30.04.1988
Sameinað þing: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7105 í B-deild Alþingistíðinda. (5109)

394. mál, lækkun raforkukostnaðar í gróðurhúsum

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Ég tek undir að það er æskilegt ef Alþingi vill lýsa yfir vilja sínum til þess að orkuverð til gróðurhúsaframleiðslu eða garðyrkju verði lækkað. Það er búið að reyna að leita eftir slíku, en eins og hér hefur komið fram er það að sjálfsögðu mikilvægt að orkuverð til slíkrar framleiðslu sé eins lágt og kostur er. Þar hlýtur viðhorf Alþingis að hafa veruleg áhrif.

Ég minnist þess að fyrir um fjórum árum urðu hér geysiharðar deilur og ásakanir á landbrn. fyrir að vilja láta ódýra hitaorku til fiskeldis og það talin hin mesta óhæfa. Sem betur fer varð það ekki til þess að það næði þá fram að ganga að breyta þeirri stefnu sem landbrn. hafði þá mótað. En að sjálfsögðu er hægara að vinna að svona málum með stuðningi Alþingis en í andstöðu við þingmenn.

Hér hefur einnig verið vikið að fleiri þáttum í sambandi við garðyrkju, svo sem innflutningi. Þar hefur að undanförnu verið komið á miklu fastara skipulagi en áður var. Nefnd, sem er skipuð fulltrúum garðyrkjubænda m.a., hefur þar yfirumsjón. Yfirleitt eru mál þar afgreidd með samkomulagi og ef það tekst ekki er reynt að taka tillit til hagsmuna og sjónarmiða garðyrkjubænda eins og kostur er.

Það hefur verið vikið hér að einum þætti sem snertir það mál, þ.e. sjúkdómahættu. Það er ekki nógsamlega undirstrikað hversu mikilvægt er að þar sé verið á verði. Nú hefur á síðustu árum farið eins og eldur í sinu yfir mörg lönd nýr sjúkdómur, svokallað amerískt „trips“, sem er verri viðureignar en ýmsir sem fyrir voru, og þá vofir að sjálfsögðu sú hætta yfir að hann kunni að berast hingað líka. Það hefur verið gefin út sérstök reglugerð til að herða á eftirliti af þessum sökum og lögð áhersla á það við þá aðila sem þetta eftirlit annast að fylgjast eins vel með og kostur er og jafnframt óskað eftir ábendingum frá garðyrkjubændum um hvernig þeir telji að þarna megi sem best að verki standa.

Ég tek undir að það er æskilegt af mörgum ástæðum að styðja íslenska garðyrkju eins og kostur er vegna þess að þar njótum við framleiðslu úr ómenguðu umhverfi og góðum jarðvegi og tækniframfarir, bæði með lýsingu og á annan hátt og kynbótum, eru sífellt að gera okkur kleift að auka fjölbreytnina og auka uppskeru. Möguleikarnir fara þar sífellt vaxandi.