14.10.1987
Neðri deild: 3. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í B-deild Alþingistíðinda. (49)

6. mál, almannatryggingar

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Það hafa ekki liðið margir dagar af starfstíma þessa nýbyrjaða þings þegar farið er að flytja brtt. um lög um almannatryggingar. Það er reyndar ekki nýtt vegna þess að á hverju þingi að undanförnu hafa verið fluttar brtt. við almannatryggingalöggjöfina og e.t.v. er það ekkert að undra. Hún er að stofni til frá 1971 og ekki vafi á að það eru fjölmörg ákvæði í þessum lagabálki sem nú þegar þarfnast endurskoðunar. Og auðvitað hefur Alþingi samþykkt ýmsar af þeim tillögum sem hér hafa verið lagðar fram og gert á þessari löggjöf ýmsar breytingar, vonandi flestar eða allar til bóta, en ábyggilega líka ýmsar sem hafa leitt til þess að löggjöfin er ekki í fullu samræmi innbyrðis og með öðrum lagabálkum, eins og t.d. lögum um málefni fatlaðra og að hluta til einnig með lögum um málefni aldraðra, er hún er farin að skarast þannig við aðra lagasetningu að full þörf er á heildarendurskoðun.

Hv. 13. þm. Reykv. sagði frá því áðan í framsöguræðu sinni að auðvitað hafa menn oft áður gefið yfirlýsingar um að það þurfi að endurskoða þessa löggjöf í heild sinni og fyrrv. hæstv. heilbrigðisráðherrar hafa einnig lagt í það mikla vinnu. Það hafa verið starfandi nefndir á þeirra vegum og það liggja nú þegar fyrir margvíslegar upplýsingar í ráðuneytinu sem ættu að koma nýrri nefnd eða nýju fólki sem að þessu verkefni kemur til með að vinna verulega til góða. Ég vona því að þau orð hv. 1. flm. eigi ekki eftir að standast þegar hann heldur því fram að ný heildarlöggjöf um almannatryggingar eigi ekki eftir að líta dagsins ljós á næstu árum.

Auðvitað er erfitt að setja í þessu tímamörk vegna þess að þetta er svo mikið verk. Ég hef þó leyft mér að vonast til þess að það yrði hægt að vinna að því svo hratt að við gætum ætlast til þess að sjá á næsta ári einhvern árangur slíks nefndarstarfs. Ég hef hugsað mér að reyna að beita mér fyrir því að svo verði.

Það frv. sem hér er flutt er sjálfsagt eins og öll önnur sem fjalla um breytingar á almannatryggingalögunum til að leiðrétta eitthvert óréttlæti og eitthvert misvægi. Hér er bent á samanburð við t.d. greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Mig langar þó til þess að benda á það eða koma því inn í umræðuna að starfandi eru sjúkrasjóðir á vegum launþegasamtakanna sem greiða verulegar upphæðir í sjúkradagpeninga til fólks sem svo er ástatt með eins og frv. þetta lýsir og ég held að við verðum að taka það með inn í myndina þegar við lítum á þær greiðslur og þær bætur sem fólk fær sem verður fyrir slysum eða sjúkdómum, sem verða bótaskyldir samkvæmt þessu lagaákvæði.

Hér er einnig, ef þetta frv. verður samþykkt, um verulega útgjaldaaukningu að ræða og ég held ég verði að nefna það, en vitna þó til framsöguræðu hv. flm. þegar hún mælti fyrir frv. þessu á síðasta Alþingi. Ég hef ekki haft tíma til að láta skoða hverjar þessar tölur væru núna, en þá greindi hv. flm. frá því að hækkunin samkvæmt ákvæðum frv. kynni að vera allt að 150 millj. kr. Hér er því út af fyrir sig ekki um litlar upphæðir að ræða.

En það sem ég vil segja á þessu stigi er að leggja ber áherslu á að auðvitað þarf að reyna að gæta samræmis milli einstakra ákvæða þessara laga á hverjum tíma. Bætur almannatrygginga voru hækkaðar verulega, og reyndar oftar á þessu ári, en nú í haust, 1. sept., til samræmis við lágmarkslaun í landinu. Það þarf að gæta að því hvað varðar einstaka bótaflokka að á milli þeirra sé nokkuð samræmi og sjálfsagt er að skoða það. Einnig geta allir tekið undir að ef ekki koma aðrar greiðslur til að lifa fyrir en 10 400 kr. á mánuði eru það að sjálfsögðu ekki lífvænleg laun eins og kemur réttilega fram í grg. með frv.

Ég álít líka að ákvæði það sem er fjallað um í 2. gr. þessa frv. sé sjálfsagt og eðlilegt að heilbr.- og trn. deildarinnar taki til skoðunar og vafalaust er það ákvæði sem þarf einnig að samræma við önnur ákvæði almannatryggingalaganna.

En ég minni að lokum á að ég vonast til þess, þrátt fyrir orð hv. flm. um vantrú á heildarendurskoðun laganna, að okkur takist samt sem áður að vinna það verk hratt og vel og það megi sjá dagsins ljós á Alþingi fyrr en seinna þó að ég ítreki að ég vil ekki á þessu stigi dagsetja þann atburð.