30.04.1988
Sameinað þing: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7106 í B-deild Alþingistíðinda. (5112)

133. mál, samræming áætlana á sviði samgöngumála og mannvirkjagerðar

Frsm. atvmn. (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 922 frá atvmn. um till. til þál. um samræmingu áætlana á sviði samgöngumála og mannvirkjagerðar.

Nefndin hefur rætt tillöguna á fundum sínum og sent hana níu aðilum til umsagnar: Vegagerð ríkisins, Flugleiðum, Eimskipafélaginu, flugráði, skipadeild Sambandsins, Skipaútgerð ríkisins, Félagi ísl. sérleyfishafa, Landflutningum og Vöruflutningamiðstöðinni.

Umsagnir voru allar frekar jákvæðar. Það má geta þess að heildaráætlun hefur að vísu verið gerð um einstaka þætti, svo sem vegáætlun, hafnaáætlun og flugáætlun, en við álítum að það hafi skort á samræmingu á milli þessara þátta. Síðasta áætlunargerð um samgöngur á Íslandi þar sem fjallað var um alla þætti innanlandssamgangna á landsvísu var unnin fyrir um 20 árum.

Nefndarmenn urðu sammála um að leggja til að tillögunni yrði vísað til ríkisstjórnarinnar. Fjarstaddir afgreiðslu málsins voru Geir Gunnarsson, Birgir Dýrfjörð og Eggert Haukdal, en undir nál. rita Valgerður Sverrisdóttir, formaður, Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, fundaskrifari, Ólafur Þ. Þórðarson og Guðmundur H. Garðarsson.