28.04.1988
Sameinað þing: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6938 í B-deild Alþingistíðinda. (4903)

497. mál, lausar stöður kennara og skólastjóra og ráðning í þær

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það eru háar tölur sem koma fram hjá hæstv. menntmrh. um leiðbeinendur, bæði í grunnskólum og framhaldsskólum. Við fengum upplýsingar sl. haust við fsp. um þessi efni. Mér sýnist talan varðandi grunnskólana vera allnokkru hærri en þá var fram borið. Samtals eru þetta um 800 stöður sem í öllu falli ber að auglýsa lögum samkvæmt, auk annarra sem losna.

Hæstv. ráðherra hefur eftir skólameisturum að nokkur bjartsýni ríki um lausn þessara mála. Kemur það mér satt að segja dálítið á óvart í þeirri stöðu sem samningamálin við kennarastéttina eru um þessar mundir. En auðvitað er ástæða til að vona að úr rætist.

Á það ber hins vegar að benda að í ákveðnum kennslugreinum ríkir mjög slæmt ástand, í handmennt, myndmennt, tónlistarfræðslu, íþróttakennslu umfram aðrar greinar, og það er sannarlega mjög tilfinnanlegt.

Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að taka þetta mál upp hér til að minna á það því það er aldrei of oft kveðin sú vísa sem hér er höfð uppi um þetta gagnvart framkvæmdarvaldinu.