29.04.1988
Efri deild: 82. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7008 í B-deild Alþingistíðinda. (4951)

229. mál, hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Ég ætla alls ekki að lengja þessa umræðu. Mig langaði aðeins að þakka hv. heilbr.og trn. og nefndarmönnum fyrir þeirra vinnu við frv. Þetta er stórt og viðamikið mál og ég veit að nefndarmenn hafa lagt í þetta mikla vinnu.

Ég ætla ekki að taka upp neinar efnislegar umræður, en aðeins lýsa því yfir að ég er fyllilega sáttur við þær brtt. sem nefndin leggur til og tek undir það með hv. síðasta ræðumanni að ég tel þær vera til bóta.

Það er hins vegar ljóst að fjárhagsstaða stofnunarinnar hefur verið þannig að undanförnu að hún á afar erfitt með að gegna sínu mikilvæga eftirlitshlutverki og hefur ekki tekist að byggja upp nægilega vel þá starfsemi sem nauðsynleg er til þess að stofnunin sem slík geti þjónað þeim tilgangi sem lögin ætla henni. Þetta hefur reyndar hvað eftir annað komið fram á hv. Alþingi í vetur, einkum í fyrirspurnatímum þar sem til umræðu hafa verið ýmis verkefni á sviði umhverfismála og mengunarmála.

En ég vil aðeins undirstrika það að lokum að ég tel að það sé rétt að leggja áherslu á það hér að Hollustuverndin geti leitað eftir þjónustu hjá öðrum aðilum í landinu, öðrum rannsóknarstofum t.d., um að veita þá þjónustu sem nauðsynleg er til þess að koma á því eftirliti sem ekki hefur tekist. Þar á ég t.d. við innflutningseftirlit og eftirlit með framleiðslu og innflutningi matvæla og annarra neysluvara. Það er afar brýnt verkefni og ég tel að hægt sé að koma því í gang þó við förum ekki af stað í upphafi með fullkomna rannsóknarstofu. Ég bendi reyndar á að í 32. gr. frv. er gert ráð fyrir að Hollustuvernd ríkisins geti samið við aðrar rannsóknastofnanir í landinu um að annast rannsóknir fyrir heilbrigðiseftirlitið þannig að sú heimild er reyndar til í frv. eins og það liggur fyrir. En að undirstrika það síðan hér í ákvæði til bráðabirgða finnst mér sjálfsagt og eðlilegt því þar var gert ráð fyrir því að uppbyggingu rannsóknarstofu skyldi hraðað. En ég get vel fallist á þessa niðurstöðu.

Herra forseti. Aðeins vil ég að lokum segja frá því að heilbrigðisfulltrúar í landinu hafa lagt á það áherslu og sent mér bæði bréf og reyndar skeyti nú síðast í morgun þar sem þeir leggja á það mikla áherslu að Alþingi afgreiði þetta frv. nú fyrir þinglokin. Ég vildi láta það koma fram í þessum umræðum.