10.11.1987
Neðri deild: 10. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 847 í B-deild Alþingistíðinda. (514)

65. mál, friðlýsing Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég þakka flm. fyrir að flytja þetta mál inn á hv. Alþingi og að fá það til meðhöndlunar. Þetta er mjög stórt mál, ekki bara hér, heldur alls staðar í veröldinni.

Ég vil aðeins gera athugasemd við 1. gr. Ég held að hún yrði betri ef við bönnum líka í 1. gr. „að framleiða“. Orðalagið yrði þá, með leyfi forseta, á þessa leið. 1. gr. hljóðaði þá svo: Lög þessi gera Ísland að friðlýstu svæði þar sem bannað er að framleiða ... Síðan heldur greinin áfram óbreytt, koma fyrir, staðsetja eða geyma o.s.frv. Ég ætla ekki að fara í gegnum greinar þær sem fylgja. 1. gr. er út af fyrir sig alveg nóg. Frekari skýringar og frekari greinar eru óþarfar. En af því að hv. 10. þm. Reykv. gerði athugasemd við 11. gr. og taldi hana of fortakslausa vil ég segja að í þessum málum held ég að ekkert sé til sem er of fortakslaust á meðan kjarnorka er ekki þekkt til annars en hernaðar og útrýmingar. Því í almenn farartæki veit ég ekki til að kjarnorka eða klofin efni á þann hátt séu notuð til mannflutninga. Ég er að reyna að rifja upp hvort það er í járnbrautum, hvort það er í flugvélum, hvort það er í bílum, — það er ekki í gangandi fólki — eða á annan hátt. Ég minnist þess ekki að það sé komið á það stig enn þá að það sé talið það hættulaust að hægt sé að hafa það almennt í umferðinni. Ég held því að það sé rétt af flm. að hafa 11. gr. eins fortakslausa og hún er.