29.04.1988
Neðri deild: 85. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7089 í B-deild Alþingistíðinda. (5090)

432. mál, Ríkisendurskoðun

Guðrún Helgadóttir:

Hæstv. forseti. Ég hlýt að benda á við afgreiðslu þessa frv. að ég fæ ekki betur séð en þessi lög komi þvert á lög sem við vorum nýlega að samþykkja, þ.e. læknalög. Í núverandi frv. til læknalaga, frv. sem var 116. mál þingsins, segir svo í 16. gr., með leyfi forseta: „Lækni er skylt að afhenda sjúkraskrá alla eða að hluta sjúklingi eða forráðamanni ef það þjónar ótvíræðum hagsmunum sjúklings. Leiki vafi á nauðsyn afhendingar sjúkragagna eða þyki ástæða til vegna ákvæða laga þessara um þagnarskyldu er lækni heimilt að afhenda landlækni einum sjúkragögn sem trúnaðarmál til frekari fyrirgreiðslu. Ráðherra setur nánari reglur um afhendingu og varðveislu sjúkragagna og röntgenmynda að fengnum tillögum landlæknis og Læknafélags Íslands.“

Í 15. gr., sem fjallar einmitt um þagnarskyldu læknis, segir svo, með leyfi forseta: „Lækni ber að gæta fyllstu þagmælsku og hindra það að óviðkomandi fái upplýsingar um sjúkdóma og önnur einkamál er hann kann að komast að sem læknir.“

Í því frv. sem hér liggur fyrir, 432. máli þingsins, er hins vegar, eftir því sem ég fæ best séð, Ríkisendurskoðun heimilað að krefjast reikningsskila af stofnunum, samtökum, sjóðum og öðrum aðilum sem fá fé eða ábyrgðir frá ríkinu og þar er engin undanþága gerð t.d. vegna greiðslna til lækna.

Þetta mál hefur eins og kunnugt er verið nokkuð til umræðu að gefnum tilefnum nokkrum og vegna þeirra hefur borist opið bréf til alþm. frá Jóni Steinari Gunnlaugssyni hæstaréttarlögmanni sem mér finnst mjög athyglisvert og ástæða til að geta hér, en þar dregur hann mjög í efa heimild þingsins til að samþykkja þetta frv. og hleypa hvaða skrifstofumanni sem er hjá Ríkisendurskoðun inn í viðkvæmustu einkamál fólks og rekur mjög greinilega þær afleiðingar sem það gæti haft. Ég vil leyfa mér að lesa rökstuðning hans vegna þess að ég yrði ekki hissa í þeim önnum sem hér að undanförnu hafa verið að svo gæti farið að þingmenn hefðu ekki lesið þessa grg. Hann segir hér, með leyfi forseta, og hann er að tala um þá grein læknalaga sem tryggir friðhelgi einkalífs varðandi viðkvæm einkamálefni:

„Með þessu lagaákvæði er veitt lögvernd fyrir leynd einkalífs á mjög þýðingarmiklu sviði. Samskipti læknis við sjúkling snerta oft viðkvæmustu svið einkalífsins. Það er mjög mikilvægt að sjúklingur geti óhræddur skýrt lækni sínum frá einkalífsatriðum sem kunna að hafa þýðingu varðandi sjúkdóma eða almennt heilsufar. Þetta er fyrst og fremst mikilvægt vegna læknastarfsins. Lækninum er nauðsyn á að fá að vita sem gerst um ýmsa hagi sjúklingsins. Með þeim hætti aukast líkurnar á að læknirinn fái fulla yfirsýn yfir vandamálin og taki þá réttar ákvarðanir um læknisaðgerðir. Ef trúnaður milli læknis og sjúklings er rofinn með þeim hætti sem krafist er í þessu máli“ — en lögmaðurinn var þarna að verja skjólstæðing fyrir rétti — „gæti það ýmist haft þær afleiðingar að sjúklingar mundu síður skýra læknum frá einkalífsatriðum eða að til yrði tvöfalt upplýsingakerfi. Annað yrði ætlað til opinberra nota en hitt yrði eins konar neðanjarðarkerfi sem einungis lækni og sjúklingi yrði kunnugt.“

Ég hvet hv. alþm. til að lesa þetta opna bréf sem okkur hefur verið sent.

Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmaður kemur síðan með tillögur sem mér finnst mjög athyglisverðar til að leysa þennan vanda því að auðvitað erum við öll sammála um það að það gangi ekki að læknar séu utan við allt eftirlit varðandi þá fjármuni sem þeir taka frá opinberum sjóðum. Jón Steinar Gunnlaugsson lýkur bréfi sínu á þessa leið, með leyfi forseta:

„Vilji menn á hinn bóginn tryggja eftirlit með að ekki sé greitt fyrir önnur læknisstörf en þau sem unnin eru má auðveldlega ná því markmiði með því einfaldlega að koma á þeirri skipan að sjúklingar greiði lækninum sjálfir en fái síðan endurgreiðslu frá ríkinu. Þá kæmi jafnvel til greina að gera það að skilyrði fyrir endurgreiðslunni að sjúklingur undirritaði heimild til handa t.d. trúnaðarmanni Tryggingastofnunar ríkisins til að skoða sjúkraskrá sína ef slíkt þætti líklegt til að þjóna tilgangi. Með þessum hætti væri þá a.m.k. ekki rofinn sá trúnaður sem búið er að heita sjúklingi fyrir fram m.a. með skýrum ákvæðum settra laga þar sem aðgangur fengist ekki að einkamálum hans nema hann sjálfur samþykkti.“

Því vil ég vekja athygli á þessu að við nýlega afgreiðslu í hv. heilbr.- og trn. Nd. varð mikil umræða um þetta ákvæði læknalaganna og nefndarmönnum bar vitaskuld öllum saman um að nauðsynlegt væri að tryggja fullkominn trúnað milli sjúklings og læknis. En ég hef ekki í þeim önnum sem við höfum búið við gert mér alveg ljóst hvernig hægt er að leysa þetta mál þannig að það þurfi ekki að vera vafamál. Nú er málið hér til 1. umr. þannig að þetta mál á auðvitað eftir að fara til nefndar. Ég vil því biðja þá hv. nefnd sem fær málið til meðferðar að huga vandlega að þessu atriði því að það nær auðvitað engri átt að Álþingi sé á einu og sama þinginu að samþykkja tvenn frv. sem stangast virkilega á hvort við annað. Þess vegna vildi ég vekja athygli á þessu.