29.04.1988
Efri deild: 82. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7017 í B-deild Alþingistíðinda. (4960)

432. mál, Ríkisendurskoðun

Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Júlíus Sólnes):

Herra forseti. Ég tók þátt í athugun hv. fjh.- og viðskn. Ed. þegar við vorum að fjalla um frv. til l. um breytingu á lögum um Ríkisendurskoðun. Strax þar lýsti ég áhyggjum mínum yfir því að það væri verið að veita Ríkisendurskoðun of víðtæka heimild til að ganga að einkaaðilum og fyrirtækjum þeirra og fá þar að rannsaka bókhald og fjárreiður slíkra fyrirtækja. Ég tel að þetta sé með öllu óþarft.

Það er sjálfsagt að Ríkisendurskoðun hafi mjög víðtækar heimildir til að rannsaka reikninga sem beint er til ríkisins eða ríkisstofnana frá hverjum sem er, hvort sem það eru aðrar ríkisstofnanir, opinberir aðilar eða fyrirtæki og einkaaðilar, en hér teljum við þingmenn Borgarafl. að of langt sé gengið. Mig langar í því sambandi að lesa nál. sem er frá minni hl. fjh.- og viðskn.:

„Frv. gerir ráð fyrir að Ríkisendurskoðun verði veitt mjög víðtæk lagaleg heimild til þess að rannsaka bókhald og grunngögn reikninga sem ríkinu er ætlað að greiða samkvæmt lögum, verksamningum o.fl. Er gert ráð fyrir að Ríkisendurskoðun geti krafist þess að fá aðgang að bókhaldi einkaaðila og fyrirtækja þeirra.

Hér er allt of langt gengið og um óeðlileg afskipti ríkisvaldsins af fjárreiðum einstaklinga að ræða. Minni hl. getur því ekki samþykkt frv. óbreytt, en mun leggja fram brtt. í samræmi við ofangreint álit.“ Ég held að það þurfi ekki að hafa um þetta mjög mörg orð. Ég held að það sé ráðlegt að fara hægt í þessu efni. Það er eðlilegt að þetta frv. til l. sé flutt til að hnykkja á því og taka af öll tvímæli um hverjar séu heimildir Ríkisendurskoðunar til þess að bæði krefjast reikningsskila og greinargerða og sömuleiðis hver aðgangur skuli vera að bókhaldi þeirra aðila sem senda ríkinu reikninga. En við leggjum til að það verði tekið aðeins skemmra skref en gert er ráð fyrir í frv. og höfum, eða ég hef öllu heldur, sent inn brtt. þar sem ég legg til að í stað þess að Ríkisendurskoðun verði heimilaður aðgangur að og skoðun á grundvallargögnum sem færð eru samhliða reikningsgerð á hendur ríkinu eða ríkisstofnunum fyrir vinnu og þjónustu sem greiðsluskyld er að öllu leyti eða verulegum hluta úr ríkissjóði á grundvelli laga, verksamninga eða gjaldskrársamninga við einstaklinga, félög og stofnanir til að sannreyna efni innsendra reikninga og greiðsluskyldu ríkissjóðs, þá verði sú breyting gerð á að í upphafi þessarar setningar standi: „Þá er Ríkisendurskoðun heimilt að krefjast greinargerðar, grundvallargagna eða skýrslna sem eru færðar samhljóða reikningsgerð“ o.s.frv.

Hér er sá grundvallarmunur á að í stað þess að Ríkisendurskoðun geti gengið inn í fyrirtæki einstaklinga eða farið inn í bókhald einstaklinga og endavent þar öllu er Ríkisendurskoðun heimilt að krefjast greinargerðar frá þessum sömu aðilum. Ég held að það sé miklu heppilegra og eðlilegra.

Ég óttast mjög þá þróun sem er að verða hjá okkur Íslendingum þar sem ríkið verður æ uppivöðslusamara og kerfið, sem við öll erum að kikna undan, stækkar ört. Það stefnir inn í eitt allsherjar lögregluríki með þeim aðferðum sem hér er lagt til að verði teknar upp.