28.04.1988
Sameinað þing: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6935 í B-deild Alþingistíðinda. (4898)

488. mál, ritskoðun á fréttastofu sjónvarps

Fyrirspyrjandi (Ingi Björn Albertsson):

Herra forseti. Þessi síðasta ræða var aldeilis furðuleg. Alltaf af og til hnappa þeir sig saman fréttamenn víðast hvar sameinaðir um að vernda hver annan fyrir því að gefa upp nöfn heimildarmanna. Þegar hins vegar er komið við kaunin rísa upp alls konar postular og harma það að nöfn skuli ekki gefin upp í hinu og þessu máli. Það er alveg fyrir neðan allar hellur að bjóða upp á svona málflutning. Ég vil segja að ég harma að ráðherra skuli ekki vilja láta kanna þetta mál. Ég bað um það og kom inn á það í máli mínu að óvilhallir menn ættu að kíkja á þetta mál, ekki það að talað sé við útvarpsstjóra. Við hverju bjuggust menn frá útvarpsstjóra? Ég spyr bara. Við hverju bjuggust þeir? Að sjálfsögðu því sem hér var birt.

Ég get alveg tekið undir það, sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson segir, að það er kannski varhugavert að treysta þeim könnunum sem þarna fara fram, enda höfum við fordæmi fyrir því. Það er þess vegna sem ég talaði um óvilhalla utanaðkomandi aðila sem ættu að framkvæma slíka rannsókn. En að það skuli ekki eiga að gera ráðstafanir þegar svona alvarlegt mál kemur upp er í sjálfu sér mjög alvarlegt mál og það er annað rannsóknarefni.

Hér er líka um ærumeiðandi fréttaflutning fyrir fréttamenn að ræða. Það þarf að hreinsa þá líka. Það er orðið ansi margt sem þarf að skoða hér. Auðvitað gerum við kröfur um hlutlaust fréttamat hjá þeim. En þegar svona birtist í einu stjórnarmálgagninu flutt af fréttastjóranum og staðfest í tvígang hlýtur að þurfa að kanna málið.