29.04.1988
Efri deild: 82. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7029 í B-deild Alþingistíðinda. (4969)

432. mál, Ríkisendurskoðun

Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég vil aðeins segja út af ummælum hv. 6. þm. Reykv. að ég hef enga ástæðu til að ætla annað en Ríkisendurskoðun muni beita þessari heimild af réttsýni og hógværð og reyna ásamt sínum trúnaðarlækni að ná sem bestu samkomulagi um það við Læknafélagið hvernig eftirlit af þessu tagi fer fram. Og hef enga ástæðu til að ætla annað en að sá maður sem gegnir starfi trúnaðarlæknis Ríkisendurskoðunar hafi þann skilning á sínu starfi að ástæðulaust sé að óttast svo mjög að ekki skapist eðlilegar starfsvenjur um þetta eftirlit eins og annað, en ég ítreka það, sem ég sagði áðan, að ef Læknafélaginu finnst sem þar sé í einhverju farið offari af hálfu Ríkisendurskoðunar eru forsetar Alþingis þeir réttu aðilar til að snúa sér til sem í umboði Alþingis fara með yfirstjórn Ríkisendurskoðunar. En ég hef ekki ástæðu til að ætla annað en þessi endurskoðun eigi að geta farið vel fram og í fullu samkomulagi við alla aðila því hið sama vakir fyrir mönnum, að heilbrigðisstéttir geti unnið örugglega sitt verk og fái réttmætar greiðslur fyrir það sem þeir eru að gera og verði fyrir sem minnstum óþægindum í sínu starfi.