10.11.1987
Efri deild: 9. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 838 í B-deild Alþingistíðinda. (509)

69. mál, útvarpslög

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég gleymdi að geta þess í minni fyrri ræðu að sú nefnd sem á að endurskoða útvarpslögin hefur þegar verið skipuð þó svo að enn sé drjúgur tími þangað til slíkri endurskoðun laganna á að verða lokið eða rúmlega ár. Útvarpslögin tóku gildi 1. jan. 1986 en í lögunum er gert ráð fyrir því að endurskoðun verði lokið fyrir 1. jan. 1989. Þessi nefnd hefur verið skipuð þannig að ég fæ nú ekki séð að það sé við ráðherra að sakast ef einhver seinagangur hefur orðið í þeim efnum heldur við þingið sjálft fyrir að setja þennan þriggja ára frest.

Ég ætla lítið að segja um málin að öðru leyti. Ég varð svolítið undrandi á ræðu hv. 14. þm. Reykv., Guðmundar H. Garðarssonar. Hann hefur greinilega ekki hlustað á það sem ég sagði áðan, en kjarninn í minni ræðu var sá að tækninni fleytti svo fram að það gæti vel verið að óraunhæft væri að setja sér þá stefnu að íslenskar útvarpsstöðvar skyldu setja íslenskan texta á endursent efni eða láta endursögn þular fylgja. Ég tók það einmitt sérstaklega fram og sagðist vera reiðubúinn til að ræða það í þingnefnd hvort ástæða væri til að falla frá því, og gefa þá eftir varðandi íslensku, þannig að Ríkisútvarpið og Stöð 2 gætu endursent efni beint án íslenska textans og án endursagnar þularins. Því að auðvitað er óhugsandi að hugsa sér það sem hv. 7. þm. Reykn. sagði áðan að einungis lélegt, amerískt afþreyingarefni megi fara í gegnum Ríkisútvarpið en hins vegar megi franskar úrvalsmyndir fara í gegnum einhverjar endurvarpsstöðvar sem séu af öðrum reknar. Auðvitað verður Ríkisútvarpið að hafa sömu möguleika og aðrir, og líka Stöð 2, til þess að láta Íslendinga njóta úrvalsefnis annars staðar frá. Ég geri ráð fyrir því að þetta muni ekki verða ásteytingarsteinn okkar á milli og við hljótum að geta orðið sammála um það hér í deildinni að ástæðulaust sé að setja þessum tveim sjónvarpsstöðvum strangari skilyrði um útsendingu efnis en öðrum. Ég vil a.m.k. vænta þess.

Herra forseti. Ég vil ítreka að ég tel eðlilegt að menntmn. taki þetta mál upp. Ég er opinn fyrir öllu en ég vek athygli á því, eins og kom raunar fram hjá hv. fyrsta flm. í síðari ræðu hans hér áðan, að kjarninn í frv. er sá að það eigi að opna möguleika á því að hér sé hægt að setja upp endurvarpsstöðvar fyrir erlent sjónvarpsefni sem megi senda viðstöðulaust til notenda án íslenska textans og án þess að íslenskur þulur komi þar nokkurs staðar nærri. Hinar erlendu stöðvar eiga með þessum hætti að geta flætt yfir landið, en á hinn bóginn eigi Ríkisútvarpið og Stöð 2 að vera bundin við textunina, við þau skilyrði að verða að texta sínar myndir og, eins og hv. þm. sagði, þó svo það hafi í för með sér að sjónvarpsefni þeirra hljóti kostnaðarins vegna að verða ömurlegra, lélegra, verða annars flokks. Auðvitað getum við ekki fallist á það að binda þannig hendur íslenska rekstraraðilans að hann sé ekki að þessu leyti samkeppnisfær við hinn erlenda.