29.04.1988
Neðri deild: 83. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7054 í B-deild Alþingistíðinda. (5041)

205. mál, lánskjör og ávöxtun sparifjár

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég skrifa undir nál. með fyrirvara og vil því gera örstutta grein fyrir þeim fyrirvara, en hann er fólginn í því að mér finnst að hv. fjh.- og viðskn. hafi ekki nýtt þetta tilefni til sjálfstæðrar umfjöllunar um lánskjör og vexti. Ég tók þátt í 1. umr. um þetta mál og fagnaði því tilefni sem það gæfi til athugunar á þessum málum sem eru okkar öllum áhyggjuefni.

Hér eru settar fram ákveðnar tillögur til breytinga sem ég lýsti reyndar efasemdum um við 1. umr. En svo mikið er víst að á þessum málum þarf að taka og þetta tilefni hefði nefndin getað nýtt betur en hún gerði. Við fengum nokkrar umsagnir um málið en fáa til viðræðu og ítarlegar viðræður fóru ekki fram í nefndinni sem vildi þó afgreiða þetta frv. með einhverjum hætti og þetta var sú afgreiðsla sem flestir nefndarmenn töldu við hæfi þar eð þessi mál væru í athugun hjá sérstakri nefnd á vegum ríkisstjórnarinnar.

Ég hlýt að minna á umræður í Sþ. fyrr í vetur þegar hæstv. viðskrh. svaraði fsp. minni um endurskoðun verðtryggingar á þann veg að slíkt stæði ekki til af hálfu ríkisstjórnarinnar. Meiri voru ekki áhyggjurnar á þeim bæ fyrir nokkrum vikum. Það er því með töluverðum semingi sem ég stend að þessari afgreiðslu, þ.e. að vísa málinu til þeirrar ríkisstjórnar sem ég hef svo nýlega lýst sérstöku vantrausti á.