29.04.1988
Efri deild: 82. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7002 í B-deild Alþingistíðinda. (4943)

50. mál, almannatryggingar

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. heilbr.- og trn. fyrir afgreiðsluna á þessu frv. Það sem sömu nefnd í Nd. tókst ekki á sex þingum hefur nú tekist í þessari deild á einu þingi, að gera tillögu um afgreiðslu á þessu máli.

Hér er samt um það að ræða að lagt hefur verið fram frv. sjö sinnum um að öryrkjar geti leitað úrskurðar áfrýjunarnefndar ef þeir eru ósáttir við niðurstöður tryggingayfirlæknis. Hv. Nd. komst aldrei svona langt með þetta mál. Það lá þar í heilbr.- og trn. og náði ekki afgreiðslu. Nefndin hér í hv. Ed. hefur hins vegar afgreitt málið fyrir sitt leyti með mjög jákvæðum hætti að mínu mati þar sem tekið er undir það sjónarmið okkar flm. að það sé óhjákvæmilegt að öryrkjar eigi aðgang að úrskurði áfrýjunarnefndar ef þeir eru óánægðir með niðurstöður tryggingayfirlæknis og að þetta grundvallaratriði verði haft í huga þegar lögin um almannatryggingar verða endurskoðuð. Ég tel að þarna sé mjög mikilvægum áfanga náð og tel ástæðu til að þakka hv. heilbr.- og trn. og formanni hennar fyrir þá afgreiðslu sem þetta mál hefur fengið.