30.04.1988
Sameinað þing: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7121 í B-deild Alþingistíðinda. (5134)

398. mál, akstur utan vega

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um akstur utan vega, á þskj. 744. Með mér eru flm. að þessari tillögu hv. þm. Friðjón Þórðarson, Valgerður Sverrisdóttir, Þórhildur Þorleifsdóttir, Árni Gunnarsson og Óli Þ. Guðbjartsson.

Eins og fram kemur í þessari upptalningu standa að till. þessari þm. úr öllum þingflokkum hér á Alþingi. Það mál sem hér er rætt hefur því breiðan stuðning. Tillagan er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að kjósa milliþinganefnd skipaða fulltrúum frá öllum þingflokkum til að gera úttekt á akstri torfærutækja og annarra vélknúinna tækja utan vega og merktra slóða og leita úrræða til að koma í veg fyrir náttúruspjöll af þessum sökum.

Tillögur nefndarinnar skulu m.a. fela í sér æskilegar breytingar og samræmingu á lögum um akstur utan vega, svo og drög að reglum um sama efni.

Nefndin skal hafa samband við ráðuneyti, stofnanir og félagasamtök sem málið einkum varðar. Nefndin skal skila tillögum sínum í formi skýrslu til næsta reglulegs Alþingis.

Kostnaður við störf nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.“

Brýn nauðsyn er á því að marka skýra stefnu um akstur utan þjóðvega og um eftirlit með settum reglum. Meginmarkmiðið hlýtur að vera að vélknúin ökutæki sem ætluð eru til aksturs á auðu landi fylgi eingöngu viðurkenndum og merktum slóðum, hvort sem um er að ræða fjallabíla, jeppa eða léttari tæki eins og fjórhjól, þríhjól og bifhjól. Ákveðin svæði á landinu ætti að friða algerlega fyrir umferð vélknúinna ökutækja og banna að leggja þar akslóðir.

Athuga þarf sérstaklega um heimildir til innflutnings og sölu ökutækja sem stefnt er gegn viðurkenndum náttúruverndarsjónarmiðum. Sama gildir um skráningu tækja og aldursmörk fyrir ökumenn þeirra.

Akstur vélknúinna tækja utan vega er orðinn mikið vandamál hérlendis. Þar er um að ræða, eins og fram hefur komið, fjórhjóladrifna bíla, vélsleða, fjórhjól og þríhjól, svo og mótorhjól. Stöðugt bætast við á markaði nýjar gerðir ökutækja sem ekki síst eru ætluð til aksturs á vegleysum.

Ísland er óvenju opið og varnarlaust gagnvart slíkum tækjum. Skóglendi hindrar hér óvíða umferð þeirra. Landið er strjálbýlt og því erfitt um eftirlit. Víðáttur á hálendi eru miklar og auðvelt að komast þar út fyrir slóðir og aka um sanda og gróðurteygingar. Víða í grennd við þéttbýli er einnig unnt að komast á þessum tækjum um úthaga og útivistarlönd. Þessar aðstæður kalla á sérstök viðbrögð hérlendis ef við viljum koma í veg fyrir að landið verði úttraðkað af ökutækjum og tryggja að sæmileg friðsæld haldist í náttúrunni.

Löggjöf hérlendis er mjög gloppótt og mótsagnakennd varðandi þessi efni. Það á m.a. við um nýsett umferðarlög sem gera ráð fyrir sérstökum svokölluðum „torfærutækjum“ sem ekki má aka á vegum á sama tíma og akstur að nauðsynjalausu utan vega og merktra slóða er bannaður samkvæmt náttúruverndarlögum.

Inn í landið eru þannig flutt og hér skráð tæki sem ekki má nota lögum samkvæmt nema í sérstökum undantekningartilvikum. Þetta á m.a. við um fjórhjól, en um 1250 slík tæki voru flutt inn og seld hér á árunum 1986 og 1987 og sala þeirra hafin áður en nokkur ákvæði voru í lögum um notkun þeirra, skráningu og reglur varðandi aldur þeirra sem hefðu heimild til að aka slíkum tækjum. Þessi tæki, ekki síður en jepparnir og kannski enn frekar, hafa valdið miklum náttúruspjöllum og auk þess hafa orðið mörg og alvarleg slys vegna notkunar þeirra þann stutta tíma sem þau hafa verið hér á landi í notkun.

