28.04.1988
Sameinað þing: 73. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6986 í B-deild Alþingistíðinda. (4929)

505. mál, vantraust á ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar

Ingi Björn Albertsson:

Herra forseti, góðir áheyrendur. Þegar átrúnaðargoð kallar út til fólksins: „Róm brennur!", þá leggur fólkið að sjálfsögðu við hlustir og skelfist. Það bíður næsta merkis frá goðinu, hvað það hyggist gera, hvernig það hyggist ráða niðurlögum eldsins. En það heyrist ekkert frá goðinu, hvorki hósti né stuna. En fólkið þykist vita ástæðu þess. Goðið hlýtur að vera erlendis í mikilvægum erindagerðum og einkaviðræðum.

En fljótlega kemur í ljós að svo er ekki að þessu sinni. Aldrei þessu vant er goðið statt í heimalandi sínu og skilur ekkert í því hversu glatt Róm logar þó að það hafi sjálft staðið að íkveikjunni. En þegar neyðin er stærst er hjálpin næst. Á vettvang kemur eigandi Íslands, hæstv. fjmrh. Hann er ekkert að tvínóna við hlutina frekar en fyrri daginn og hefur þegar slökkvistarf og skvettir án afláts olíu á eldinn og skilur ekkert í því að slökkvistarfið virðist ganga seint og illa og að sífellt magnast eldurinn. Goðið sér hins vegar að hér er komið í hið mesta óefni og þvertekur nú fyrir það að hann eða hans menn eigi nokkurn þátt í brunanum. Hann hafi verið erlendis, enginn hafi talað við hann o.s.frv.

Svona er nú sandkassaleikur ríkisstjórnarinnar. Svona taka þeir á vandamálum þjóðarinnar. Um allt þjóðfélagið loga eldar þessa dagana og alls staðar er sömu aðferð beitt við slökkvistarfið, að skvetta olíu á eldinn.

En hvar er æðsti prestur, hæstv. forsrh., þegar allar þessar hörmungar eru að ríða yfir þjóðfélagið? Hann situr í sínum fílabeinsturni með hendur í kjöltu og aðhefst ekkert, er sennilega með hugann hjá Reagan. Er nema von að stjórnarandstaðan reyni að forða þjóðinni frá þeim örlögum sem hennar hljóta að bíða ef þessir menn eru öllu lengur við stjórnvölinn? Ég get ekki treyst svona vinnubrögðum og því lýsi ég vantrausti á þessa ríkisstjórn. Ég tel mér það skylt.

Á þingi eru fjórir stjórnarandstöðuflokkar og eru þeir um margt mjög ólíkir. En um eitt eru þeir þó sammála: Að ríkisstjórnin er ekki á réttri leið. Meiri ófriður hefur ríkt á vinnumarkaðinum en um langt árabil. Eitt stærsta launþegasamband landsins er í verkfalli vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar ef marka má orð formanns VR, Magnúsar L. Sveinssonar, sem jafnframt er æðsti maður Sjálfstfl. í Reykjavík sem forseti borgarstjórnar. Hann sagði að verkfall þetta væri svar fólksins við álagningu hins hörmulega matarskatts. Sjálfsagt er það rétt hjá honum, enda er matarskatturinn einhver lágkúrulegasta árás sem gerð hefur verið á allan almenning hér á landi frá upphafi byggðar.

Það eru falsrök ein að álagning matarskatts sé nauðsynleg vegna komandi virðisaukaskattskerfis. Það er ekkert sem segir að í virðisaukaskattskerfi rúmist ekki fleiri skattþrep en eitt, enda þekkist það víða um heim að þjóðir noti jafnvel allt upp í sex skattþrep.

Við borgaraflokksmenn börðumst af krafti gegn matarskattinum og munum halda þeirri baráttu áfram við umræðurnar um virðisaukaskattinn og leggja fram brtt. við það frv. er gerir ráð fyrir tveim skattþrepum, þ.e. einu lágu þrepi á matvæli og helstu nauðsynjavörur og síðan háu þrepi á aðrar vörur. Ég mun ekki samþykkja frv. eins og það er í dag með einni flatri skattprósentu upp á 22%.

Meginvandamál íslensku þjóðarinnar á árinu 1988 er ríkisstjórnin. Við finnum það öll, t.d. á heimilisreikningum. Við finnum það og sjáum að íslenskur iðnaður er að líða undir lok. Við verðum fljótlega að fletta upp í Öldinni okkar til að fræðast um íslenskan iðnað. Við horfum upp á sjávarútveg og fiskvinnslu lepja dauðann úr skel. Við heyrum neyðaróp landsbyggðarinnar. Við heyrum neyðaróp húsbyggjenda, námsmanna, atvinnurekenda, kennara, starfsstétta heilbrigðisþjónustunnar o.fl. Við búum við vaxtaófreskju og lánskjaravísitölu sem alla er að drepa. Er því nema von að spurt sé hvað ríkisstjórnin ætli að gera? Er nema von að lýst sé yfir vantrausti á ríkisstjórnina þegar í ljós kemur að hún er gjörsamlega úrræðalaus og ræður sýnilega ekkert við vandann?

