29.04.1988
Efri deild: 83. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7035 í B-deild Alþingistíðinda. (4994)

301. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Með þessu frv., sem hér er mælt fyrir, er lagt til að opna nýja leið í húsnæðismálum. Kaupleiguíbúðir eru skv, frv. þessu íbúðir byggðar eða keyptar á þeim forsendum að íbúar eigi kost á að velja um leigu eða kaup á íbúðum með jöfnum mánaðarlegum greiðslum. Í frv. er lagt til að kaupleiguíbúðir verði með tvennum hætti: félagslegar kaupleiguíbúðir og almennar kaupleiguíbúðir.

Ég vil fyrst taka fyrir félagslegar kaupleiguíbúðir. Félagslegar kaupleiguíbúðir verða eingöngu skv. frv. á vegum sveitarfélaga eða félagasamtaka sem þurfa að byggja kaupleiguíbúðir fyrir láglaunafólk eða aðra þá sem af félagslegum ástæðum þurfa aðstoðar við húsnæðisöflun. Gert er ráð fyrir að Byggingarsjóður verkamanna láni til félagslegra kaupleiguíbúða 85% lán til 43 ára með sömu vaxtakjörum og almennt gilda hjá sjóðnum. Framkvæmdaaðili skal sjá um að útvega 15% fjármögnun, en bent er á þann möguleika að lífeyrissjóðirnir aðstoðuðu sveitarfélögin við þá fjármögnun með sölu skuldabréfa þeirra. Sá sem fær úthlutað félagslegri kaupleiguíbúð getur valið um að gera kaupsamning strax í upphafi eða gera leigusamning með kauprétti.

Skv. frv. hefur leigjandi a.m.k. fimm ára umhugsunarfrest varðandi kaup á íbúðinni. Þeir sem koma til greina við úthlutun félagslegra kaupleiguíbúða verða að uppfylla skilyrði 44. gr. núgildandi laga um Húsnæðisstofnun ríkisins, en þar eru almenn skilyrði varðandi tekjumörk og eignastöðu þeirra sem eiga kost á félagslegum íbúðum.

Leiga í félagslegri kaupleiguíbúð greiðist mánaðarlega og miðast við afborganir og vexti af láni Byggingarsjóðs verkamanna, auk vaxtakostnaðar af 15% framlagi framkvæmdaaðila að viðbættum almennum rekstrarkostnaði. Gert er ráð fyrir að framkvæmdaaðili miði þau vaxtagjöld af 15% framlaginu sem renna í leigu við þau vaxtakjör sem gilda hjá Byggingarsjóði ríkisins, en á móti því kemur sú eignamyndun framkvæmdaaðila sem verður við afborgun 85% lánsins. Ef hins vegar leigjandi festir kaup á íbúðinni og gerir samning við framkvæmdaaðila um endurgreiðslu 15% framlagsins er gert ráð fyrir að miðað sé við sömu vaxtakjör og framkvæmdaaðili býr við gagnvart lánardrottnum sínum, enda fá þeir sem kaupa íbúðir sérstaka aðstoð, húsnæðisbætur fyrir milligöngu skattakerfisins.

Leigjandi á kost á að kaupa íbúðina á kjörum Byggingarsjóðs verkamanna að því tilskildu að skilyrðum varðandi lánveitingar úr sjóðnum sé fullnægt. Kaupandinn gerir þá samning við sveitarfélagið eða félagasamtök um endurgreiðslu á 15% framlaginu. Lagt er til að endurgreiðsla geti farið fram á allt að 30 árum með mánaðarlegum greiðslum sem er þá eins konar viðbót við leigu. Þegar kaupandi hefur endurgreitt framkvæmdaaðila framlag hans fær viðkomandi afsal fyrir íbúðinni og yfirtekur eftirstöðvar áhvílandi lána.

Mikilvæg nýmæli varðandi félagslegar íbúðir eru ákvæði um endurskoðun vaxtakjara. Lagt er til að átta árum eftir að kaup eru gerð skuli endurskoða vaxtakjör á lánum úr Byggingarsjóði verkamanna með hliðsjón af tekjum viðkomandi. Ef kaupandi er kominn yfir tekjuviðmiðun félagslega kerfisins þegar endurskoðun fer fram skal breyta vaxtakjörum lánanna til samræmis við gildandi kjör á almennum lánum Byggingarsjóðs ríkisins.

Endurskoðun vaxtakjara fer fram átta árum eftir undirritun kaupsamnings eins og áður sagði en síðan á fimm ára fresti. Þetta er gert til að tryggja að hin mikla niðurgreiðsla vaxta sem á sér stað í félagslega kerfinu fari sem mest eftir þörfum og verði hætt þegar hagur íbúðareiganda gefur tilefni til þess og lúti þá ákvæðum vaxtakjara í Byggingarsjóði ríkisins.

Gert er ráð fyrir að félagslegar kaupleiguíbúðir lúti flestum skilyrðum sem sett eru um aðrar lánveitingar til félagslegra íbúða úr Byggingarsjóði verkamanna. Í þessu sambandi má nefna kaupskyldu sveitarfélaga og félagasamtaka sem gildir í 15 ár og síðan forkaupsréttur. Þessi skilyrði eru eins og kunnugt er til að tryggja að félagslegar íbúðir þjóni áfram tilgangi sínum í þágu láglaunafólks.

