28.04.1988
Sameinað þing: 73. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7001 í B-deild Alþingistíðinda. (4937)

505. mál, vantraust á ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Frá því að ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar var mynduð hafa einstakir þingmenn allra stjórnarflokkanna og jafnvel einstakir flokkar í heild, eins og Framsfl., haft uppi tilburði til stjórnarandstöðu. Í kvöld gerast þau tíðindi þegar síst skyldi og tækifæri eru til þess að fella ríkisstjórnina að þessir þingmenn eða þingflokkar skríða í heilu lagi upp í fangið á Þorsteini Pálssyni og skila sér nú heim til íhaldsins. Frá og með þessari atkvæðagreiðslu, herra forseti, er þjóðinni væntanlega ljóst að hina raunverulegu stjórnarandstöðu er einkum að finna utan stjórnarflokkanna en ekki innan þeirra. Ekki síst þess vegna var vantrauststillagan óhjákvæmileg nauðsyn til að afhjúpa loddarana. Ég segi já, herra forseti.