28.04.1988
Sameinað þing: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6939 í B-deild Alþingistíðinda. (4904)

424. mál, ferðamenn

Fyrirspyrjandi (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. samgrh. er hljóðar svo:

„Hvað hafa margir ferðamenn komið til landsins á vegum innlendra ferðaskrifstofa frá 1980 og hvernig skiptast þeir á ferðaskrifstofur?"

Ég tel að það sé mjög mikils virði að geta áttað sig á því hvað ferðaskrifstofur vinni mikið að landkynningu og hvaða árangri þær hafa náð því að hinn ört vaxandi ferðamannastraumur til Íslands er eitt af því jákvæða sem verið hefur að gerast í íslenskum efnahagsmálum og tvímælalaust ber að stuðla að því að við höldum áfram á þeirri braut sem við höfum verið. Ég tel þess vegna að það sé augljóst mál að upplýsingar um þetta komi að gagni við að meta það m.a. hversu mikilvægt starf Ferðaskrifstofa ríkisins hefur unnið á undanförnum árum.