14.10.1987
Neðri deild: 3. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í B-deild Alþingistíðinda. (50)

6. mál, almannatryggingar

Málmfríður Sigurðardóttir:

Herra forseti. Þetta mál, sem hv. 13. þm. Reykv. flutti hér, sýnir ljóslega þörfina fyrir endurskoðun tryggingalöggjafarinnar sem hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur góðu heilli boðað að standi fyrir dyrum. Svo góð sem sú löggjöf er sem við búum við, þá hafa þó sífelldlega verið að koma í ljós einhver göt eða agnúar þar á. Það getur orðið nokkuð langt að bíða nýrrar heildarlöggjafar og þess vegna er betra að reyna að stoppa í götin.

Þetta frv., sem hér er til umræðu, er í fyrsta lagi til að styrkja það félagslega öryggi sem er markmið almannatryggingalaganna og í öðru lagi til að afnema ranglæti eins og kemur fram í grg. Kvennalistinn styður þetta mál einlæglega og væntir þess að hv. þm. veiti því stuðning og jákvæða afgreiðslu.