29.04.1988
Neðri deild: 85. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7095 í B-deild Alþingistíðinda. (5097)

466. mál, ferðamál

Samgönguráðherra (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Á undanförnum árum og áratugum hafa orðið mjög miklar breytingar á ferðaþjónustu hér á landi svo að telja má algera byltingu. Má þar helst til nefna að sett hafa verið lög um ferðamálaráð sem hefur verið falið að hafa forustu um landkynningu og hafa risið fjölmargar ferðaskrifstofur sem keppa á markaði ferðaiðnaðarins. Þá hafa þeir aðilar sem að ferðamálum starfa sett á stofn upplýsingamiðstöð sem þeir reka sjálfir til kynningar og upplýsingar í landinu. Má því segja að veigamikill hluti af upphaflegu hlutverki Ferðaskrifstofu ríkisins hafi verið falinn öðrum aðilum, auk þess sem flugfélögin og ferðaskrifstofurnar ástunda umfangsmikla landkynningu.

Stjfrv. það sem hér er til umræðu er um breytingu á skipulagi ferðamála, laga nr. 79/1985, og felur í sér heimild til handa ríkisstjórninni til að selja allt að 2/3 hlutum af Ferðaskrifstofu ríkisins hlutafélagi sem þegar er heimilað að stofna skv. þeim lögum sem um ferðaskrifstofuna gilda í dag og fengi þá hið nýja félag heitið Ferðaskrifstofa Íslands hf.

Sérstök nefnd um minnkum ríkisumsvifa, sem skipuð var 1977, komst að þeirri niðurstöðu í áfangaskýrslu um Ferðaskrifstofu ríkisins í maí 1978 að vinna bæri að því að starfsemi Ferðaskrifstofu ríkisins verði komið úr umsjón Ferðaskrifstofu ríkisins. Hugmyndir sama efnis hafa komið fram af og til síðan og m.a. er gert ráð fyrir því, eins og ég gat um áðan, í gildandi lögum um ferðamál að stofnað verði hlutafélag um fyrirtækið og starfsmönnum verði heimilað að kaupa allt að 30% hlutafjárins.

Í kjölfar þeirrar lagasetningar fór fram mat á eignum Ferðaskrifstofu ríkisins og Edduhótelanna. Á hinn bóginn hefur enn ekki verið efnt til stofnunar hlutafélagsins um reksturinn svo sem fyrir er mælt í 1ögunum. Þá kom reyndar í ljós fremur takmarkaður áhugi starfsmanna á kaupunum þar sem um minnihlutafjáreign starfsmannanna var að ræða og þeir höfðu þar af leiðandi ekki afgerandi áhrif á reksturinn. Þegar hefur hugur starfsfólksins verið kannaður hjá starfsmönnum Ferðaskrifstofu ríkisins um kaup á 2/3 hlutafjárins og þá kom allt annað hljóð í strokkinn og áhugi fyrir því að það gerðist aðili að eign fyrirtækisins.

Ég vísa, herra forseti, að öðru leyti til þeirra athugasemda og þeirrar ræðu sem ég flutti í hv. Ed. varðandi einstakar greinar frv. Nál. í Ed. var frá samgn. þar sem allir nefndarmenn voru sammála. Þeir undirstrikuðu hins vegar sín sjónarmið sem ég féllst fullkomlega á, enda er hér gert ráð fyrir því að um sölu til starfsfólksins sé að ræða.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. samgn.