28.04.1988
Sameinað þing: 73. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6958 í B-deild Alþingistíðinda. (4919)

505. mál, vantraust á ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar

Guðmundur Ágústsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Hvað ber að gera við ríkisstjórn sem nýtur ekki trausts þjóðarinnar? Á að leyfa henni að halda áfram í von um að hún lagist eða láta hana fara áður en hún gerir meira af sér? Þetta er sú spurning sem við verðum að svara hér í kvöld. Okkur ber umfram allt að gæta hagsmuna þjóðarinnar og þess er hinni ósamstæðu og úrræðalitlu ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar ekki treystandi til.

Í mínum huga er enginn vafi frekar en annarra þingmanna Borgarafl. Þessari ríkisstjórn hefur gjörsamlega mistekist það ætlunarverk sitt að ná tökum á efnahagsmálum þjóðarinnar. Í stað þess að leysa vandamál eykur hún þau með röngum ákvörðunum og aðgerðarleysi. Við blasa því torleystari og flóknari vandamál en áður.

Það er sama hvar borið er niður, allt ber að sama brunni, á heimilunum, í fyrirtækjunum, í þjóðarbúinu. Vonleysi hefur gripið um sig, fólkið er að missa trúna á sjálfu sér og sjálfstæði þjóðarinnar.

Hvernig er umhorfs eftir tæplega árs stjórnarsetu þessarar ríkisstjórnar? Hverju hefur hún áorkað og hvað hefur hún leitt af sér? Svo mikið er víst: Skattheimta hefur stóraukist og er nú meiri en hún hefur nokkru sinni verið miðað við landsframleiðslu. Kaupmáttur hefur rýrnað og á eftir að rýrna enn meir eftir því sem líður á árið ef heldur áfram sem horfir. Röskun byggðar hefur verið aldrei meiri en einmitt nú. Viðskiptahallinn er gífurlegur og hefur aldrei verið í líkingu við það sem hann stefnir í að vera á þessu ári. Skuldasöfnun erlendis er að nálgast hættumörk, launamisréttið hefur aukist, vaxtabölið er óheyrilegt og háskalegur taprekstur er hjá atvinnuvegunum. Ofan á þetta bætist verkfall verslunarmanna sem lamað hefur allt viðskiptalífið. Staðan er sem sagt hrikaleg.

Hvað er ríkisstjórnin annars með á prjónunum? Ekkert. Aðeins úrræðaleysið og sundurþykkjuna nema ef vera kynni nýjar skattaálögur eins og einkennt hefur þessa ríkisstjórn. Hvernig er með verðbólguna? Hefur henni verið náð niður? Nei. Samkvæmt síðustu útreikningum lánskjaravísitölunnar er verðbólgan nú komin á þriðja tuginn og stefnir hraðbyri upp á við. Áhrif gengisfellingarinnar frá því í mars eru þó ekki enn komin í ljós og aðrar hækkanir eins og hækkanir bifreiðagjalda. Það stefnir í stóraukna verðbólgu þó ekki verði gripið til gengisfellingar sem nú virðist þó allt benda til.

Á heimilunum er vandinn verstur. Þær miklu skattahækkanir sem dunið hafa yfir frá því að ríkisstjórnin tók við völdum hafa leikið heimilin grátt og þá sérstaklega láglaunafólkið, ellilífeyrisþegana, öryrkjana og barnmargar fjölskyldur sem nú ná ekki endum saman. Þetta fólk er að gefast upp og það segir meira um stefnu ríkisstjórnarinnar en nokkrar tölur og línurit. Það er ekki aðeins hinn illræmdi matarskattur sem fólk er að mótmæla heldur einnig að ríkisstjórnin skuli ekki koma til móts við fólkið í landinu með aðgerðum er minnki þann mikla skell sem matarskatturinn hafði í för með sér. Hækkun barnabótanna vegur ekki þungt því fyrir það fyrsta hækkuðu þær óverulega frá því sem áður var og í annan stað náðu þær ekki til hins stóra hóps fólks sem hefur ekki börn á framfæri.

Þingmenn Borgarafl. undir forustu hv. þm. Aðalheiðar Bjarnfreðsdóttur lögðu fram tillögur til ríkisstjórnarinnar um hækkun skattleysismarka í 55 þús. kr. til að koma til móts við fólkið og að ríkið endurgreiddi fólki sem ekki náði því marki með ónýttum persónufrádrætti sem hefði þýtt að öllum yrðu tryggð 43 þús. kr. lágmarkslaun á mánuði. Á þessa tillögu Borgarafl. var ekki hlustað. Þess í stað bauð ríkisstjórnin launafólki birginn og fær svarið nú með verkfalli verslunarmanna.

Dómgreindarleysi ráðherra er einstakt. Að bjóða þegnunum upp á að hækka skatta um 50% á milli ára og banna þeim á sama tíma að hækka laun meira en 17% gengur hreinlega ekki upp. Fyrirtækin hafa ekki farið varhluta af þessari stefnu. Þau hafa verið mjólkuð til blóðs eins og almenningur. Jafnframt eru þeim búin þannig ytri skilyrði að þeim er gert ókleift að keppa við innfluttan varning. Það eru fyrst og fremst máttarstólpar nýfrjálshyggjunnar sem hagnast. Kaupleigu- og fjárfestingarfyrirtækin spretta upp eins og gorkúlur á haug, fyrirtæki sem bæta ekki þjóðarhag, en ríkisstjórnin heldur verndarhendi yfir. Það er kjarni efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar og lýsir best hvaða hagsmuni ríkisstjórnin hefur að leiðarljósi.

Fiskvinnslan er talin rekin með 10% halla, ullariðnaðurinn hefur stöðvast og samkeppnisiðnaðurinn stendur höllum fæti og er að missa hlutdeild sína í markaðnum til erlendra fyrirtækja. Ástæðan er rangt gengi krónunnar, fastgengisstefnan rómaða, hornsteinn efnahagsstefnunnar.

Því skyldi skattagleðin vera svo mikil? Samkvæmt orðum hæstv. fjmrh. er hún til að halda uppi velferðarkerfinu, því kerfi sem kemur engum til góðs nema kerfinu sjálfu eins og það lítur út hjá núverandi ríkisstjórn, enda á það ekkert skylt við velferð það kerfi byggir á því að murka lífið fyrst úr almenningi svo kerfið geti komi til móts við fólkið með ölmusu. Þessi ríkisstjórn er fjandsamleg einstaklingnum og athafnasemi hans og hugsar út frá þörfum kerfisins en ekki þegnanna. Ráðherrarnir hugsa út frá því hvað þeir telja einfaldast fyrir kerfið, réttlátast og skilvirkast fyrir embættismennina. Þarfir þegnanna eru hins vegar fyrir borð bornar. Engu skiptir hvort þegnarnir geta lifað eða starfað meðan kerfið getur gengið upp. Ríkisstjórn sem hefur það að markmiði að hugsa um kerfið fram yfir þegnana á ekki tilkall til að hafa völdin á Íslandi.

Hvað vill Borgarafl. gera? Það er ljóst að hann vill ekki halda áfram á þessari óheillabraut. Hann vill brjótast úr þessum kerfishugsanagangi og skapa hér þjóðfélag manneskjunnar sem byggir á þörfum þegnanna og tekur mið af íslenskum veruleika með athafnasemi og frjálsræði einstaklingsins að leiðarljósi.

Meðan við höfum þessa fjandsamlegu ríkisstjórn höfum við djöful að draga og því er nauðsyn að hún fari frá sem fyrst.