Í frv. er lögð rík áhersla á skýr ákvæði um ábyrgð framkvæmdaaðila. Frumkvæði framkvæmdaaðila að byggingu félagslegra kaupleiguíbúða og ábyrgð þeirra eru í frv. mjög samtvinnaðir þættir. Fyrirkomulag þetta er með öðrum hætti en í verkamannabústaðakerfinu, en þar er gert ráð fyrir að frumkvæði og framkvæmd verði á vegum stjórnar verkamannabústaða, en í félagslegum kaupleiguíbúðum er frumkvæði, ábyrgð og úthlutun íbúða á vegum framkvæmdaaðila sem ætla má að séu í flestum tilfellum sveitarfélögin.

Með frv. þessu, ef að lögum verður, er opnað fyrir nýja möguleika á samstarfi sveitarfélaga og einstaklinga eða félagasamtaka og fleiri aðila um lausn húsnæðisvandans á landsbyggðinni. Leiguíbúðir byggðar á félagslegum forsendum eru ekki eingöngu bundnar við þá sem af félagslegum ástæðum þurfa aðstoð við húsnæðisöflun. Lögð er áhersla í frv. á nauðsyn þess að sveitarfélög geti boðið leiguíbúðir fyrir aðkomufólk sem ekki er viðbúið því að fjárfesta um leið og það flyst á viðkomandi stað en hefði þann möguleika opinn án þess að þurfa að skipta um íbúð.

Jafnframt er í frv. lagt til grundvallar mikilvægi þess að nýtt fyrirkomulag taki mið af eðli fasteignamarkaðar á landsbyggðinni og þeirri áhættu sem fylgir íbúðarfjárfestingu ef viðkomandi hefur ekki staðfastan ásetning um framtíðarbúsetu á staðnum.

Tillögur frv. um almennar kaupleiguíbúðir byggja mjög á þeim viðhorfum sem eru uppi um að leysa húsnæðisvandann á landsbyggðinni. Gert er ráð fyrir lánum úr Byggingarsjóði ríkisins í þessu skyni. Auk þess sem íbúar geti valið um kaup eða leigu á íbúðum fjármögnuðum úr Byggingarsjóði ríkisins er gert ráð fyrir að leigjandi geti tryggt sér afnotarétt af íbúð með því að kaupa hlut í íbúðinni. Framkvæmda- og ábyrgðaraðilar að almennum kaupleiguíbúðum geta verið sveitarfélög, félagasamtök og fyrirtæki eða þessir aðilar í sameiningu. Lagt er til að fyrrnefndir framkvæmdaaðilar, sem þurfa af sérstökum tilgreindum ástæðum að auka framboð íbúðarhúsnæðis í sveitarfélaginu, eigi kost á 70% hámarkslánum úr Byggingarsjóði ríkisins til að kaupa eða byggja almennar kaupleiguíbúðir, auk viðbótarláns úr sama sjóði. Í þessu skyni er gerð tillaga um að stofnaður verði sérstakur lánaflokkur í Byggingarsjóði ríkisins, lán til almennra kaupleiguíbúða, ætlaður sveitarfélögum eða öðrum framkvæmdaaðilum sem þurfa af sérstökum tilgreindum ástæðum að auka framboð húsnæðis í sveitarfélaginu. Gert er ráð fyrir að lánað verði allt að 15% kostnaðar samkvæmt þessum lánaflokki og lánstíminn verði 25 ár. Framkvæmdaaðili skuldbindur sig til að útvega 15% kostnaðar- eða kaupverðs og er gert ráð fyrir að fjárins verði aflað með t.d. sölu skuldabréfa til lífeyrissjóða eða annarra aðila.

Samkvæmt tillögum frv. getur sá sem fær úthlutað almennri kaupleiguíbúð valið um leigu eða kaup á íbúðinni. Sá sem velur leigu strax í upphafi hefur a.m.k. fimm ára umþóttunartíma til að ákveða kaup, en sveitarfélag eða framkvæmdaaðili getur framlengt leigutíma ef það kýs svo.

Herra forseti. Ég get farið að stytta mál mitt. Ég vil að lokum nefna einn kost í þessu nýja húsnæðisformi, sem eru leiguíbúðir með hlutareign í almenna kerfinu, en þær eru útfærðar með svipuðum hætti og nú er fyrir hendi í félagslega kerfinu skv. 33. gr. laga um Húsnæðisstofnun ríkisins. Fjölmenn sveitarfélög og félagasamtök bentu á nauðsyn þess að hafa þennan kost í almenna kerfinu. Þetta fyrirkomulag hentar vel hvað varðar fjármögnun og rekstur íbúða fyrir aldraða og öryrkja. Fyrir aldraða sem vilja aðlaga húsnæðismál sín breyttum forsendum á efri árum og komast í sérhannaðar íbúðir fyrir aldraða verða íbúðaskiptin auðveldari með þessum hætti. Hlutareign gefur þá jafnframt möguleika á þátttöku leigjenda í stjórn og rekstri íbúðanna og sameinar þannig kosti eignar- og leigufyrirkomulags.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að hafa frekari orð um það frv. sem hér er á dagskrá og legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. félmn.