29.04.1988
Neðri deild: 85. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7091 í B-deild Alþingistíðinda. (5094)

229. mál, hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breytingu á lögum nr. 109 frá 1984, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, með síðari breytingum. Frv. þetta er á þskj. 962 og er 229. mál Ed.

Frv. þetta, sem ég mæli hér fyrir, var lagt fram á síðasta löggjafarþingi sem stjfrv., en náði þá ekki fram að ganga sakir tímaskorts. Er frv. lagt hér fram svo til óbreytt frá því það fór frá Ed. rétt fyrir þingslit í fyrra. Frv. er samið af stjórnskipaðri nefnd sem falið var að gera tillögur að endurskoðuðum lögum í samræmi við 10. tölul. í ákvæðum til bráðabirgða í lögum nr. 109/1984, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, áður lög nr. 50 frá 1981 með sama heiti.

Samkvæmt lögunum átti endurskoðun að vera lokið á síðasta þingi. Hinn 1. ágúst sl. voru liðin fimm ár frá gildistöku upphaflegu laganna, og átti endurskoðunin að fara fram fyrir þann tíma. Ég bað nefnd þá sem upphaflega samdi frv. að líta á málið milli þinga og leggur nefndin ekki til aðrar breytingar en þær að siglingamálastjóri skuli eiga sæti í svonefndri samstarfsnefnd skv. 31. gr. laganna þegar fjallað er um ágreining vegna framkvæmdar laga nr. 31/1986, um varnir gegn mengun sjávar, og annarra tiltekinna laga. Að öðru leyti leggur nefndin aðeins til breytingar á athugasemdum með 6. gr. og er það vegna breyttra aðstæðna frá því í fyrravetur varðandi svæðaskipulag Heilbrigðiseftirlitsins.

Áður en lengra er haldið er rétt að vekja athygli á því að áðurnefnd lög hafa í reynd tvisvar sætt endurskoðun eftir gildistöku þeirra, sem var 1. ágúst 1982, annars vegar með lögum nr. 92/1984, og var sú breyting felld saman við meginmál laganna og þau gefin út svo breytt með lögum nr. 109/1984, og hins vegar með setningu laga nr. 117/1985, um geislavarnir.

Með fyrri breytingunni var sveitarfélögunum heimilað að setja gjaldskrár vegna framkvæmdar Heilbrigðiseftirlitsins í sveitarfélögum og Hollustuvernd ríkisins að setja gjaldskrár vegna breyttrar þjónustu. Með síðari breytingunni var geislavarnastarfsemin tekin frá Hollustuvernd ríkisins og færð undir sérstaka stofnun, Geislavarnir ríkisins. Eitt af verkefnum hinnar stjórnskipuðu nefndar var að fella þessar breytingar inn í frv. það sem hér er til umræðu.

Með setningu nýrra laga um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, sem tóku gildi 1. ágúst 1982, var fyrst og fremst stefnt að þremur markmiðum:

1. Að koma á heilsteyptu og samræmdu heilbrigðiseftirliti og mengunarvarnaeftirliti í landinu öllu.

2. Að fella saman rekstur þriggja stofnana, þ.e. Heilbrigðiseftirlits ríkisins, Matvælarannsókna ríkisins og Geislavarna ríkisins, í eina stofnun sem nefnd var Hollustuvernd ríkisins.

3. Að kveða á um starfsemi sérstakrar mengunarvarnadeildar innan Hollustuverndarinnar og þar með í fyrsta skipti að kveða á um afskipti af mengandi atvinnurekstri í íslenskri löggjöf á afgerandi hátt.

Það voru fyrst og fremst þessi atriði sem komu til umfjöllunar í endurskoðunarnefndinni, auk ýmissa smærri sem ákveðið var að reynt yrði að færa til betri vegar eða fella hreinlega niður með hliðsjón af reynslu undangenginna fimm ára.

Það er skoðun endurskoðunarnefndarinnar, ef litið er til áðurgreindra þriggja meginmarkmiða gildandi laga, að í meginatriðum hafi tekist að koma á heilsteyptu og samræmdu heilbrigðiseftirliti og mengunarvarnaeftirliti í landinu. Þannig hefur á þessum tíma næstum tekist að koma á í landinu öllu heilbrigðiseftirliti sem er í höndum sérkunnáttumanna. Aðeins skortir á í dag að sveitarfélögin á Vestfjörðum komi sér saman um að reka eftirlitið eins og lög gera ráð fyrir. Annars staðar hefur eftirlitinu þegar verið komið fyrir eða það er í burðarliðnum eins og á Austfjörðum.

