09.11.1987
Sameinað þing: 15. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 822 í B-deild Alþingistíðinda. (501)

81. mál, verðlagsrannsókn

Flm. (Birgir Dýrfjörð):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um verðlagsrannsókn á þskj. 84. Meðflm. mínir eru hv. þm. Karl Steinar Guðnason og Karvel Pálmason. Í ályktun þessari segir svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela viðskiptaráðherra að láta fara fram rannsókn á þeim verðhækkunum sem átt hafa sér stað á líðandi ári með það að markmiði að leiða í ljós hverjar orsakirnar séu, þar á meðal hvort verslunar- og þjónustufyrirtæki séu að ætla sér aukinn hlut í ágóða eða til þess að standa undir óhagkvæmri fjárfestingu.“

Viðkomandi þessu atriði má vísa til ummæla forstöðumanns Þjóðhagsstofnunar í sjónvarpi 30. okt. sl. þar sem hann ræddi um að auðvelt væri að velta vaxtakostnaði út í verðlagið.

Ég segi svo hér í grg. þessu viðkomandi, með leyfi forseta:

„Þá eru kunn dæmi um vörukaupalán með himinháum vöxtum og sölu á greiðslukortanótum með afföllum. Vegna reglugerðar ríkisvalds um frjálsa álagningu getur verslunin velt þessum okurvöxtum og afföllum út í verð á vöru og þjónustu og yfir á herðar neytenda“, en eins og fram kom áðan vísaði ég til ummæla forstöðumanns Þjóðhagsstofnunar um að þetta væri ákaflega auðgert í því kerfi sem nú er við lýði.

Áfram segir í þáltill., með leyfi forseta: „Jafnframt verði verðmyndun í innflutningsverslun athuguð sérstaklega.“

Því er ómótmælt að vöruverð er verulega hærra hér en í nágrannalöndum okkar. Á sínum tíma lét þáv. félmrh., hv. þm. Svavar Gestsson, gera athuganir á innkaupsverði á vörum erlendis. Við þá könnun kom í ljós að langt var frá að keypt væri á hagstæðasta verði inn og kenndu menn þá ákvæðum um hámarksálagningu um. Þar sem lagt væri á eftir hundraðshluta væri tilhneiging að kaupa inn vörur á hærra verði til að ná fleiri krónutöfum út úr þeim prósentum sem heimilt var að leggja á vöruna.

Nú hefur álagning verið gefin frjáls en vöruverð sennilega aldrei hærra og aldrei hækkað meira. Í DV nú á föstudaginn var mátti lesa frétt, ég ætla ekki að lesa úr henni, en þar var skýrt frá því að almenn hreinlætisvara hafi hækkað og hækki sem nemur þreföldu verði sínu „í hafi“.

Áfram segir í þessari ályktun, með leyfi forseta: „Sömuleiðis verði kannað að hve miklu leyti takmörkun á samkeppni leiði til óhóflegs verðs á vörum og þjónustu.“

Samkeppni getur takmarkast af ýmsum ástæðum. Algengasta ástæðan í okkar samfélagi er hvað byggðaeiningar eru smáar og bera ekki miklar verslanir. Við getum farið í huganum yfir landið og við sjáum eina stóra verslun og svo kannski kaupmann lítinn sem hringir út í stóru búðina og spyr hvað varan kosti þar og hann selur hana e.t.v. einhverjum krónum ódýrari. En þetta er auðvitað engin samkeppni þannig að forsendur eru víða mjög hæpnar og engar fyrir samkeppni.

En það er fleira sem kemur til en skortur á samkeppni. Það kemur einnig víða til álagningarstýring. Ég minnist nýskeðs atviks sem varð í mínu kjördæmi, Norðurlandi vestra. Þar er verslun í bæjarfélagi sem selur þekkt erlent vörumerki. Þangað kom fólk úr nágrannabyggðinni og skoðaði þessar vörur, hafði orð á því hvað þær væru miklu ódýrari en í búðinni heima hjá því. Nokkrum dögum síðar hringdi innflytjandi vörumerkisins og spurði í þessari verslun þar sem varan hafði verið skoðuð og var þetta ódýrari: Hvað leggið þið á vöruna frá mér? Og það er nú orðið svo að fólk er hætt gjarnan að tala í prósentum. Það var svarað 1,8. Það þýðir 80% álagning. Það er allt of lítið, sagði maðurinn. Þú verður að leggja a.m.k. á 2, þ.e. þú verður að leggja a.m.k. á 100%. Guð minn góður, sagði konan sem átti verslunina. Það er svo skelfilega dýrt. Það skiptir ekki máli. Ég sel mikið af þessari vöru í stærri verslanir í byggðunum í kringum þig. Þær neita að vera með hana nema þú farir upp með þitt verð.