Ég leitaði til landlæknisembættisins við undirbúning þessarar tillögu og fékk þar upplýsingar um að veruleg brögð hefðu orðið að slysum — og það alvarlegum slysum — vegna notkunar fjórhjóla, bæði vegna ákeyrslu en eins vegna skakkafalla og bakfalla þeirra sem þessum tækjum stýra. Þarna er m.a. um að ræða hryggbrot, höfuðkúpubrot, fótbrot og annað af því tagi, sem betur fer ekki dauðaslys svo mér sé kunnugt um. Og enn er að bætast í þetta safn því að fyrir fáum dögum sá ég fregn um alvarlegt slys af völdum fjórhjólaaksturs.

Á náttúruverndarþingi sem haldið er þriðja hvert ár — það síðasta haustið 1987 — voru samþykktar ályktanir varðandi fjórhjól sérstaklega og almennt um akstur utan vega. Þetta náttúruverndarþing, þar sem um er að ræða breiða þátttöku bæði áhugafólks og embættismanna, ályktaði um það að skora á stjórnvöld og Alþingi að banna sölu og dreifingu torfærutækja eins og fjórhjóla og framfylgja ákvæðum laga varðandi akstur þeirra torfærutækja sem þegar hafa verið flutt til landsins. Einnig vakti þingið í sérstakri ályktun athygli stjórnvalda á þeim stórfelldu og stundum óbætanlegu spjöllum sem umferð þessara tækja getur valdið á gróðri, jarðmyndunum og dýralífi. Þingið hvatti til að sett yrði reglugerð um akstur utan vega almennt og hert yrði eftirlit með umferð vélknúinna tækja í óbyggðum árið um kring.

Nú er rétt að vekja athygli á því, virðulegi forseti, að fjölmiðlar hafa vissulega greint frá tjóni af völdum svokallaðra „torfærutækja“, þá að jeppum meðtöldum. En því miður gerist það einnig og kannski oftar að fjölmiðlar falla í þá gryfju að varpa eins konar hetjuljóma á fólk sem leggur upp í leiðangra með vélaherfylki um landið þvert, þar á meðal um viðkvæmar gróðurvinjar hálendisins. Það er eins og enginn muni eftir því að verið er að brjóta lög og reglur með slíkum akstri og rista spor í landið sem getur tekið áratugi og jafnvel aldir að bæta.

Þessi tillaga, herra forseti, gerir ráð fyrir því að sérstök milliþinganefnd skipuð fulltrúum úr öllum þingflokkum fjalli um akstur utan vega og um þau vandamál sem honum tengjast og móti tillögur til úrbóta. Hér er um það margþætt mál að ræða að nauðsynlegt er að vönduð úttekt fari fram og samráðs sé leitað við hlutaðeigandi við mótun tillagna. Þar þurfa til að koma að mati flm. náttúruverndaraðilar eins og Náttúruverndarráð, ferðamálaaðilar, þar á meðal Ferðamálaráð og Umferðarráð, Vegagerð ríkisins, svo og að sjálfsögðu ráðuneyti, sveitarstjórnir og ýmsar stofnanir, en einnig samtök bænda sem nota tæki sem hér eru nefnd í atvinnurekstrarskyni margir hverjir, og einnig félög tækjaeigenda sem stofnað hafa með sér samtök og klúbba um þá íþrótt — ef rétt er að kalla torfæruakstur því nafni — og bera saman bækur sínar. Við alla þessa aðila er sjálfsagt að hafa samráð við meðferð málsins á vegum þeirrar milliþinganefndar sem lagt er til að kosin verði skv. tillögu þessari.

Þar sem hér er um að ræða umhverfismál, herra forseti, sem meginkjarna þessarar till., legg ég til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til hv. félmn.