28.04.1988
Sameinað þing: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6935 í B-deild Alþingistíðinda. (4896)

488. mál, ritskoðun á fréttastofu sjónvarps

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég treysti mér ekki til að taka undir áskoranir á hæstv. menntmrh. um rannsókn af þessu tagi með tilliti til þeirrar reynslu sem við höfum af athugun af hans hálfu á fréttastofu hljóðvarpsins og rædd var hér sl. mánudag. Það hlýtur að vera verkefni Alþingis að fara ofan í þessi mál og kjósa til þess aðila eða hlutast til um hvernig að slíku yrði staðið eftir frammistöðu hæstv. menntmrh. hér á dögunum í sambandi við svonefnt Tangen-mál. Ég held að menn kannist við að það hefur verið beitt þrýstingi á fjölmiðla. Ég skal ekki segja neitt um hæstv. menntmrh. En við heyrum hótanirnar í ákveðnum dagblöðum og höfum heyrt þær. Og við þekkjum fréttaflutninginn frá Alþingi. Ég hef vikið að honum eins og hann birtist okkur t.d. í jólaatinu í vetur á Alþingi, hvaða meðferð stjórnarandstaðan fékk hjá Ríkisútvarpinu/sjónvarpi tiltekinn laugardag. Það væri hægt að rifja það upp og athuga.