28.04.1988
Sameinað þing: 73. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6963 í B-deild Alþingistíðinda. (4921)

505. mál, vantraust á ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Góðir áheyrendur. Vantraust er borið fram á ríkisstjórnina sem þýðir að hún verður að víkja, verði það samþykkt. Hverjir bera þetta vantraust fram? Eru þeir aðilar trúverðugir eða líklegir til að þora sjálfir að semja um aðild að nýrri ríkisstjórn?

Það er tæpt ár síðan mikið var reynt til að fá Kvennal. og Alþb. til að axla ábyrgð. Þjóðin hefur enn ekki gleymt því að Þorsteinn Pálsson og Jón Baldvin Hannibalsson ætluðu í samstarf við þessa flokka. Þeir félagar neituðu viðræðum við formann Framsfl., Steingrím Hermannsson, sem fyrstur fékk umboð til að mynda ríkisstjórn þrátt fyrir þann árangur í efnahagsmálum sem náðist á síðasta kjörtímabili í samstarfi Framsfl. og Sjálfstfl.

Sannleikur málsins er sá að Alþb. og Kvennal. brast kjark að afloknum síðustu kosningum til að þora svo mikið sem að ræða við aðra flokka í alvöru. Hvað þá að takast á við að stjórna landinu. Var þó á þeim tíma hinn orðhvati Svavar Gestsson ósár í fylkingarbrjósti Alþb. Hver getur bent mér á forustusveit í liði Kvennalistans? Ég lýsi eftir þeirri forustu.

Það væri skammsýni að rjúfa þetta stjórnarsamstarf á þessari stundu. Hver vill kosningar nú? Slík ákvörðun þýddi margra mánaða upplausn ofan í mikla erfiðleika sem við blasa. Ég vil áður en til þess verður gripið láta reyna á hvort ríkisstjórnin með mikinn þingstyrk nái samstöðu um aðgerðir.

Hér er í gangi vaxtastefna og frjálsræði í peningamálum sem leggur efnahag fólks og fyrirtækja í rúst ef ekki fást snarpar aðgerðir. Enn fremur verður að minnka viðskiptahallann við útlönd. Innflutningurinn sem hér viðgengst ber í sér helstefnu atvinnuveganna ef svo heldur fram sem nú horfir.

Það fer ekki fram hjá neinum Íslendingi að það hriktir í framleiðslu- og samkeppnisgreinum í landinu. Svifasein efnahagsstjórn á sinn þátt í því, það skal viðurkennt. Hér hefur ríkt sú árátta að reyna þolrifin hjá þeim sem selja vörur á erlendan markað og rekin er svokölluð núll-stefna gagnvart þeim greinum.

Ég er ekki talsmaður hafta eða ofstjórnunar en hér verða að ríkja þær reglur að það sé vænlegra að vinna og framleiða vörur á innlendan og ekki síst erlendan markað en að kaupa vörur erlendis frá og selja í landinu. Mér finnst kokhreysti og kröfugerð frjálshyggjuafla með ólíkindum og því miður eru áhrif þeirra of mikil.

Ég undrast róminn úr Seðlabankahöllinni. Fastgengisstefna getur verið góð ef allt hitt lýtur einnig aðhaldi. Framleiðsluatvinnuvegirnir geta ekki búið við verðstöðvun meðan öllum hækkunum innan lands er vísað út í verðlagið. Erlendur gjaldeyrir er nefnilega eina tekjulind fiskvinnslunnar.

Við sjáum þessa sögu best á því að allt í einu er orðið fjórðungi ódýrara að flytja inn fiskumbúðir erlendis frá en að kaupa þær af íslenskum iðnfyrirtækjum sem hafa staðist erlenda samkeppni í áratugi. Þetta er vandi samkeppnisgreinanna í hnotskurn.

Íslenskur fjármagnsmarkaður þarf 10–15% raunvexti þegar í samkeppnislöndum eru 4–7% vextir og þaðan af lægri. — Er þetta hægt, Eyjólfur? var spurt í mínu ungdæmi. Er þetta hægt, Jóhannes? spyr ég nú.

