28.04.1988
Sameinað þing: 73. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6997 í B-deild Alþingistíðinda. (4934)

505. mál, vantraust á ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Góðir áheyrendur. Stjórnarandstaðan hefur í kvöld sameinast um að bera fram vantraust á ríkisstjórnina. Þetta gerir hún undir því yfirskini að ástand þjóðmála sé svo alvarlegt að ekki dugi að aðgerðarlaus ríkisstjórn sitji að völdum.

Lítum á þetta.

Ekkert gæti verið fjær sanni en að ríkisstjórnin hafi setið auðum höndum. Á níu mánaða starfstíma sínum hefur hún mótað og fylgt heildstæðri stefnu í efnahagsmálum og gripið til ráðstafana sem allar hafa miðað að því að koma á betra jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Það var nefnilega alveg ljóst strax á síðasta sumri þegar stjórnin var mynduð að nauðsynlegt væri að grípa til aðhaldsaðgerða til að sporna gegn vaxandi verðbólgu og viðskiptahalla. En stjórnarandstaðan er hins vegar fyrst nú að vakna til lífsins. Í allan vetur hefur hún verið að flytja tillögur hér í þinginu sem ganga út á það að auka útgjöld ríkisins, en á sama tíma hafa þingmenn hennar mótmælt flestum ef ekki öllum tillögum um aukna tekjuöflun fyrir ríkissjóð. Því miður — því miður segi ég — er Kvennalistinn þar alls ekki undanskilinn þótt Kristín Halldórsdóttir héldi öðru fram.

Það sem stjórnarandstaðan hefur í raun og veru verið að fara fram á er aukinn halli á ríkissjóði. Þetta er auðvitað tómt lýðskrum og hræsni eins og hver maður getur séð. Ég fullyrði þvert á móti að ekkert væri hættulegra við núverandi aðstæður í efnahagsmálum en hallarekstur á ríkissjóði. Þetta var ríkisstjórninni ljóst fyrir löngu og þess vegna lagði hún allt kapp á að ná hallalausum fjárlögum á fyrsta starfsári sínu fyrir þetta ár. Það var óhjákvæmilegt að stokka upp hriplekt skattakerfi og jafnframt að hækka skatta nokkuð til að ná þessu markmiði. Auðvitað hefði verið æskilegt að ná líka nokkurri lækkun útgjalda til annarra þarfa en velferðarmála almennings, sérstaklega að hætta að ausa í þá botnlausu hít sem landbúnaðarútgjöldin eru að verða og að fresta ýmsum framkvæmdum sem þola bið, en um þetta hefur enn ekki náðst samkomulag.

Ég hef hins vegar ekki orðið var við neinar tillögur um það frá stjórnarandstöðunni hvar ætti að lækka ríkisútgjöldin. Í þeim herbúðum er allt á sömu bókina lært. Málflutningurinn er — ja, hvað er hann? Hann er samsafn mótsagnakenndra óska, vel meintra að vísu, um gott og fagurt mannlíf, en hvergi bent á neinar raunhæfar leiðir til að hlúa að slíku lífi í landinu.

Stjórnarandstaðan falar eins og einu aðgerðirnar í skattamálum í vetur hafi verið að skattleggja matinn. Þetta er firra. Í vetur hefur verið gerð róttæk uppstokkun á öllu skattakerfinu sem snertir nær alla tekjustofna ríkis og sveitarfélaga. Heildarendurskoðun á tekjuöflun ríkisins er þó enn ekki lokið. En þegar síðasti áfanginn, upptaka virðisaukaskatts í stað söluskatts, verður að baki munu Íslendingar búa við skilvirkara og réttlátara skattakerfi en þeir hafa nokkurn tíma áður notið og reyndar betra en flestar aðrar þjóðir. Það leikur enginn vafi á því að láglaunafólk fer betur út úr nýja kerfinu en því gamla. Það leikur heldur ekki á því nokkur minnsti vafi að í nýja kerfinu verður hægara um vik að uppræta skattsvikin. En það er einmitt eitt brýnasta réttindamál almennings í þessu landi að allir beri sinn sanngjarna hlut af sameiginlegum kostnaði við opinbera þjónustu. Ekkert hefur stuðlað jafnmikið að jöfnun aðstöðu og lífskjara í landinu á undanförnum áratugum og almannatryggingarnar, menntakerfið og heilbrigðisþjónustan. Það er verkefnið að slá skjaldborg um réttlætið og um farsælt fjölskyldulíf í þessu landi. Það er sönn menning. En til þess þurfum við trausta fjárhagsundirstöðu fyrir þetta velferðarríki sem er besta tryggingin fyrir jöfnun lífskjara í landinu.

Það er í þessu ljósi, og ég vek athygli þingheims á því, sem við verðum að skoða viðfangsefni líðandi stundar. Það hefur allt of oft gerst, þegar á hefur bjátað í íslenskum efnahagsmálum, að hlaupið er upp til handa og fóta með skyndilausnir. Þessar lausnir hafa iðulega reynst skammgóður vermir.

En hver er þá vandinn sem nú er við að glíma? Hann er tvenns konar. Annars vegar er um að ræða tímabundinn jafnvægisvanda sem kemur fram í verðbólgu, viðskiptahalla og erfiðri rekstrarstöðu útflutnings- og samkeppnisgreina, en hins vegar, og það skiptir ekki síður máli, er um að ræða alvarlegar veilur í skipulagi íslenskra atvinnuvega. Við mótun efnahagsstefnunnar nú verður að taka mið af hvoru tveggja í senn. Það má alls ekki gerast þannig að ráðstafanir sem gripið er til vegna aðsteðjandi skammtímavanda verði til þess að færa okkur mörg ár aftur í tímann með skipulag íslensks efnahagslífs. Og þær mega heldur ekki bitna á þeim sem lægstar hafa tekjurnar. Stjórnarandstaðan hefur engar raunhæfar tillögur fram að færa sem fullnægja þessum tveimur skilyrðum.

