30.04.1988
Sameinað þing: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7117 í B-deild Alþingistíðinda. (5128)

Vinnubrögð og fundahald

Steingrímur J. Sigfússon:

Hæstv. forseti. Ég hefði eins getað beðið um orðið til að bera af mér sakir undan því orðbragði sem hv. 4. þm. Austurl. viðhafði hér og er nú rokinn á dyr. Sá hv. þm. hefur það gjarnan fyrir sið að hegða sér eins og einhver yfirforseti hér á þinginu og gjamma þá fram í og leiðbeinir forsetum um þeirra störf, en stendur sig svo ekki betur í stykkinu en það að viðhafa hér orðbragð sem ætti að ávíta ef allt væri með felldu. Það er fyrir neðan allar hellur að fyrrv, forseti hér á þinginu, maður sem gegnt hefur ráðherrastörfum og setið lengi á Alþingi, skuli viðhafa slíkt orðbragð um vinnu þm. Ég a.m.k. mótmæli því harðlega að tillaga sem ég stend að flutningi á sé nefnd þeim nöfnum sem hér voru uppi höfð.

Að öðru leyti vil ég segja hér við umræður um þingsköp að ég tel að það ætti að ljúka þessari umræðu og að það eigi að takast upp á fundum með forsetum hvernig verkstjórn í þessum efnum sé hagað. Ég held reyndar að þau miklu rök sem hér eru fram færð fyrir því að fjvn. eigi að fá öll mál til umfjöllunar séu ómerk vegna þess að með sömu rökum mætti í raun og veru segja að vísa ætti öllum útgjaldamálum til fjvn. Auðvitað fær fjvn. þessi mál til meðferðar að svo miklu leyti sem um útgjöld til verkefnanna er að ræða, en að öðru leyti fara málin til nefnda eins og efni þeirra segir til um.

Ég hef síðan, hæstv. forseti, kvatt mér hljóðs um tillögu þessa þegar aftur kemst á friður til að ræða hana efnislega og ég vona að það verði innan stundar.