28.04.1988
Sameinað þing: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6932 í B-deild Alþingistíðinda. (4891)

489. mál, Hæstiréttur

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Það kom mér á óvart þegar hæstv. dómsmrh. upplýsti að menntmrn. væri með það í athugun að ráðstafa Safnahúsinu við Hverfisgötu þegar það losnar. Nú er svo að á þeim tíma sem ég sat í ríkisstjórn voru þessi mál rædd og ég veit ekki til þess að það hafi breyst nokkuð skipan mála, meðferð húsnæðis sem ríkið hefur til umráða. En það heyrir undir embætti forsrh. Önnur ráðuneyti geta ekki ráðstafað húsnæði ríkisins án samráðs við forsrh. Á þeim tíma sem ég var í ríkisstjórn var um það rætt að forsrn. og stofnanir í kringum forsrh. fengju Safnahúsið til umráða, það var í tíð fyrrv. forsrh. að sjálfsögðu, og að svæðið aftur af Safnahúsinu væri ráðuneytissvæði alveg niður að sjó. Það er svo á framtíðaráætlun Reykjavíkurborgar og á byggingaráætlun ríkisstjórnarinnar. Ég vil gjarnan fá upplýsingar um hvort þarna hafi orðið breyting á. Þá var reiknað með því að Hæstiréttur fengi sérbyggingu á áberandi stað sem væri, ef ég má orða það þannig, „monumental“ í bænum. Við þessa breytingu finnst mér verið að klúðra Reykjavíkurborgarskipulagi enn þá meira en gert er með staðsetningu á ráðhúsi og fleiri borgarbyggingum sem hér eru ráðgerðar í Kvosinni.