29.04.1988
Neðri deild: 83. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7051 í B-deild Alþingistíðinda. (5030)

301. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ekki verður feigum forðað né ófeigum í hel komið. Það virðist sama hvað reynt er að koma vitinu fyrir hv. stjórnarliða. Þeir fallast ekki á að reyna að laga til frv. þannig að það nái tilgangi sínum og verði til þeirra bóta í húsnæðismálunum sem til stóð víst upphaflega. Annars undrar það mig meira hversu vel þau halda, þessi ósýnilegu handjárn sem lögð hafa verið á hv. þm. stjórnarliðsins. Jafnvel þingmenn af landsbyggðinni, vitandi mætavel um aðstæður sveitarfélaganna, treysta sér ekki til að standa að því að laga frv. til að þessu leyti til hagsbóta fyrir sveitarfélögin. Það hljóta að verða orðnir býsna sárir margir úlnliðir á þessu þingi.

Það verður ógaman ef sú verður raunin, sem mig grunar, að sú bókun sem hér hefur verið vitnað til um sérstakan stuðning við sveitarfélögin í þessu skyni verði aldrei að neinu og hv. stjórnarliðar sitji uppi með það að hafa fellt brtt. í þessa veru og misst þar með af tækifæri til að festa í lög ákvæði þessarar bókunar. Ég hygg að verði niðurstaðan sú, sem nú bendir allt til, herra forseti, að bráðabirgðaákvæði II verði fellt, sé hæstv. ríkisstjórn og stuðningsmenn hennar að komast í álíka kostulega mótsögn við sjálfa sig og þegar stór kafli stjórnarsáttmálans var felldur í vetur í atkvæðagreiðslum um kvótafrv. Hér er í raun og veru verið að fella till. algerlega hliðstæða þeirri sem er í bókun og er grundvöllur að myndun þessarar ríkisstjórnar. Ég segi já.