30.04.1988
Sameinað þing: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7125 í B-deild Alþingistíðinda. (5140)

Nefndafundir á þingfundatíma

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það er rétt hjá hæstv. forseta að það er mjög algengt á þessu þingi að fáir séu í þingsalnum. Einkum er það mjög algengt að það séu fáir stjórnarliðar. Yfirleitt er það í forsæti sem sitja einhverjir stjórnarliðar, ritarar og aðalforseti gjarnan. Svo er einn og einn stjórnarsinni í salnum. Það er t.d. einn og hálfur núna og tveir eftir að hv. þm. Níels Árni Lund er kominn allur inn í salinn. Þetta er algengt og hefur verið svona í allan vetur.

Það breytir hins vegar ekki því að ég kannast ekki við að til sé neitt sem heitir samkomulag um að það sé komið undir þinglok. Ég hef, eins og hæstv. forseti orðaði það, að vísu lesið það eftir hæstv. forsrh. að það standi til að ljúka þingi 5., 6. eða 7. maí, eftir viku eða svo. En mér er ekki kunnugt um að frá neinum hlutum hafi verið gengið í þeim efnum.

Ég lýsi því yfir að ég hef verið boðaður t.d. á fund í fjh.- og viðskn. Ed. til að afgreiða mjög mikilvægt stjórnarfrv. núna á eftir, kl. 2. Mér er kunnugt um að landbn. Ed. hefur líka verið boðuð til fundar á þessum sama tíma. Mér er kunnugt um það að hæstv. forseti hefur boðað til fundar við sig formenn þingflokka, trúi ég, og forseta þingsins á þessum sama tíma. Það er því bersýnilegt að þeir þm. sem láta þó svo lítið að vera hér í salnum núna verða flestir gufaðir upp á nefndarfundi eftir tæpa þrjá stundarfjórðunga. Það er því augljóst mál að hér er ekki með neinum venjulegum hætti hægt að halda áfram þingfundi í dag.

Ég vil segja það fyrir mitt leyti að ég óska eftir því að stjórnarliðið geri það upp við sig hvort verið er að fara fram á það við mann að maður sé á þingfundi eða nefndarfundi því að það verður að liggja þannig að menn geri þetta upp við sig. Það er ekki nokkur leið að gera til þess kröfu til okkar stjórnarandstæðinga að við séum hlaupandi eins og útspýtt hundsskinn á milli nefndarfunda og þingfunda. Og það er ekkert sem rekur á eftir. Menn eru hér á kaupi allt árið. Ég sé ekki að það liggi neitt á að fara að slíta þessu þingi hér næstu daga. Hæstv. forseti hefur ekki greint mér eða öðrum þm. frá hinni brýnu nauðsyn til þess að það verði farið að rjúka til þess núna næstu daga að slíta þinginu. Ég hef ekki frétt af þeirri brýnu nauðsyn. Ég skrifa ekki upp á það að það sé nauðsynlegt fyrir ríkisstjórnina að losna við þm. sína, alla þessa Ólafa Þórðarsyni sem eru einlægt að gera stjórnarflokkunum óleik í ýmsum málum. Ég tel það ekki brýna nauðsyn frá almennu sjónarmiði séð þó það sé auðvitað skiljanlegt frá sjónarmiði þm. Framsfl., en það er annar handleggur.