10.11.1987
Neðri deild: 10. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 846 í B-deild Alþingistíðinda. (512)

65. mál, friðlýsing Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum

Guðmundur G. Þórarinsson:

Herra forseti. Ég vil þakka flm. flutning þessa frv. Ég er þeirrar skoðunar að það sé fyllilega tímabært að Íslendingar setji í lög ákvæði um þau atriði sem er um fjallað. Ég hygg hins vegar að lagafrv. af þessu tagi þurfi nokkuð víðtækrar athugunar við og mikillar umhugsunar og það er mikið atriði að vel sé um þetta og vandlega fjallað og vélað í þeirri nefnd sem um frv. á að ræða.

Meginmarkmið frv. er að því er mér skilst annars vegar að staðfesta með lögum að hér skuli ekki vera kjarnorkuvopn eða eiturvopn, hins vegar að draga úr hættunni á kjarnorku- og eiturefnaóhöppum á Íslandi og í grennd við landið. Allt er þetta góðra gjalda vert, en svona við fljótan yfirlestur á frv. koma í hugann nokkrar spurningar. Frv. fjallar um að bannað sé að koma fyrir innan hins friðlýsta svæðis kjarnorkuvopnum, bannað að flytja kjarnorkuvopn um friðlýsta svæðið og bannað að gera tilraunir með kjarnorkuvopn. Þegar hins vegar er talað um að bannað sé að búa til eiturvopn af nokkru tagi innan friðlýsta svæðisins og að flytja þau um svæðið. Ekki veit ég hvort flm. hugsa það sem svo að það sé þá heimilt að gera tilraunir með eiturvopn. Það kann að virðast sem einhvers konar útúrsnúningur að velta því fyrir sér. Það er þó tekið fram með kjarnorkuvopnin, en ekki með eiturvopnin, varðandi tilraunirnar og sérstakri grein varið til þess að fjalla um þetta málefni í frv.

Annað sem ég hegg eftir við fljótan yfirlestur er líka að í þessu frv. er sérstaklega tekið fram að losun kjarnorkuúrgangs eða annarra geislavirkra efna, hvort sem þau teljast hágeislavirk eða lággeislavirk, er með öllu óheimil innan friðlýsta svæðisins. Þarna eru enn á ný sérstök ákvæði í lagafrv. varðandi losun geislavirkra efna en ekki samsvarandi ákvæði varðandi eiturvopnin eða eiturúrgang sem tengist þeim vopnum. Mér virðist því kannski ekki alveg fyllilega samhengi í frv. milli þess þegar fjallað er annars vegar um kjarnorkuvopn og kjarnakleyf efni og hins vegar um eiturefnin og eiturefnavopn. Hvort það er með ráði gert hjá flm. veit ég ekki. Þeir kunna að hafa einhverjar skýringar á því. En þetta getur valdið misræmi og e.t.v. misskilningi.

Ég er ekki alveg viss um hvort 10. gr. er of fortakslaus, að sérhverju farartæki sem að einhverju eða öllu leyti er knúið kjarnorku er bannað að koma inn á hið friðlýsta svæði. Að vísu eru undanþágur í 12. gr. Við vitum að þróun kjarnorku til að knýja farartæki er mikil og það þarf ekki endilega að vera í framtíðinni að kjarnorkuknúið farartæki sé knúið með kjarnakleyfum efnum. Ef flm. hafa í þessu sambandi sérstaklega í huga geislavirkni vegna kjarnorkuknúinna farartækja er ég ekki viss um að hún þyrfti að vera til staðar í öllum tilvikum ef um væri að ræða kjarnorkuknúið farartæki sem ekki væri sérstaklega knúið með kjarnakleyfum efnum. Hins vegar er greinin alveg fortakslaus að þessu leyti. Öll umferð, segir í 11. gr., farartækja sem flytja kjarnakleyf efni er bönnuð. Og þá vaknar auðvitað sú spurning: Hvað eru kjarnakleyf efni? Sjálfsagt eru til í náttúrunni mörg geislavirk efni og mörg efni sem út af fyrir sig eru kjarnakleyf, notuð í ýmsum tilgangi, þó ekki til vopnaframleiðslu eða slíks, þannig að það veltir aðeins upp spurningunni hvað við sé átt.

Herra forseti, ég tel að frv. sé góðra gjalda vert. Ég held að það sé þarft framlag hér á Alþingi Íslendinga. Ég bendi hins vegar á að ýmislegt í þessu er hlutir sem þurfa athugunar við og verða vonandi skoðaðir nánar í nefnd.