30.04.1988
Sameinað þing: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7111 í B-deild Alþingistíðinda. (5118)

133. mál, samræming áætlana á sviði samgöngumála og mannvirkjagerðar

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Ef ég man rétt — hv. þm. leiðréttir mig þá — hefur verið að tala formaður atvmn. sem þessi till. kemur frá. Ég get ekki fallist á þá skoðun þingmannsins að afgreiðsla á þann máta að vísa máli til ríkisstjórnar sé það sama og mæla með því til áframhaldandi vinnu. Undir flestum kringumstæðum líta menn svo á að það sé verið að salta það málefni sem er vísað til ríkisstjórnarinnar, a.m.k. ef það málefni kemur frá stjórnarandstæðingum. Undir vissum kringumstæðum getur það verið afgreiðslumáti fyrir stjórnarþingmenn að koma máli sem að einhverju leyti er dellumál innan stjórnarinnar til ríkisstjórnar og reyna að láta ríkisstjórnina leysa það sem hv. Alþingi getur ekki, en það að vísa málefnum sem þingmenn stjórnarandstöðunnar flytja hér á hv. Alþingi til ríkisstjórnarinnar er oftast nær skilið á þann veg að það sé verið að svæfa það með kurteislegum hætti.

Stjórnarandstaðan hefur lýst frekar litlu trausti á þá ríkisstjórn sem nú situr og jafnvel formaður atvmn. líka þannig að enn er það áhersla á að þetta sé verið að gera til að gera sem minnst úr þessu máli og fá það ekki afgreitt á þann máta sem allir umsagnaraðilar, eins og hv. frsm. lýsti hér áðan, hefðu lagt til. Það eru nokkuð sérstök vinnubrögð þegar þannig er haldið á málum.

Það komu fram ýmsar fullyrðingar og kenningar í ræðu hv. þm. Ólafs Þórðarsonar, formanns atvmn. (ÓÞÞ: Það er ég alls ekki.) (VS: Ég er formaður.) Nú bið ég mikillega afsökunar. Ég bað þingmanninn að afsaka þetta er ég í upphafi nefndi það. Ég hef verið að beina orðum mínum til hv. þm. Ólafs Þórðarsonar en ekki hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur. Ég veit vel um að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir er mikill stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar, en aftur á móti efast ég um, svo sem við heyrðum líka hér í atkvæðagreiðslum, að hv. þm. Ólafur Þórðarson sé mjög traustur. (Gripið fram í.) Ekki miðað við þá ræðu sem hv. þm. flutti áðan, m.a. þá tillögu að taka til sérstakarar athugunar sérleyfisferðir fyrir Hvalfjörð. Þar væri heldur mikið frelsi á ferðinni. Eins og við vitum er aðalmarkmið þeirrar ríkisstjórnar sem hér situr nú að hafa frelsi til framkvæmda og til reksturs. Ég get ekki ímyndað mér annað en það sé þvert á stefnu ríkisstjórnarinnar og þá kannski þvert á stefnu hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur að láta sér detta í hug að koma með einhverjar þvingunaraðgerðir í sambandi við það hvaða rútur fá að keyra í kringum Hvalfjörð. (ÓÞÞ: Þær komast ekki.) Fyrir Hvalfjörð. Ja, fyrir Hvalfjörð gæti verið erfitt fyrir hann að fara ef hann ætlaði að fara fyrir mynni Hvalfjarðar. Það gæti verið svolítið erfitt nema með Akraborg.

Það er greinilegt að það er einhver skörun á stefnu þingmanna Framsfl. í þessu eins og svo mörgu öðru, en meining mín hingað upp var nú sú að fjalla svolítið um hvert eigi að vísa málum og einmitt málum eins og því sem við erum að fjalla um hér, samgöngumálum sem iðulega koma til umfjöllunar á hv. sameinuðu Alþingi. Jafnvel eru þáltill. um samgöngumál stærsti tillöguhópurinn sem hér er fjallað um. Þeim er síðan vísað til atvmn. og jafnvel stundum til allshn., ég hef vissan grun um það, oftast nær til atvmn. En ég tel það mjög vafasama leið og tek undir það, sem hv. 2. þm. Norðurl. v. sagði hér áðan, að það er eðlilegur farvegur að till. um samgöngumál, ef ekki er nefnd á hv. sameinuðu þingi sem beinlínis fjallar um samgöngumál, sé vísað til fjvn. og svo í beinu framhaldi af því og jöfnum höndum að um þær verði fjallað, eins og hv. þm. Ólafur Þórðarson nefndi áðan, í þeirri nefnd sem starfar hér vanalega við fjárlagagerð, þ.e. í samvinnunefnd samgöngumála. Það væri eðlileg og sjálfsögð meðferð á till. sem þessum og þær fengju miklu raunhæfari afgreiðslu. Það gæti líka verið eðlilegt að hv. sameinað Alþingi væri með sérstaka samgöngunefnd, en hin leiðin finnst mér liggja beint fyrir miðað við þau þingsköp sem við búum við.

Það er mjög gott að fá umfjöllun um þennan þátt hér í lok þingstarfa. Það gæti verið að við mundum líta svolítið öðruvísi á meðferð þessara mála á næsta þingi, eða þeir hv. þm. sem þá verða ef aðrir koma í okkar stað, ef svo skyldi fara að það yrði kosið í sumar sem kannski eru ekki miklar líkur fyrir eftir hina miklu traustsyfirlýsingu til ríkisstjórnarinnar sem hér varð staðreynd. Verið getur að miðstjórnarfundur Framsfl. í júní taki einhverja aðra ákvörðun en sá sem var haldinn um síðustu helgi.

Hv. þm. Ólafur Þórðarson nefndi að grunnvinna í flugmálum væri unnin í flugráði og þar af leiðandi væri það málefni stefnumarkað utan fjvn. Ég get alveg tekið undir að svo er gert, en ég tel að grunnvinna í vegamálum sé unnin að meginhluta til á svipaðan máta og undirbúningur mála í sambandi við flugvallagerð og flugvallarekstur. Það er fjallað um það hjá Vegagerð ríkisins og síðan fjalla þingmenn hvers kjördæmis um þessa hluti jöfnum höndum og fjvn. er að fjalla um þetta. Við getum ekki verið að metast á um hvernig mál eru undirbúin til fjvn. á þessum sviðum. Það er eðlilegt að lokaafgreiðsla þessara mála eigi sér stað á vegum fjvn. og það er líka eðlilegt að það sé tryggt að umræðan um þessi mál eigi sér stað á breiðari grunni en er innan fjvn. einnar.

Ég kom inn á hv. Alþingi 1971. Þá sátu hæstv. ráðherrar, eins og þingmenn flestir muna og vita, út frá forsetastóli og þá var það held ég mjög sjaldgæft að ráðherrastólarnir væru á þann veg sem þeir eru nú. Getur það verið að þeir hæstv. ráðherrar sem nú sitja eigi erfitt með að horfa í augu ræðumanna sem eru í ræðustól Alþingis? Getur verið að þróunin sé að verða sú að það fækkar alltaf þeim ráðherrum sem hafa tíma eða aðstöðu til þess að fylgjast með umræðum á Alþingi vegna þess að þeir vilji ekki líta framan í augu þeirra hv. þm. sem eru í ræðustól? Það er öll þróun á þann veg að hér sést varla ráðherra þegar umræða á sér stað hér á hv. Alþingi. Þó að ráðherrum fjölgi fækkar þeim sífellt sem sitja hér og fylgjast með umræðum.