29.04.1988
Neðri deild: 84. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7077 í B-deild Alþingistíðinda. (5070)

514. mál, bann gegn viðskiptum við Suður-Afríku og Namibíu

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er mér sérstakt fagnaðarefni að þetta frv. skuli nú vera fram komið. Ég hef undanfarin ár reynt að beita mér fyrir því og hef verið eindreginn talsmaður þess að við Íslendingar tækjum upp harðari afstöðu gegn kynþáttaaðskilnaðarstefnu hvíta minni hlutans í Suður-Afríku og hef flutt það mál á þinginu með margvíslegum hætti, bæði með fsp. árin 1985 og 1987 til stjórnvalda um aðgerðir og enn fremur tekið það upp í umræðum um utanríkismál í nokkur önnur skipti.

Sl. haust spurði ég hæstv. utanrrh. um áform íslenskra stjórnvalda í ljósi þess að þá höfðu viðskipti okkar Íslendinga við Suður-Afríku því miður farið aftur vaxandi eftir tímabundinn samdrátt í kjölfar eindreginna tilmæla og mikillar umræðu um ástand mála í Suður-Afríku á árunum 1985–1986. Ég hygg að það hafi komið í ljós, því miður, að tilmæli og út af fyrir sig opinber stefna stjórnvalda í þessum efnum, þó hún sé vel kunn, dugar ekki ein sér. Það er reynsla nálægra þjóða og virðist því miður einnig vera reynsla okkar ef marka má þann vöxt sem orðið hefur á viðskiptum við Suður-Afríku bæði árið 1987 og það sem af er árinu 1988.

Síðan bætist það enn við, herra forseti, að ástand mála í Suður-Afríku hefur því miður versnað til mikilla muna. Um það ber í raun öllum saman, bæði talsmönnum meiri hlutans þar, talsmönnum Afríska þjóðarráðsins og einnig sérfræðingum alþjóðastofnana, svo sem eins og hjá Sameinuðu þjóðunum, sem fylgjast með ástandi mála þarna.

Síðustu og alvarlegustu atburðirnir um langa hríð voru svo sú ákvörðun ríkisstjórnar hvíta minni hlutans að banna öll friðsamleg samtök litaðra manna og þar með að loka síðustu möguleikunum á friðsamlegri andstöðu gegn aðskilnaðarstefnunni. Það er því einróma niðurstaða allra þeirra sem ég hef rætt við síðan þessir atburðir urðu að utanaðkomandi viðskiptaþvinganir séu nánast einasta og síðasta vonin sem til er um að brjóta þessa stefnu á bak aftur án ofbeldis, án styrjaldar. Ég hygg því að það sé fyllilega tímabært, svo ekki sé nú fastara að orði kveðið, að við Íslendingar fylgjum í kjölfar nágrannaþjóðanna og stígum skrefið til fulls og setjum á viðskiptabann.

Ég fagna frv. og þeirri samstöðu sem náðst hefur um að flytja það og ég vona að sú samstaða dugi til að það gangi greitt í gegnum þingið og verði að lögum á yfirstandandi þingi.