28.04.1988
Sameinað þing: 73. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6955 í B-deild Alþingistíðinda. (4918)

505. mál, vantraust á ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar

Júlíus Sólnes:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Þegar ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar kom til valda 8. júlí á sl. ári fékk hún góðan meðbyr í skjóli mikils þingstyrks og lykilaðstöðu í þjóðfélaginu. Væntingar manna voru því miklar. Formaður Borgarafl., Albert Guðmundsson, benti þó strax á að flokkarnir sem stæðu að ríkisstjórninni væru svo ólíkir og stefnumál þeirra svo mismunandi að þetta yrði stjórn sundurlyndis og óeiningar. Þessi spádómur varð fljótur að rætast og nú er svo komið að ríkisstjórnin situr ráðvillt og rúin trausti eftir að hafa setið við völd í aðeins tíu mánuði. Helstu forsvarsmenn atvinnulífsins í landinu og allur almenningur er orðinn undrandi á úrræða- og stefnuleysi ríkisstjórnarinnar. Það er ekki einungis að hún virðist hafa gefist upp við að stjórna landinu og lætur allt reka á reiðanum. Allar aðgerðir hennar eru fálmkenndar og ómarkvissar, enda eru ráðherrarnir aðallega uppteknir af því að munnhöggvast hver við annan í fjölmiðlum, svo ekki sé talað um einstaka stjórnarþingmenn sem eru nánast í harðri stjórnarandstöðu á þingi. Ríkisstjórnin hefur ekki náð neinum tökum á efnahagsmálunum. Á þeim stutta tíma sem hún hefur setið hefur hún hvað eftir annað gripið til alls kyns ráðstafana í efnahags- og peningamálum sem því miður hafa komið að litlu haldi og vakið litla hrifningu landsmanna.

Fálmkenndar aðgerðir hennar hafa fremur aukið en náð að leiðrétta misvægi milli atvinnugreina og veikt stöðu útflutningsgreina og samkeppnisiðnaðar. Þetta hefur komið hart niður á landsbyggðinni og bitnað illa á launafólki.

Hornsteinn efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar er fastgengisstefnan. Hún birtist okkur í því formi að raungengi íslensku krónunnar hefur farið ört hækkandi vegna miklu meiri verðbólgu innan lands en í nágrannalöndum okkar. Útflutningsframleiðsla okkar á því undir högg að sækja. Allur tilkostnaður vex hröðum skrefum vegna 20–30% verðbólgu á meðan útflutningstekjurnar standa í stað. Ástandið er orðið þannig að nær öll fyrirtæki í frumvinnslugreinunum, fiskvinnslu og landbúnaði, ramba á barmi gjaldþrots. Í fréttum síðustu daga segir að bankarnir geti ekki haldið þeim á floti öllu lengur.

Iðnfyrirtæki og önnur fyrirtæki sem selja framleiðslu sína og þjónustu erlendis berjast öll í bökkum af sömu ástæðu. Forustumenn ferðamála eru einnig mjög uggandi um ástandið. Hætta er á að ferðamannaþjónusta, sem hefur verið mikill og vaxandi atvinnuvegur og skilar nú um 10 milljörðum kr. árlega í þjóðarbúið eftir mikið og gott uppbyggingarstarf, hrynji saman. Útlendingum sem hingað koma blöskrar verðlagið, einkum þó hið geipiháa verð á matvörum og hvað þeir fá lítið fyrir gjaldeyrinn. Á sama tíma er erlendur gjaldeyrir nánast á útsölu og alls kyns erlendur varningur flæðir inn í landið, bílar og hvers kyns „græjur“.

Hæstv. fjmrh. hælir sér af Glasgow-verði á innfluttum vörum og hvetur fólk til þess að notfæra sér þetta þótt hann í hina röndina kvarti yfir óhóflegum innflutningi á bifreiðum. Engan skyldi því undra þótt viðskiptahallinn stefni nú í 20 milljarða kr. sem er um þriðjungur fjárlaga hins íslenska ríkis. Skyldi nokkur þjóð í víðri veröld leyfa sér annað eins?

Engu líkara er en hæstv. ráðherrarnir haldi að þjóðin geti lifað á því að höndla með pappíra og flytja inn vörur frá útlöndum. Þjóðartekjurnar virðast eiga að byggjast á svokölluðum fjármagnsmarkaði þar sem við seljum hvert öðru alls kyns verðbréf, spariskírteini og hvað þetta heitir nú allt saman. Ríkisstjórnin telur líklega að fiskvinnsla og annað þess háttar dútl sé orðið úrelt. Framleiðendur útflutningsafurða eru hvort eð er alltaf að kvarta og kveina; stanslaust að heimta gengisfellingu. Ríkisstjórninni finnst sennilega best að losna við þá og nöldur þeirra til frambúðar.

Við þingmenn Borgarafl. hörmum það ástand, sem hefur skapast í þjóðfélaginu, að stórir hópar launafólks eru fjær því en nokkru sinni fyrr að geta lifað mannsæmandi lífi af átta stunda vinnudegi.

Kaupmáttur launa rýrnar nú ört með hækkandi verðlagi. Einkum er áberandi mikil hækkun á gjöldum fyrir opinbera þjónustu, svo og á brýnustu lífsnauðsynjum. Það stoðar lítið þótt ýmsar innfluttar lúxusvörur hafi staðið í stað eða jafnvel lækkað í verði. Fólk leggur sér þær ekki til munns.