Þetta er það sem ég kalla álagningarstýringu og það er fullt af svona dæmum.

Ég minni á nýlega umfjöllun í fjölmiðlum um samræmda verðskrá hjá þjónustuaðilum þar sem kom fram að hjólbarðaverkstæði hafa samræmt verðskrár sínar. Menn eru að tala um frjálsa samkeppni, en það er auðvitað frjáls samstaða.

Áfram segir í ályktuninni, með leyfi forseta, að einnig verði þar á meðal sérstaklega könnuð flutningsgjöldin og hvort slíkar aðstæður gefi tilefni til að beita ákvæðum um hámarksverð og hámarksálagningu. Í sambandi við flutningsgjöld yfir hafið eða flutninga yfir hafið, hér er fyrst og fremst við það átt, má segja að þeir sem ráða flutningaleiðum yfir hafið hafi nánast tolltökuaðstöðu á erlend aðföng og útflutning þjóðarinnar. Þessi þáttur í viðskiptum okkar þarf því að vera undir stöðugri aðgát og rannsakast vel. Þarna er e.t.v. komin skýringin á því sem ég sagði frá áðan með hreinlætisvöruna sem þrefaldaðist í hafi og fleira og fleira. Það er einnig viðurkennt almennt, þó ekki hafi það verið staðfest með neinum rannsóknum, að eftir að samkeppni Hafskips lauk hér á flutningaleiðum hafa fragtgjöld hækkað langt umfram allar eðlilegar hækkanir í reksturskostnaði eins og olíu, launum, tryggingu eða öðru.

Ég segi í grg. að óæskilegt sé að hagsmunaaðilar í verslun og þjónustu eigi að miklu leyti sjálfdæmi um þann veigamikla þátt í kaupmætti sem verð á vörum og þjónustu er. Þetta sjálfdæmi felst í frjálsri álagningu á vörur og afar frjálsri verðákvörðun á þjónustu. Og vegna þessa fyrirkomulags ræðst kaupmáttarstig launa mjög af því hvað þessum hagsmunaaðilum tekst að hemja hagnaðartilhneigingu sína. Við skulum gera okkur grein fyrir að kaupmáttarstig í landinu ræðst ákaflega mikið af því hvað þessum til þess að gera fáeinu aðilum tekst að hemja það sem ég kalla hagnaðartilhneigingu sína.

Og áfram segir í grg., með leyfi forseta: „Tilburðir til að örva samkeppni með verðkönnunum og auglýsingum um hæsta og lægsta verð á vöru eru tilviljunarkenndar og ómarkvissar aðgerðir og gagnslitlar nema í örfáum undantekningartilvikum.“ Og það er vissulega til þar sem samkeppnismöguleikar eru fyrir hendi, enda segir auglýsing á vöruverði ekkert um það hvort álagning á vöruna er t.d. 60, 80 eða 100% eða meira og mjög víða um landið eru engar forsendur fyrir samkeppni. Að því vék ég m.a. áðan.

Á sínum tíma voru verðlagsákvæði afnumin og álagning gefin frjáls og þar flýtti fyrir sú athugun sem þáverandi félmrh., hv. þm. Svavar Gestsson lét gera og kom í ljós að innkaup erlendis voru á óhagstæðu verði, háu. Þá kenndu menn álagningarákvæðunum um og trúðu því að allt illt væri þeim að kenna. Síðan var þetta gefið frjálst og allt hefur hækkað, ekkert lækkað svo manni sé kunnugt um af erlendum aðföngum. Samkeppni í matvöru hefur verið dálítil, það vitum við, og sums staðar er samkeppni til staðar. En reynslan.og stærðirnar sýna að það virðist vera hagnaðartilhneiging einstaklinga sem ræður því á hvaða verði við kaupum vöruna og hefur þar með verulega mikil áhrif á kaupmáttarstig þeirra launa sem fastgengisstefnan berst við að halda sem lægstum.

Það er af þessum ástæðum, herra forseti, sem beðið er um að það sé framkvæmd rannsókn þessu viðkomandi, þannig að við höfum staðreyndir á borðinu, og kannað hvort í framhaldi af því sé ástæða til að setja hér aftur á ákvæði um hámarksálagningu og eða hámarksverð í einhverjum þáttum viðskiptalífsins.

Ég legg síðan til að þessari þáltill. verði vísað til 2. umr. og allshn.