Borgarafl. þarf varla að nefna. Afstaða Kvennalistans og Alþb. hefur verið með endemum. Þessir flokkar hafa báðir lagt fram marklaus frv. hér í þinginu í vetur um lögbindingu lágmarkslauna en mæla svo jafnframt með almennri launahækkun. Þetta á að jafna lífskjörin, segja þeir, en gerir það alls ekki. Á sama tíma munar þessa flokka ekkert um að setja sig á móti hverju málinu á fætur öðru sem horfir til framfara um skipan atvinnumála í landinu. Þó veit það hver maður sem hugsa vill að öflugt atvinnulíf er grundvallarskilyrði góðra lífskjara.

Í raun og veru býr að baki vantrauststillögunni sem við ræðum hér í kvöld önnur tillaga, tillaga um hallarekstur á ríkissjóði, um gengiskollsteypu, um vaxtalækkun með valdboði. Þetta er ávísun upp á það að við hjökkum áfram í sama farinu ef ekki á beina afturför.

Auðvitað íþyngja háir vextir skuldsettum einstaklingum og fyrirtækjum.

En er besta leiðin til að leysa þennan vanda að leggja fjármagnskerfi landsins að nýju í rúst? Er fólkið búið að gleyma þeirri sóun og spillingu sem hér viðgekkst á tímum óðaverðbólgu og skömmtunar á lánsfé? Vill fólk kalla yfir sig aftur það ástand að bankastjórar hafi það í hendi sér hverjir verði ríkir á kostnað sparifjáreigenda? Það er með ólíkindum að sjálfskipaðir talsmenn alþýðu manna skuli leggja það til að þetta gerist, og það er ekkert annað en þetta sem felst í kröfunum um beina vaxtalækkun með valdboði. Eru þeir að leggja til að lífeyrissjóðirnir verði rýrðir?

Ég fer ekki í launkofa með það að raunvextir eru nú of háir hér á landi. En það er alrangt að þeir séu hærri hér en í öðrum löndum þar sem efnahagsástand er með líkum hætti. Það er vissulega brýnt að vextirnir geti farið lækkandi, en til þess verður að koma á betra jafnvægi í þjóðarbúskapnum og á lánamarkaði. Það þarf að setja nýjar leikreglur um allan lánamarkaðinn, líka hina nýju aðila sem þar starfa. Þar þarf líka að endurskoða ákvæðin um verðtryggingu fjárskuldbindinga.

Víða sjást þess nú merki að stefna stjórnarinnar sé að skila árangri. Það hefur dregið úr verðbólgu, það hefur hægt á vexti innflutnings, það hefur dregið úr veltuaukningu í verslun, fjárfestingaróðagotið hefur dvínað, umsvif fjármögnunarleigufyrirtækjanna vaxa nú ekki með sama hraða og í fyrra og það hefur hægt á launaskriði. Þannig mætti lengi telja. Samt er okkur nú vandi á höndum.

Ég vil minna þá á sem nú hrópa á gengisfellingu að gengisaðhald er grundvöllur þeirra kjarasamninga sem nýlega hafa verið gerðir. Með gengisfellingu væri komið aftan að samtökum launafólks sem nýlega hafa lokið samningum. Þeir sem gerðu samningana vissu að hverju þeir gengu þegar þeir skrifuðu undir þá og þeir verða að bera ábyrgð á sínum gerðum. Það hefur viðgengist allt of lengi að ríkisvaldið bjargi þeim út úr ógöngum sem þeir kunna sjálfir að hafa komið sér í. Auðvitað geta breyttar ytri aðstæður á borð við verulega og viðvarandi verðlækkun á útflutningsmörkuðum kallað á endurmat, en það endurmat á ekki að verða nein sjálfsafgreiðsla á kröfum hagsmunaaðila. Það á ekki að hrapa að ákvörðunum í þessu efni og það verður ekki heldur gert. Gengisfelling er ekki allra meina bót í efnahagsmálum fremur en holufylling gefur mönnum heilar tennur á ný.

Og auðvitað verður þessi vantrauststillaga felld. Raunar trúi ég ekki öðru en stjórnarandstaðan verði sjálf fegnust þeirri niðurstöðu því úrræðaleysi hennar er hverjum manni sýnilegt þegar að er gáð.

1. flm. þessarar tillögu og forustumaður fjórmenninganna, Steingrímur Sigfússon, setti í upphafi þessarar umræðu fram þá kenningu að gagnrýni væri í reynd vitnisburður um hið gagnstæða. Ekki trúi ég nú reyndar á almennt gildi þessarar kenningar, en hún gæti kannski átt við kenningasmiðinn og framsögumanninn og þar með væri þá tillagan í reynd traustsyfirlýsing á stjórnina. Ríkisstjórnin hefur framfylgt stefnu sem farin er að skila árangri. Hún þarf að fá meiri tíma til að hrinda stefnumálum sínum í framkvæmd. Hún mun fá traustsyfirlýsingu í sumargjöf.

Í þingflokksherbergi Alþfl. hangir stór mynd af Stjána bláa á báti sínum, en um hann kvað Örn Arnarson:

Hörð er lundin, hraust er mundin,

hjartað gott sem undir slær.

Þetta er hugarfarið, þetta er handlagið, þetta er hjartalagið sem þjóðin vill hafa við stjórnvölinn á þjóðarskútunni.