Engin aðgerð ríkisstjórnarinnar hefur því komið eins illa við almenning og álagning söluskatts á matvæli. Sérstaklega var það vítavert að leggja söluskatt á innlenda matvöru sem kemur harðast niður á lágtekjufólkinu. Landbúnaðarafurðir verða alltaf dýrar á Íslandi. Við getum ekki keppt við framleiðslu í nágrannalöndum okkar þar sem öll skilyrði til landbúnaðar eru miklu hagstæðari. Lágt framleiðsluverð á landbúnaðarvörum í Evrópulöndunum þolir að söluskattur sé lagður á matvæli þar. Það gildir hins vegar ekki á Íslandi.

Það virðist því vera nokkuð augljóst, þótt ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafi ekki komið auga á þá lausn, að rétta verður hlut útflutningsatvinnuveganna með því að taka upp annars konar skráningu á gengi krónunnar. Sjálfsagt er að athuga hugmyndir um uppboðsmarkað á gjaldeyri eða skráningu krónunnar í samræmi við raungildi útflutningsverðmæta okkar. Um leið þarf að draga úr kostnaði innan lands. Gætu ríkið og opinberir aðilar riðið þar á vaðið með þjónustugjöld sín.

Lækka þarf verð á helstu nauðsynjum almennings þannig að fólk geti a.m.k. haft efni á því að borða þótt bílar og alls kyns innfluttar „græjur“ verði eitthvað dýrari. Þannig yrði best höggvið í viðskiptahallann.

Algert öngþveiti ríkir nú í húsnæðismálum. Ungt fólk fyllist vonleysi þegar því er ljóst að það getur þurft að bíða fram á næstu öld eftir húsnæðislánum. Það er stjórnmálamönnum til vansa að hafa ekki getað komið með viðunandi lausn á húsnæðisvandamálinu fyrir löngu. Borgarafl. hefur beitt sér mjög fyrir nýjum hugmyndum í húsnæðismálum og lagt fram ítarlegar tillögur um heildarendurskoðun á húsnæðislöggjöfinni á þingi. Við höfum ekki lagst gegn frv. hæstv. félmrh. um kaupleiguíbúðir og tekið því á jákvæðan hátt. Hins vegar höfum við talið að þörfin væri brýnni fyrir aukið leiguhúsnæði. Formaður Borgarafl. ítrekaði þetta í umræðum um kaupleigufrv. nú í vikunni og lagði m.a. til að byggðar yrðu leiguíbúðir á vegum sveitarfélaga og annarra félagasamtaka þar sem leigukostnaður væri ekki meiri en sem næmi 25% af lægstu tekjum.

Það er mjög athyglisvert að í ár svo sem þrjú undanfarin ár eru ytri skilyrði hagstæðari fyrir íslenskan þjóðarbúskap en nokkru sinni. Sjávarafli er mikill. Gott verð fæst fyrir hann á erlendum mörkuðum og olíuverð er lágt. Því væri um áframhaldandi góðæri að ræða ef ekki sæti sundurlynd ríkisstjórn við völd sem er á villigötum í efnahagsmálum. Ríkisstjórnin dregur dul á þessar staðreyndir og reynir að telja almenningi trú um að ytri skilyrði séu mjög óhagstæð, m.a. með því að láta birta þjóðhagsspár sem mála hlutina dökkum litum.

Í þessu ljósi verður að skoða þá kjarasamninga sem verið er að gera. Virðist svo sem eigi að réttlæta það fyrir launafólki að það verði enn á ný að axla byrðarnar, sætta sig við minnkandi kaupmátt og dagvinnulaun langt undir framfærslukostnaði. Þetta fólk á enga sök á þeim gífurlega viðskiptahalla sem nú hrjáir þjóðarbúskapinn. Þar er eingöngu við stjórnvöld að sakast.

Skatta- og ofstjórnunarstefna ríkisstjórnarinnar er með ólíkindum. Höfuðáhersla er lögð á að leggja meiri skatta og nýjar álögur á almenning. Þannig jókst útgjaldahlið fjárlaga um rúmlega 20 milljarða kr. milli áranna 1987 og 1988 eða um nærri 50%. Verið er að þröngva upp á þessa fámennu þjóð hinu flókna virðisaukaskattskerfi milljónaþjóðanna í Efnahagsbandalaginu án tillits til þess hvort það henti okkur hér þar sem aðstæður eru allt aðrar. Verið er að koma á hálfgerðu lögregluríki þar sem stór hluti vinnufærra manna verður önnum kafinn við að reikna út og innheimta skatta fyrir ríkið og fjölmennar eftirlitssveitir hæstv. fjmrh. fylgjast með því hvort þeir geri þetta nú rétt.

Borgarafl. vill beita sér fyrir einfaldara og réttlátara samfélagi þar sem hagsmunir almennings eru hafðir að leiðarljósi og einstaklingurinn fær að njóta ávaxta elju sinnar og hugvits. Ekki síst með því að hlynna að þeim vaxtarbroddi atvinnulífsins sem felst í hvers kyns nýjungum á sviði viðskipta, iðnaðar og tækni. Við viljum stuðla að því með skynsamlegri rammalöggjöf að iðnfyrirtæki og verslunarfyrirtæki búi við eins hagstæð starfsskilyrði og framast er unnt með frjálsræði til athafna og viðskipta, hvort sem er á erlendri eða innlendri grund, án drepandi eftirlits Seðlabankans. Umfram allt þarf þó að skapa það skattumhverfi sem er hagstætt litlum fyrirtækjum svo og atvinnulífinu í heild. Það þarf að leita leiða sem henta okkur Íslendingum, leiða sem rétta hlut landsbyggðarinnar og þess launafólks sem hefur borið skarðan hlut frá borði þrátt fyrir mikinn þjóðarauð.

Ekkert af þessu mun ganga eftir meðan núverandi ríkisstjórn er við völd. Því lýsir Borgarafl. yfir vantrausti á ríkisstjórnina.