Með vísun til jákvæðrar þróunar eftirlitsmála úti í héruðum eru nánast engar breytingar gerðar varðandi þennan þátt laganna aðrar en þær sem gerðar eru á stöðu svæðisnefnda um heilbrigðiseftirlit, þ.e. afskiptum þeirra af fjármálum og samskiptum sveitarfélaga sem standa saman að heilbrigðiseftirliti á hinum 13 eftirlitssvæðum til þess að koma í veg fyrir erfiðleika við afgreiðslu fjárhagsáætlana.

Hvað snertir annað meginmarkmiðið, sem er starfsemi Hollustuverndar ríkisins, er nefndin þeirrar skoðunar að ekki hafi tekist til sem skyldi. Þannig hefur stofnuninni langt í frá, mest sakir fjárskorts, tekist að sinna þeim mikilvægu verkefnum sem henni eru falin skv. lögunum. Þótt þar komi til fjárskortur, eins og áður segir, húsnæðisleysi og skortur á efnarannsóknum matvæla og annarra neyslu- og nauðsynjavara eiga hér önnur atriði við, sem reyna verður að bæta með breytingum á lögunum. Er hér fyrst og fremst um stjórnunarhætti stofnunarinnar að ræða. Leggur nefndin til að þeir verði gerðir skilvirkari og málum verði þannig komið fyrir að möguleikar gefist til betri stjórnunar en hingað til.

Nauðsyn virkrar stjórnunar er brýn þar sem um er að ræða stofnun sem samkvæmt eðli sínu nýtur minni hylli þeirra sem stjórna fjármálum en ýmsar aðrar stofnanir og möguleikar til tekjuöflunar eru litlir að svo miklu leyti sem störf hennar lúta að almenningi, en það er ein af aðalskyldum hennar og hlýtur ávallt að vera. Þess vegna er lagt til að í stað forstjóra komi framkvæmdastjóri með rekstrarmenntun og reynslu af rekstri fyrirtækja eða stofnana og að hann starfi með sérstakri þriggja manna starfsstjórn sem ráðherra velur úr sjö manna stjórn stofnunarinnar, en ekki eru lagðar til breytingar á henni. Auk þess er lagt til að starfssviðum stofnunarinnar verði fjölgað um eitt, þ.e. eiturefnasvið, en um nauðsyn þess ætla ég ekki að fjölyrða heldur vísa til athugasemda með frv.

Um þriðja þáttinn, starfsemi mengunarvarnadeildar og ákvæði laga um mengunarvarnir, taldi nefndin ekki tímabært að fjalla því að of skammur tími væri liðinn til þess að hægt væri að dæma þar um með fullri vissu. Nefndin taldi þó að í mörgu væri reynslan góð, en lagði ekki til neinar efnislegar breytingar á gildandi ákvæðum.

Rétt er enn fremur að benda á að umhverfismál í víðasta skilningi eru til umfjöllunar í samræmi við starfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í sérstakri nefnd. Starfsemi deildarinnar kemur þar til umræðu og er rétt að bíða niðurstöðu þessa starfs.

Ég hef hér að framan fjallað stuttlega um þær breytingar sem felast í frv. Með því fylgir mjög ítarleg grg. þar sem m.a. er greint frá starfsháttum endurskoðunarnefndarinnar, reynslu af framkvæmd gildandi laga í héraði, starfsemi Hollustuverndar eftir starfssviðum og helstu nýmælum frv., en þau eru:

1. Lagt er til að svæðisnefndir Heilbrigðiseftirlitsins verði styrktar og þeim falin yfirumsjón með fjármálum eftirlitsins úti í héruðum.

2. Lagðar eru til skýrar reglur um kostnaðarskiptingu og að tekjur eftirlitsins á vegum sveitarfélaganna renni í sameiginlegan rekstrarsjóð.

3. Skýrari ákvæði eru um fjárreiður eftirlitsins á vegum sveitarfélaganna og hvernig fari um afgreiðslu í ágreiningsmálum.

4. Heilbrigðisnefndirnar í Mosfellssveit og á Seltjarnarnesi verði gerðar að sérstöku heilbrigðiseftirlitssvæði.

5. Lagt er til að stjórn Hollustuverndar ríkisins verði styrkt með því að skipa sérstaka rekstrarstjórn og framkvæmdastjóra rekstrar.

