30.04.1988
Sameinað þing: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7116 í B-deild Alþingistíðinda. (5127)

Vinnubrögð og fundahald

Samgönguráðherra (Matthías Á. Mathiesen):

Virðulegi forseti. Það var aðeins út af orðum hv. 2. þm. Vestf. þar sem hann taldi að menn hefðu ekki verið hér til staðar til að vekja athygli á því að tillögur í sambandi við vegamál ættu að fara til fjvn.

Ég vil gjarnan rifja upp að hér var flutt tillaga um tvöföldun Reykjanesbrautar. Ég lagði á það áherslu og benti á að þessar tillögur ættu að fara til fjvn. En það kom fram tillaga frá flm. og það var farið að henni. Þingið samþykkti að vísa þeirri tillögu, um tvöföldun Reykjanesbrautar, til allshn. Hér erum við svo að ræða tillögur sem eru að koma frá atvmn. á sama tíma sem fjvn. er að ræða tillögur um breytta vegáætlun 1988. En efni tillögunnar sem hér var á dagskrá og til umræðu var um samræmingu áætlana. Og þá spyr ég: Er ekki ástæða til að við samræmum okkar störf í þessum efnum?