29.04.1988
Neðri deild: 84. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7077 í B-deild Alþingistíðinda. (5069)

514. mál, bann gegn viðskiptum við Suður-Afríku og Namibíu

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Ég lýsi yfir stuðningi við það frv. um bann gegn viðskiptum við Suður-Afríku og Namibíu sem hér hefur komið fram og flutt er af nokkrum þingmönnum í þessari hv. þingdeild.

Ríkisstjórnin hefur að undanförnu fjallað um það með hvaða hætti Íslendingar gætu best tekið þátt í samstarfi þeirra þjóða sem fordæma vilja aðskilnaðarstefnu stjórnarinnar í Suður-Afríku. Á fundi ríkisstjórnarinnar í gær varð samkomulag um það og sú tillaga samþykkt, sem ég þar gerði, að ríkisstjórnin beindi því til þingmanna stjórnarflokkanna í utanrmn. að leita eftir samstöðu þingmanna úr öllum flokkum í Nd. að flytja slíkt frv. Það er hér nú fram komið. Ég fagna því að það liggur nú fyrir deildinni.

Ég vil með nokkrum orðum gera grein fyrir afstöðu minni til þessa frv. Eins og ég sagði í upphafi styð ég eindregið þá tillögu að lagt verði bann við viðskiptum milli Íslands og Suður-Afríku og Namibíu. Mér er vel ljóst að sú ákvörðun hefur afar lítil áhrif á heildarviðskipti okkar þar eð viðskiptin við Suður-Afríku eru hverfandi. Það má líka benda á það að mjög skiptar skoðanir eru um það hvort sagan sýni að viðskiptabönn hafi nokkur veruleg áhrif til hins betra á viðkomandi ríkisstjórnir. Ástæðan fyrir afstöðu minni er hins vegar sú að með þessari ákvörðun um viðskiptabann er Alþingi, ríkisstjórnin og öll íslenska þjóðin að fordæma það kynþáttamisrétti, frelsisskerðingu og mannréttindabrot sem ríkisstjórn Suður-Afríku ber ábyrgð á. Þessi ákvörðun er því fyrst og fremst stjórnmálalegs eðlis en ekki viðskiptalegs eðlis.

Mörg lönd, einkum lönd sem við viljum helst hafa samstöðu og samstarf við á sviði mannréttindamála, þar á meðal öll hin Norðurlöndin, hafa sett bann á viðskipti við Suður-Afríku. Sum þessara landa hafa þar verulegra hagsmuna að gæta og því hefur þessi aðgerð valdið þeim nokkru viðskiptatjóni. Það hefur þó ekki haft áhrif á ákvörðun þeirra og við okkar aðstæður getum við að mínum dómi ekki látið það spyrjast að Íslendingar vilji ekki fylgja fordæmi þeirra og fordæma aðskilnaðarstefnu ríkisstjórnarinnar í Suður-Afríku með því að banna viðskipti milli landanna.