip málsskjala sem lögð eru fyrir réttinn. Að þessu er nú hugað á vegum réttarins og dómsmrn. Þá er rétt að geta þess í þessu sambandi að nú virðist sem áfrýjunarmálum fari fækkandi, í bili a.m.k.

Varðandi þau orð sem hv. fyrirspyrjandi hafði um það hvort til greina kæmi að stofna til millidómstigs milli héraðsdóms og Hæstaréttar, þá er það ekki á döfinni. Ég tel mikilvægasta málið á sviði dómstólanna nú að efla héraðsdómana, og minni á það frv. um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði sem ég hef þegar mælt fyrir í hv. Nd. Ég tel það vera eitt mesta framfaramál í dómsmálum sem fram hefur komið á síðari árum.

Í öðru lagi spurði hv. 11. þm. Reykv. hvort til stæði að fjölga dómurum í Hæstarétti. Svarið er nei. Það stendur ekki til að svo stöddu.

Í þriðja lagi var spurt hvort að því sé unnið að Hæstiréttur flytji í nýtt og hentugra húsnæði. Því er til að svara að í samræmi við ályktun Alþingis hefur verið kannað hvort Hæstiréttur gæti flust í Safnahúsið við Hverfisgötu þegar Landsbókasafnið flytur í Þjóðarbókhlöðuna. Húsameistari ríkisins gerði þessa könnun og hans niðurstaða er sú að þetta húsnæði mundi henta Hæstarétti vel. Það hefur hins vegar enn engin ákvörðun verið um það tekin hvort Hæstiréttur flytjist í Safnahúsið og reyndar er þar beðið álits nefndar sem fyrrv. menntmrh. Sverrir Hermannsson skipaði á sínum tíma og ætlað er að fjalla um framtíðarnotkun þessa húss eftir að Þjóðarbókhlaðan hefur tekið við Landsbókasafninu.

Ég vil fyrir mitt leyti leita leiða til þess að finna Hæstarétti hentugt og virðulegt húsnæði, en ég geri mér ljóst að það er mál sem hlýtur að taka alllangan tíma að undirbúa. Ég vil því ekki hafa um það fleiri orð að sinni að öðru leyti en því að segja að ég tek undir það með fyrirspyrjanda að Hæstiréttur á að sjálfsögðu að búa í virðulegu og veglegu húsnæði.