29.04.1988
Efri deild: 83. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7041 í B-deild Alþingistíðinda. (5001)

116. mál, læknalög

Guðrún Agnarsdóttir:

Virðulegi forseti. Eins og kom fram í máli hæstv. heilbrmrh. var þetta frv. eða svipað frv. lagt fyrir Nd. á síðustu dögum síðasta þings og kom þá til kasta okkar þar. Í umræðu um þetta mál þá, nokkuð ítarlegri, gerði ég athugasemdir við nokkur atriði sem mér fannst þyrfti að laga. Þau hafa nú öll verið löguð í umfjöllun Nd. þar sem frv. var lagt fram nú og geri ég engan ágreining um þetta mál en tek undir það, sem hæstv. ráðherra sagði, að það er mikil þörf á því að koma þessu máli í gegnum þingið ef nokkur kostur er.

Ég á sæti í hv. heilbr.- og trn. þessarar deildar og gefst því tækifæri til að gaumgæfa málið betur við afgreiðslu þar, en ég geri engan ágreining um málið eins og það liggur fyrir núna eins og ég hef best getað kynnt mér.