Við framsóknarmenn erum ekki alsælir í þessari ríkisstjórn, það játa ég fúslega. En ríkisstjórnin er ung og má því ekki hika. Byggðamálin eru eitt stærsta málið sem hún verður að leysa á næstu mánuðum. Við verðum að stöðva átökin á milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins. Forstjóri Byggðastofnunar hefur sett fram vanda landsbyggðarinnar í fáeinum hnitmiðuðum orðum. Hann telur að öflugt atvinnulíf og mannlíf á landsbyggðinni sé þjóðinni nauðsynlegt, ekki síst vegna þess hversu mikill hluti útflutningsteknanna skapast þar. Hann varar við aðgerðum í ýmsum málaflokkum sem eru að meira eða minna leyti á ábyrgð ríkisvaldsins og munu leiða til enn meiri samþjöppunar á einum stað en nú er. Þarna á hann við þjónustustörfin. Forstjórinn varar við borgríkinu og versnandi lífskjörum ef svo fer.

Þessi ríkisstjórn verður því að finna leiðir til að færa þjónustuna og valdið heim í héruðin. Hér má ekki skýrslugerð standa í vegi fyrir aðgerðum. Fækka verður störfum hér í stofnunum og ráðuneytum á höfuðborgarsvæðinu og færa þau heim í héruðin.

Menn ræða tvær leiðir í þessum efnum. Annars vegar umtalsverða stækkun sveitarfélaganna. Hin leiðin er að lögbinda umtalsverða samvinnu sveitarfélaga og taka upp svonefnt þriðja stjórnsýslustig. Héraðsstjórnirnar yrðu í raun aukið valdsvið sveitarstjórna. Um allan hinn vestræna heim er litið á eflingu heimastjórna og héraðsstjórna sem bestu leiðina til að viðhalda byggð og lýðræði. En þær skyndiaðgerðir sem nú verður að gera gagnvart landsbyggðinni eru, auk almennra aðgerða í efnahagsmálum:

Að lækka og jafna orkuverðið.

Aðgerðir til að lækka vöruverðið. Þarna verður ríkisstjórnin að ganga til liðs við landsbyggðarverslunina.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga er eitt stærsta málið og þá að ríkisvaldið þori að gera Jöfnunarsjóðinn að því jöfnunartæki sem honum var ætlað í upphafi. Sveitarfélögin verða að hætta að búa við þá óvissu sem viðgengist hefur síðustu árin, að sjóðurinn sé skertur. Enn fremur verðum við öll sem á landsbyggðinni búum að snúa umræðunni okkur í hag. Bjartsýnin og trúin hafa sitt að segja.

Við sjáum nýja sprota atvinnulífs á landsbyggðinni. Fiskeldi, loðdýrarækt og þjónusta við ferðamenn eiga glæsta möguleika, þ.e.a.s. ef sú skoðun næst fram í ríkisstjórninni að þeim sem afla gjaldeyris sé ekki ætlaður verri kostur en hinum sem ástunda að eyða honum.

Þrátt fyrir samdrátt í hefðbundnum landbúnaði sjáum við þess merki að markviss stjórnun og samstaða hefur gert það að verkum að sóknin er hafin.

Ég vil segja það um launamálin að ég harma það að verkalýðshreyfingin og aðilar vinnumarkaðarins hafi ekki komið sér saman um að bæta kjör þeirra sem því miður hafa of lág laun, að slíkar tillögur skuli jafnan flæða upp launastigann.

En aðalmálin eru — og miðstjórnarfundur Framsfl. ályktaði um þau — að við tækjum á fjármagnsmarkaðinum, lánskjaravísitölunni, hvers konar vísitöluviðmiðun, sköttun fyrirtækja og ekki síst byggðamálunum. Á þessa ályktun reynir á næstu vikum.