29.04.1988
Efri deild: 82. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7015 í B-deild Alþingistíðinda. (4956)

466. mál, ferðamál

Samgönguráðherra (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég vil byrja á að þakka nefndinni fyrir afgreiðslu á þessu máli. Ég get mjög vel skilið þau sjónarmið sem fram koma í nál., enda megintilgangur frv. með því að breyta því í einkafyrirtæki að starfsfólkið verði aðilar að og eigendur Ferðaskrifstofunnar.

Ég verð að leiðrétta hv. 4. þm. Vesturl. varðandi það að ekki hafi verið haft samráð við fólkið. Ég átti fund með öllum starfsmönnum ferðaskrifstofunnar á Ferðaskrifstofu ríkisins til að ræða við fólkið, gera því grein fyrir þeim sjónarmiðum sem ég hefði varðandi yfirfærslu á þessu fyrirtæki og ræddi við það hugmyndir um með hvaða hætti og hvernig væri hægt að því að standa. Ég taldi, eftir að forstjóri fyrirtækisins, sem hefur verið í nánu samstarfi við ráðuneytið varðandi þessi mál, hafði rætt við starfsfólkið, eftir að ég ásamt starfsmanni úr samgrn. hafði verið þar á fundi og í viðræðum við þetta fólk, að við værum búnir að gera ítarlega grein fyrir þessu og þannig ætti ekki að vera neinn misskilningur þar í milli. Hafi svo verið eða hafi menn haft tilfinningu fyrir því að svo væri, sem mér finnst vera meira en að menn hafi haft eitthvað áþreifanlegt, þá er það sem stendur í nál. til að leiðrétta eða rétta af, hafi menn haldið að eitthvað væri að fara úrskeiðis eða hætta á að gæti farið úrskeiðis.

Varðandi þá aðila sem hafa rekið Edduhótelin. Hér er um að ræða skóla og það er menntmrn. sem hefur haft með að gera t.d. þá samninga sem gerðir hafa verið. Hins vegar áttum við ítarlegar viðræður við þann aðila sem hefur farið með þessi mál hjá Ferðaskrifstofu ríkisins, þann aðila sem séð hefur um þennan þátt. Þegar unnið var að samningunum voru þessir aðilar hafðir með í ráðum, bæði heimaaðilar skólanna svo og þeir sem hafa séð um rekstur Edduhótelanna af hálfu Ferðaskrifstofu ríkisins.

Varðandi annað atriðið í nál., um forkaupsréttinn, þá er í frv. enginn þar útilokaður hafandi verið starfsmaður eða verandi starfsmaður, verandi fullur starfsmaður eða hálfur starfsmaður hvernig sem svo á það er litið. Þar verður allt að koma í ljós þegar þær viðræður fara fram. En fyrst og fremst er tekið fram að það eru starfsmenn skrifstofunnar núverandi. Það verður sá hópur, sem tekur sig þar saman, að meta.

Hv. þm. spurði um skoðun mína á framhaldi á samningum. Það verður auðvitað að vera mat þeirra sem þá koma til með að fjalla um þessa hluti. Það er einn þátturinn í þessu, sem hann vék að ef ég man rétt í ræðu við 1. umr., að hluta til væri sá einkaréttur til skaða sem Ferðaskrifstofa ríkisins hefur haft og að hluta til væri að því visst gagn. En ég er sannfærður um að landshlutasamtökin koma til með að hafa áhuga og hafa sýnt það nú þegar. Mér sýnist því að þessir hlutir verði að koma í ljós eftir þeirri reynslu sem af þessu kemur til með að fást.

Ríkið hefur beint sínum viðskiptum til Ferðaskrifstofu ríkisins. Ég held að þar hafi út af fyrir sig ekki verið um neina þvingun að ræða. Ferðaskrifstofa ríkisins hefur veitt mjög góða þjónustu og ég efast ekkert um að hún muni gera það áfram. Hér hefur aðeins verið um að ræða tilmæli til ríkisstarfsmanna. Ég á ekki von á því að nein afturköllun eigi sér stað í þeim efnum þannig að þeir sem hafa haft þessi viðskipti geri á því sérstakar breytingar. Þeir hafa verið ánægðir og það er að mínum dómi mat þeirra sem hafa skipt við þessa ferðaskrifstofu að hún hafi veitt þá þjónustu sem til hafi verið ætlast.