29.04.1988
Neðri deild: 85. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7090 í B-deild Alþingistíðinda. (5091)

432. mál, Ríkisendurskoðun

Páll Pétursson:

Herra forseti. Hér er um mjög nauðsynlega endurbót á mikilvægum lögum um Ríkisendurskoðun að ræða. Ríkisendurskoðun reyndist ekki hafa lagaheimildir til að gera það sem henni var ætlað eins og við útbjuggum lögin um Ríkisendurskoðun í fyrra. Það er ekki við það unandi að læknar geti varið fjárafla sinn með þeim hætti sem hér virðist vera.

Nú er það misskilningur hjá síðasta ræðumanni, hv. 13. þm. Reykv., ef hún er að gera ráð fyrir því að hver sem er af starfsmönnum Ríkisendurskoðunar geti vaðið í sjúkraskrár. Hér er einungis verið að fara fram á að trúnaðarlæknir Ríkisendurskoðunar fái heimild til að líta á þessi plögg. Það var mjög skýrt tekið fram í umræðum sem ég átti um þetta frv. þegar frv. var borið undir formenn þingflokka að þarna væri einungis um trúnaðarlækni að ræða sem fengi að skoða þessar skýrslur, þ.e. einn læknir fær að skoða sjúkragögn.

Þetta mál fer væntanlega til fjh.- og viðskn. þar sem ég er formaður og ég mun láta athuga hvort læknalög stangist á við frv. þetta. Ef þar gætir misræmis er það auðvitað rétt hjá síðasta ræðumanni að þá þarf að laga það. Þetta vildi ég að kæmi fram í 1. umr.