29.04.1988
Neðri deild: 83. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7055 í B-deild Alþingistíðinda. (5042)

205. mál, lánskjör og ávöxtun sparifjár

Eggert Haukdal:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. nefnd fyrir afgreiðslu málsins þótt ég hefði óskað eftir að málið kæmi til atkvæða í hv. deild þannig að menn fengju tækifæri til að segja já eða nei við afnámi lánskjaravísitölunnar. Þess var ekki síður þörf en að menn fengju tækifæri til að segja já eða nei við tilkomu bjórs.

En umræðurnar um frv. í vetur hafa vissulega komið hreyfingu á þessi mál og það er vel. Það er nokkuð umliðið frá því að við ræddum þetta mál hér, en stuttu eftir það komu síðustu ráðstafanir ríkisstjórnar í efnahagsmálum í ljós. Það vakti þá sérstaka athygli mína að þær höfðu einmitt að geyma þær aðgerðir sem fólust í frv. mínu um lánskjör og ávöxtun sparifjár, þ.e. að vextir yrðu lækkaðir í áföngum en, svo að við notum önnur orð sem hæstv. ráðherra talaði þá gjarnan um, hrópaðir niður og það var framkvæmt af sjálfum stjórnvöldum.

Hæstv. ráðherra sagði í umræðunum í þinginu í vetur að stjórnvöld gætu ekki hlutast til um vexti með beinum tilskipunum, bíða yrði eftir markaðslögmálum. En það hefur nú samt gerst að það var ekki alveg beðið eftir þeim og ég óska hæstv. ráðherra til hamingju með framsýnina og framtakið. Ég harma hins vegar að ráðherrann skuli hafa misst af markaðslögmálum sínum sem hann virtist líta á sem leynivopn sitt.

Það er annars um markaðslögmálin að segja að þau geta verkað bæði til góðs og ills og þess vegna þarf einfaldlega ríkisstjórn títt að skerast í leikinn. Stundum verka lögmálin alls ekki, eins og stundum á sviði samkeppninnar. Til þess að þau verki er markaðurinn of smár og fyrirtækin of fá. Þetta mætti ráðherrann leggja sér vel á minnið og aðrir frjálshyggjumenn hvar í flokki sem þeir standa.

Við umræður um þetta frv. og vaxtamálin fyrr í vetur dró ég fram helstu rök gegn þeirri meinsemd sem lánskjaravísitalan er og ætla ekki að fara að endurtaka þau. En einu mætti bæta við: Hinni taumlausu frjálshyggju sem á stuðning í öllum flokkum hefur verið þannig lýst af mætum manni að hún væri mannfyrirlitning. Lánskjaravísitalan er eitt af afsprengjum frjálshyggjunnar. Hún er mannfyrirlitning og hún drepur fólk.

Á undanförnum árum hefur fjöldi sjálfsvíga aukist hér á landi og fróðir menn hafa sagt að sum þeirra megi rekja til lánskjaravísitölunnar. Vaxtafárið er orðið að drepsótt, er haft eftir mætum lækni.

Höfundar lánskjaravísitölunnar hafa vafalaust haft sín próf úr skóla og e.t.v. einhverjar gráður í hagfræði, en til viðbótar þessu þarf hjartað að vera með sem undir slær. Öll þekkjum við orð skáldsins Runeberg um Svein dúfu, þau orð að hjartað, það var gott. Og íslenskt skáld hefur sagt að bestu blómin gróa í brjóstum sem geta fundið til. Það er eins og þessa eðliskosti hafi vantað í smiði lánskjaravísitölunnar og yfirleitt í forráðamenn peningakerfisins. Þess vegna er það ófreskja og ómanneskjulegt.

Hætt er við að hjartalagið vanti enn í sérfræðingana nú þegar endurskoðun hefst. Þar er enginn tilnefndur úr atvinnulífinu, enginn af landsbyggðinni. Það væri mikið mál að skipt væri um ýmsa þá sérfræðinga sem með ráðleggingum sínum til stjórnvalda á undanförnum árum hafa sýnt að þeir eru lítt hæfir til að varða veginn. Þannig má t.d. ekki í framkvæmd hafa orðin að vernda hagsmuni hinna raunverulegu sparifjáreigenda sem skálkaskjól fyrir peningamenn og okrara eins og kerfið er í reynd. Slíkt kerfi drepur heimilin, atvinnufyrirtækin og þar með þjóðina.

En máski er von að Eyjólfur hressist. Hæstv. viðskrh. vitnaði í ræðu sinni í gærkvöld í hið fræga kvæði Arnar Arnarsonar um Stjána bláa. Tilefni ráðherrans var að segja frá því að mynd af garpinum hangir uppi í þingflokksherbergi Alþfl. Hin tilvitnuðu orð skáldsins, sem hæstv. ráðherra fór með, voru svohljóðandi:

Hörð er lundin, hraust er mundin,

hjartað gott, sem undir slær.

Mætti ráða af máli ráðherrans að þessir góðu kostir færu nú vaxandi með mönnum og þá einkum hjartalagið. Ef rétt er að þessir góðu eðliskostir séu nú í miklum mæli að koma í sérfræðingana, alþm. og ráðherrana, þá er vissulega enn von í þessum málum.

Meginmál mitt með því að setja fram þetta frv. var og er þetta: 1. Að lánskjaravísitalan verði afnumin, enda ekki mögulegt að breyta kostnaðarauka í tekjuauka. 2. Að teknir verði upp nafnvextir og þeir lækkaðir í áföngum með peningalegum aðgerðum ríkis og banka. 3. Við þetta mundi verðbólga minnka og þá opnast möguleiki á því að koma vöxtunum niður á svipað plan og útflutningsatvinnuvegir í samkeppnislöndum okkar búa við.