29.04.1988
Efri deild: 83. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7042 í B-deild Alþingistíðinda. (5004)

444. mál, Atvinnuleysistryggingasjóður

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Virðulegi forseti. Ég verð líklega að biðjast afsökunar á því að ég ræddi áðan alltaf um herra forseta. Ég hafði ekki veitt því athygli að forsetaskipti hefðu átt sér stað meðan ég var að lesa framsöguna.

Ég mæli fyrir frv. til l. um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks sem er 444. mál Nd. á þskj. 794.

Hinn 26. febr. 1986 voru gerðir kjarasamningar milli aðila á almennum vinnumarkaði í landinu. Hluti þeirra samninga var samkomulag milli Verkamannasambands Íslands, Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambands samvinnufélaganna um málefni sérhæfðs fiskvinnslufólks. Í þessu samkomulagi fólst m.a. fyrirheit um aukið atvinnuöryggi fiskvinnslufólks, en alkunna er að uppsagnir starfsmanna í fiskiðnaði hafa verið tíðar á tímum hráefnisskorts. Við slíkar aðstæður kom til kasta Atvinnuleysistryggingasjóðs að greiða bætur. Við gerð kjarasamninganna hinn 26. febr. 1986 lágu fyrir tillögur hagsmunaaðila og urðu þær tillögur meginstofn stjfrv. sem flutt var í aprílmánuði það ár um þetta efni og varð að lögum 23. apríl 1986 sem lög nr. 55/1986.

Í grg. með frv. til þeirra laga sagði svo: „Frv. felur í sér umfangsmiklar breytingar á núverandi tilhögun atvinnuleysisbóta í fiskvinnslu. Það eru flókin og erfið viðfangsefni sem reynt er að leysa með frv. Þess vegna er ákaflega mikilvægt að sú skipan mála sem hér er gerð tillaga um verði endurskoðuð í ljósi reynslunnar að nokkrum tíma liðnum. Því er gert ráð fyrir að lögin verði tímabundin og gildi fram til 31. maí 1988.“

Af þessum ástæðum skipaði ég nefnd hinn 20. jan. sl. sem í áttu sæti sömu aðilar og unnu að upphaflega samkomulaginu og höfðu gert frumdrög að núgildandi lögum. Sú nefnd skilaði áliti 21. mars sl. og hafði náð fullkominni samstöðu um þær breytingar sem hér er lagt til að gerðar verði á gildandi lögum nr. 55/1986.

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um efnahagsaðgerðir hinn 29. febr. sl. segir m.a.: „Ákvæði laga og reglugerða um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fastráðins fiskvinnslufólks verði endurskoðaðar í samráði við hlutaðeigandi samtök.“

Var endurskoðunarnefndinni falið að taka tillit til þessarar yfirlýsingar og eins og áður segir hefur hún nú náð samstöðu um brtt. Þær breytingar eru ítarlega raktar í grg. og eru þær helstar að skilyrði 1. gr. um stærð fyrirtækis, þ.e. að það hafi a.m.k. tíu fastráðna starfsmenn og starfi allt árið, eru felld niður. Þá eru enn fremur felldar niður þær takmarkanir á greiðslum sem fólust í 5. mgr. 1. gr. svo að nú gætu fyrirtækin átt rétt á greiðslum hvenær sem er árs. Aðrar breytingar sem lagt er til að gerðar verði má segja að séu afleiðingar af þeim sem ég nú hef nefnt.

Leyfi ég mér að öðru leyti að vísa um þetta til grg. með frv.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frv. þessu verði að umræðu lokinni vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn. þessarar deildar með ósk um að það hljóti skjóta afgreiðslu.