6. Lagt er til að stofnað verði nýtt svið innan Hollustuverndar ríkisins sem annist eiturefnaeftirlit.

7. Sett eru inn ákvæði um innflutningseftirlit með matvælum og öðrum neyslu- og nauðsynjavörum á vegum Hollustuverndar ríkisins.

8. Kveðið er á um vöruskráningarskyldu Hollustuverndar ríkisins varðandi erlend og innlend matvæli og aðrar neysluvörur og vörur sem geta verið skaðlegar heilsu manna.

9. Lögð er til sú regla að framkvæmdastjóri og forstöðumenn sviða Hollustuverndar ríkisins verði skipaðir til fjögurra ára. Reyndar hefur nú verið gerð sú breyting á frv. í Ed. að það er gert ráð fyrir því að þessi skipunartími verði sex ár.

10. Lagt er til að við Hollustuvernd ríkisins starfi sérstakur fræðslu- og upplýsingafulltrúi.

11. Rýmkaður er afskiptaréttur Hollustuverndar ríkisins til þess að grípa til nauðsynlegra ráðstafana láti heilbrigðisnefnd málið ekki til sín taka eða sinni því lítið.

Auk þess eru ítarlegar athugasemdir við einstakar greinar frv. læt ég nægja að vísa til þessara atriða og sé ekki ástæðu til að lengja mál mitt öllu meira. Eitt verð ég þó að leggja sérstaka áherslu á, en það er að efla verður starfsemi Hollustuverndar ríkisins m.a. með því að gera stofnuninni kleift að takast á við eftirlit með innflutningi matvæla og annarra neyslu- og nauðsynjavara. Stefna verður að því að koma upp innan stofnunarinnar á næstu þremur árum rannsóknastarfsemi er lýtur að efnarannsóknum vegna heilbrigðiseftirlitsins, t.d. vegna matvæla. Um þessi atriði er fjallað í ákvæðum til bráðabirgða í frv.

Þessum þáttum er því miður lítið sinnt í dag og hvað innflutningseftirlitið snertir er það ekkert fyrr en vara er komin út í verslanir. Slík skipan býður m.a. upp á að til landsins komi vörur sem nágrannaþjóðirnar hafa jafnvel hafnað innflutningi á. Er hér því um mjög alvarlegt mál að ræða sem er okkur til mikils vansa. Ég tel að ekki verði lengur undan þeirri ábyrgð skotist að koma á slíkri starfsemi hér á landi og er hér gert ráð fyrir að innan eins árs frá gildistöku laganna skuli þessu innflutningseftirliti komið á.

Í Ed. voru gerðar örfáar breytingar á frv. Þar má kannski helst geta þess að hvað varðar að koma á rannsóknaraðstöðu innan stofnunarinnar lagði heilbr.- og trn. Ed. áherslu á að kannað yrði hvaða aðstaða væri til í landinu og áætlun sú sem gert er ráð fyrir að lögð verði fyrir Alþingi haustið 1988 um uppbyggingu innflutningseftirlitsins skuli miðast við að aðstaða á öðrum rannsóknastofnunum í landinu verði nýtt eftir því sem frekast er kostur. Ég er fyrir mitt leyti fyllilega sammála þessari athugasemd og tel það bæði rétt og eðlilegt að við reynum að nýta þá aðstöðu sem til er og reynum á þann hátt að flýta fyrir því að þessu innflutningseftirliti verði komið á.

Þá er einnig gert ráð fyrir því að aftur verði sett inn í lögin svokölluð sólarlagsákvæði, þ.e. lögin skuli endurskoðuð innan fimm ára frá gildistöku. Þessu er ég líka fyllilega sammála og tel eðlilegt að það ákvæði komi inn í þetta lagafrv.

Hæstv. forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fara frekari orðum um frv. þetta, en vísa aftur til ítarlegrar grg. og athugasemda með frv., vil þó að lokum geta þess að mér hafa borist bæði bréf og nú síðast í dag skeyti frá heilbrigðisfulltrúum víða um land og heilbrigðisnefndum þar sem lögð er áhersla á mikilvægi þess að frv. nái að verða að lögum á þessu þingi. Þó að tíminn sé orðinn naumur fer ég eindregið fram á það eða óska eftir því við hv. heilbr.- og trn. þessarar hv. deildar að hún vinni fljótt og vel að málinu og við getum afgreitt það áður en þingi lýkur á næstu dögum.

Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.