Hvernig er hægt að ætlast til að þessi ríkisstjórn geti leyst nokkurn vanda þegar hver höndin er upp á móti annarri? Þeir geta ekki lagt fram minnstu mál án þess að allt leiki á reiðiskjálfi á stjórnarheimilinu. En þeim líður vel í stólunum og þeim sleppa þeir ekki hvað sem tautar og raular. Þeir úthúða hvor öðrum úti í þjóðfélaginu, í fjölmiðlum og alls staðar þar sem þeir því við koma, enda löngu búnir að glata trausti hver til annars, ef það var þá nokkurn tíma til staðar.

En það sem verst er er að ríkisstjórnin hefur glatað trausti þjóðarinnar. Er þá ekki kominn tími til að víkja eða í það minnsta að líta í eigin barm og spyrja sjálfan sig: Hvar hefur okkur mistekist, hvað er til ráða?

Það er hægt að tína til svo ótalmargt sem þessi ríkisstjórn hefur kynnt sem stefnu sína en ekki staðið við, eins og t.d. fastgengisstefnuna sem er að verða einhver merkilegasta fastgengisstefna sem upp hefur verið fundin, þ.e. að gengi skuli haldið föstu á milli gengisfellinga. Hér eru miklir galdramenn á ferðinni.

Það eina sem þessi ríkisstjórn virðist vera með hugann við fyrir utan gengisfellinguna, sem virðist því miður óumflýjanleg, er hvernig og hvaða nýja skatta hún geti fundið upp til að leggja á fólkið í landinu. Önnur eins skattpíningarstjórn hefur aldrei setið við völd á Íslandi. Þessi ríkisstjórn hefur hækkað skatta frá síðasta ári um langt yfir 20 milljarða króna, yfir 50%. Samt reyna þessir ágætu herrar að telja fólki trú um að það komi ekkert við budduna, að það hafi engin áhrif á kaupmátt þess, að 5–15% hækkun launa dekki þessar auknu álögur fullkomlega að ógleymdum þeim gífurlega auknu barnabótum — eða hitt þó heldur — sem nú eru greiddar. Þær hafa aukist það mikið að það jaðrar við að vera merkjanlegt.

Halda ráðamenn virkilega að Íslendingar sjái ekki í gegnum svona? Auðvitað sér fólkið í gegnum þetta og það mótmælir. Það lætur ekki bjóða sér upp á slíka meðferð. Þess vegna er slík ólga í þjóðfélaginu sem raun ber vitni.

Þessi ríkisstjórn felldi nýlega gengið um 6% til þess m.a. að ná niður gífurlegum viðskiptahalla sem var fyrirsjáanlegur, um 13 milljarða kr. á árinu. Með gengisfellingunni töldu þeir sig ná hallanum niður í u.þ.b. 10 milljarða á þessu ári. En hver er staðreynd málsins? Viðskiptahallinn er talinn geta orðið allt að 20 milljarðar. Þar með slær þessi ógæfusama ríkisstjórn enn eitt metið sem þó heitir þjóðinni hallalausum viðskiptum við útlönd í stefnuskrá sinni.

Nú er svo komið að senda á þingið heim áður en gengið hefur verið frá allmörgum aðkallandi málum. Talað er um að þingslit geti orðið upp úr viku af maí. Af hverju skyldi það vera gert? Það er gert vegna þess að forsrh. hefur engin tök á þinginu. Hér á ég ekki við ótuktarlega stjórnarandstöðu. Hér á ég við hina almennu stjórnarliða, ekki síst úr flokki forsrh. sjálfs. Þeir eru ódælir sumir og lái þeim það hver sem vill. Sjálfstfl. er sem stjórnlaust rekald, tvístraður hist og her.

Alþfl. hefur hins vegar sýnt og sannað að hann hefur gersamlega glatað rétti sínum til að kenna sig við alþýðu og jafnaðarmennsku, hafi hann einhvern tíma haft þann rétt. Hjá þeim gildir aðeins hroki, yfirgangur og skeytingarleysi um náungann og sannar málflutningur þeirra fulltrúa það vel hér í kvöld.

Framsfl. er hins vegar í sárum eftir mikla vindverki undanfarið og læðist nú með veggjum eftir frumhlaup flokksins um síðustu helgi. Þá stóð öll þjóðin á öndinni af eftirvæntingu eftir afgerandi úrræðum flokksins þjóðinni til bjargar. En alveg eins og aðrir er kenna sig við töfra var hér aðeins um sjónhverfingar að ræða.

Tímans vegna hef ég því miður orðið að stikla á stóru og ekki getað sagt nema brot af því sem mér býr í brjósti. Ég hef t.d. ekki getað farið yfir þessa sönnu lygasögu er ber nafnið „Stefnuyfirlýsing og starfsáætlun ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar“. Ég ætla hins vegar að ljúka ræðu minni með því að lesa 1. mgr. í stefnuyfirlýsingunni og láta síðan áhorfendum eftir að dæma um hvernig ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar hefur tekist upp. 1. mgr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Alþýðuflokkur hafa náð samkomulagi um myndun nýrrar ríkisstjórnar. Helstu verkefni ríkisstjórnar verða að stuðla að jafnvægi, stöðugleika og nýsköpun í efnahags- og atvinnulífi, bæta lífskjör og draga úr verðbólgu.“

Nú spyr ég ykkur, áheyrendur góðir: Hefur eitthvað af þessu tekist? Svari nú hver fyrir sig. Ég þekki einn ágætan Íslending sem mundi kalla þetta skrökulygi.

Herra forseti. Ég lýsi vantrausti á ríkisstjórnina.