10.11.1987
Neðri deild: 10. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 848 í B-deild Alþingistíðinda. (515)

65. mál, friðlýsing Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka undirtektir, athugasemdir, sem voru þarfar, og spurningar. Ég er út af fyrir sig sammála hv. 5. þm. Reykv. Það væri eðlilegt að svo veigamikill hluti af friðlýsingarákvæðunum eins og að taka af öll tvímæli um framleiðslu kæmu inn í 1. gr. þar sem hún á að vera almenn skilgreiningargrein um helstu ákvæði frv. Það er að sjálfsögðu feimnislaust af minni hálfu að viðurkenna að ýmislegt þarf að athugast betur í frv., enda eðlilegt. Eins og hv. þm. eflaust vita er hvorugur flm. það ég best veit lögfræðingur eða þjóðréttarfræðingur og auðvitað eru geysilega stór og viðamikil efni sem þarf að skoða þegar reynt er að setja löggjöf af þessu tagi sem þarf að vera í samræmi við og má ekki brjóta í bága við fjöldamarga alþjóðasamninga og lög. Það hafa flm. og höfundur frv. reynt að skoða eftir bestu getu og m.a., eins og ég sagði í upphafi máls míns hér áðan, var reynt að nota sumarið til að endurbæta frv. og fara yfir ýmis atriði sem vissulega geta verið álitamál um. Það er einnig ljóst að alþjóðleg staða málsins er sú að hafréttarsáttmáli Sameinuðu þjóðanna hefur ekki verið fullgiltur af allt of mörgum þjóðum, þar á meðal sumum stærstu herveldum heimsins, sem vegna ágreinings, ekki síst um umferð herskipa og ýmislegt af því tagi, hafa ekki fullgilt hafréttarsamninginn. Þó er það þannig að frv. er í öllum meginatriðum sniðið í samræmi við ákvæði hans og í umsögnum um einstakar greinar geta menn flett upp á því hvaða ákvæði frv. þarf að skoða í samræmi við tiltekna kafla hafréttarsamningsins. Vilji menn athuga ákvæði frv. í samræmi við hafréttarsamninginn finna þeir það í athugasemdum við einstakar greinar, svo sem eins og fimmta hluta samningsins, 55.—57. gr., og sjötta hluta, 76. gr. Þetta eru ákvæði sem eðlilegt er að skoða sérstaklega.

Ég bendi einnig á að menn þurfa að kynna sér lög um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn Íslands, lög nr. 41/1979, og í sambandi við spurningar hv. þm. Guðmundar G. Þórarinssonar ber einnig að nefna að varðandi ýmis ákvæði, svo sem um losun úrgangs, hvort sem heldur er efnaúrgangs eða kjarnorkuúrgangs, eru í gildi alþjóðasamningar sem Ísland hefur fullgilt með lögum. Það eru einnig í gildi ein sérstök lög um bann við losun hættulegra efna í sjó sem eru bara hluti af lagasafni Íslands og eru sérstök lög sem við höfum sett okkur í þessum efnum. Það eru lög nr. 20/1973. Síðan er í gildi Lundúnasamningurinn svonefndi frá 29. des. 1972. Hann var fullgiltur með lögum frá Alþingi strax á árinu 1973. Það eru lög nr. 53 frá því ári. En því eru nú sérstök ákvæði sett inn í frv. engu að síður að Lundúnasamningurinn hefur verið gagnrýndur, m.a. fyrir að taka ekki af öll tvímæli um lággeislavirkan úrgang. Hann snýr fyrst og fremst að þeim hluta kjarnorkuúrgangsins sem hefur verið talinn allra hættulegastur, en er ekki nógu ótvíræður að mínu mati a.m.k. hvað varðar ýmislegt annað.

Ég get reynt að svara ofurlítið betur spurningum hv. þm. Guðmundar G. Þórarinssonar, hvers vegna tilraunir með kjarnorkuvopn eru sérstaklega teknar fram en ekki eiturefnavopn. Það er e.t.v. vegna þess að það hefur verið sérstakur þrýstingur á í heiminum að stöðva allar tilraunir með kjarnorkuvopn og það er pólitískt mál af allt öðrum toga en einhverjar tilraunir með eiturefni kynnu að vera. Það er kannski í og með þess vegna, vegna þess að frv. er í senn praktísk útfærsla á þessu friðlýsingarverkefni en um leið ákveðið pólitískt framlag af Íslands hálfu, sem samanber skilgreiningar ber að skoða með þeim hætti. Síðan er dálítið annað að hafa eftirlit með hvers kyns efnatilraunum. Hluti af þeim efnum sem kynnu að falla undir eiturefni, væru þau samansett og hugsuð sem vopn, er í umferð og notkun í tilraunastofum, jafnvel til lækninga, í dag.

