28.04.1988
Sameinað þing: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6939 í B-deild Alþingistíðinda. (4905)

424. mál, ferðamenn

Samgönguráðherra (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Enda þótt það komi ekki fram í fsp. lít ég svo á að hér sé átt við erlenda ferðamenn eingöngu en ekki íslenska ferðamenn sem fara héðan til útlanda og koma aftur til landsins á vegum íslenskra ferðaskrifstofa. Svar mitt hér á eftir byggist því á þessari forsendu.

Auk Ferðaskrifstofu ríkisins eru leyfisskyldar ferðaskrifstofur í eigu einkaaðila nú um 30 talsins. Flestar þeirra ef ekki allar vinna að meira eða minna leyti að móttöku erlendra ferðamanna og sölu á ferðum til þeirra. Ferðaskrifstofurnar eru mjög mismunandi að stærð og starfsemi sumra þeirra rís satt að segja tæpast undir nafni. Flestar þeirra eru aðilar að Félagi ísl. ferðaskrifstofa.

Erlendir ferðamenn til Íslands voru á sl. ári tæplega 130 þúsund og hafa aukist um nær 100% síðan 1980. Mjög mikill hluti af þessum ferðamönnum ferðast ekki á vegum innlendra ferðaskrifstofa. Má þar nefna sem dæmi útlendinga sem koma hingað til lands í viðskiptaerindum eða embættiserindum, sumir hverjir oft á ári, eða ferðamenn sem koma í fjölskylduheimsóknir o.s.frv. Almennir skemmtiferðamenn og þátttakendur í ráðstefnum sem hingað koma á vegum erlendra eða íslenskra ferðaskrifstofa eru oftast þátttakendur í hópferðum. Þá er hins vegar mjög mismunandi hve mikla þjónustu íslenskar ferðaskrifstofur láta erlendum ferðamannahópum í té. Stundum selur íslensk ferðaskrifstofa þannig ferðapakka í heild, þ.e. ferð erlendis frá með ferðum, gistingu og fæði hér innan lands. Í mörgum tilvikum selur erlend ferðaskrifstofa pakkann í heild en fær innlenda ferðaskrifstofu til að sjá um hluta hans, svo sem ferðir hér innan lands. Farþegar á erlendum skemmtiferðaskipum eru ekki taldir með í þeim fjölda erlendra ferðamanna sem ég nefndi hér í upphafi, en að svo miklu leyti sem þeir koma í land og ferðast hér um er það á vegum íslenskra aðila.

Af því sem ég hér hef sagt má ljóst vera að það er engan veginn einfalt að skilgreina hvaða erlendir ferðamenn, sem hingað koma til landsins, eru á vegum innlendra ferðaskrifstofa. Það eitt út af fyrir sig gerir það að verkum að spurningunni er ekki auðvelt að svara. Samkvæmt upplýsingum Félags ísl. ferðaskrifstofa eru engar tölur handbærar um fjölda þeirra ferðamanna og gildir þá einu þótt reynt sé að takmarka sig við útlendinga sem kaupa pakkaferðir í heild af íslenskum ferðaskrifstofum. Það er enn fremur ógerlegt að afla þessara upplýsinga þar sem einstakar skrifstofur líta á slíkar upplýsingar sem einkamál sem óæskilegt sé að komist í hendur annarra aðila sem þeir eiga í samkeppni við. Engin ákvæði eru í lögum um ferðamál um að ferðaskrifstofur haldi slíkum upplýsingum sem þessum til haga og því er það ekki á valdi opinberra aðila að afla þeirra frá hlutaðeigandi aðilum.

Hitt er svo annað mál að samkvæmt áætlun manna sem þekkja vel til á þessu sviði gæti fjöldi þeirra erlendu ferðamanna sem ferðast hingað alfarið á vegum íslenskra ferðaskrifstofa hafa numið á sl. ári allt að 30 þúsund erlendum ferðamönnum og um 12–15 þúsund ferðamönnum árið 1980. Ég vil þó undirstrika að hér er um að ræða áætlun sem þeir sem best til þekkja hafa gert. Af þessum 30 þúsund ferðamönnum er ætlað að 22 þúsund hafi komið í skipulögðum ferðum með hótelgistingum og 8 þúsund í öðrum skipulögðum ferðum.