Það má reyndar segja — og kem ég þá að næstu spurningu varðandi geislavirku efnin — að þar bíði einnig tiltekið skilgreiningarverkefni sem er að draga í sundur þau náttúrlegu geislavirku efni og hráefni, jafnvel til lækninga og tilrauna sem er auðvitað ekki meiningin að banna með frv. Það skal ég fúslega viðurkenna að frv. er ekki nógu skýrt eða kveður ekki á um hvernig skal draga þar mörkin. Ég vil því sem 1. flm. leggja til þann skilning að þar sem er fjallað um kjarnakleyf efni sé fyrst og fremst verið að tala um kjarnakleyf efni í umtalsverðu magni sem eru ætluð til magnvinnslu til að framleiða orku eða gera tilraunir eða notast í vopn eða eitthvað af því tagi. En sá skilningur hlýtur að liggja fyrir eða þurfa að liggja fyrir að hráefni til meðferðar í tilraunastofu í friðsamlegu skyni eða til lækninga eða annarra slíkra hluta verði undanþegin. Það gefur held ég nokkurn veginn augaleið.

Hvort 10. gr. er of altæk vegna þess að í tækniþróun framtíðarinnar kunni að liggja þeir möguleikar að einhvers konar kjarnorkuknúin farartæki að hluta eða að öllu leyti geti orðið það án nokkurrar umhverfishættu treysti mér ekki til að fella dóm um á þessum stað og þessari stundu, en hér eru fyrst og fremst höfð í huga þau hefðbundnu kjarnaknúnu farartæki, þ.e. skip og kafbátar, sem við þekkjum í dag. Það er vitað, þó að upplýsingum um þá hluti sé reyndar haldið leyndum í flestum tilfellum, að allt of mikill, gífurlegur fjöldi, liggur mér við að segja, óhappa hefur orðið á undanförnum áratugum bæði í kjarnorkuknúnum kafbátum og kjarnorkuknúnum skipum. Ekki færri en sex eða átta stykki af kjarnorkuknúnum kafbátum liggja nú á hafsbotni hvors hafsins um sig, Atlantshafsins og Kyrrahafsins. Og þess skulu menn minnast þegar vikið er að t.d. kjarnorkuknúnum kafbátum að þar er á ferðinni 90 sinnum sterkara eldsneyti en notast er við í venjulegum kjarnorkuverum. Þó að þar sé ekki um mikið magn að ræða getur þar legið gífurleg hætta í sokknum kjarnorkukafbátum sem eru þegar teknir að ryðga sundur, t.d. suður í Atlantshafi, og hver getur sagt hvað það þýðir þegar þeir liðast í sundur eða ryðga sundur og golfstraumurinn tekur til við að flytja innvolsið úr þeim út um hafið.

Það var e.t.v. eitthvað fleira sem hv. þm. vék að, en ég hef reynt að svara því helsta. Ég þakka honum fyrir hans ábendingar og spurningar. Þær lutu vissulega allar að hlutum sem þarf að skoða mjög vel í sambandi við frv. Ég legg enn og aftur á það mikla áherslu að það er einlæg ósk okkar og von að þetta fái rækilega umfjöllun og menn taki á þessu máli í samræmi við alvöru þess og líti þá fram hjá öðrum hlutum hvort sem þeir eru pólitísks eðlis eða af einhverjum öðrum toga.

Mér hefði þótt vænt um, virðulegur forseti, ef þeir hæstv. ráðherrar sem hafa heiðrað okkur með nærveru sinni, hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh., hefðu verið tilbúnir að lýsa einhverri skoðun eða viðbrögðum við frv., hæstv. utanrrh. sem sá hæstv. ráðherra sem fer með þennan málaflokk, en ég vek aftur athygli á því að forsrh. er ætluð framkvæmd þessara laga og það væri því eðlilegt einnig að hann hefði á því skoðun a.m.k. hvort sú tilhögun er eðlileg, þ.e. hvort það er eðlilegt fyrirkomulag, sem hér er lagt til, að forsrh. sé yfir framkvæmd laganna.