30.04.1988
Sameinað þing: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7132 í B-deild Alþingistíðinda. (5151)

437. mál, löggjöf um forskólastig og uppbyggingu dagvistarstofnana

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um löggjöf um forskólastig, en till. þessa flyt ég og hana er að finna á þskj. 787. Heiti till. er: Þáltill. um löggjöf um forskólastig og áætlun um uppbyggingu dagvistarstofnana.

Till. er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að kjósa milliþinganefnd til að undirbúa frv. til l. um forskólastig og framkvæmdaáætlun til tíu ára um uppbyggingu dagvistarstofnana með það að markmiði að öll börn á aldrinum 1–6 ára öðlist rétt á góðri dagvistun með uppeldi og menntun við hæfi. Í nefndinni verði fulltrúar frá öllum þingflokkum, en einnig verði leitað eftir tilnefningu á fulltrúum í nefndina frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Fóstrufélagi Íslands.

Allur kostnaður af störfum nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.“

Þetta er texti till. Meginstefnumörkunin, sem felst í þessari till., er sú að litið verði á aldursstigið neðan grunnskóla frá þeim tíma að fæðingarorlofi foreldris lýkur og til þess tíma að skólaskylda hefst, að það tímabil í þroskaskeiði barnsins verði litið sem sérstakt skólastig, forskólastig, og öll börn í landinu eigi rétt á, ekki skyldu heldur eigi rétt á, dvöl á góðri skólastofnun, dagvistarstofnun, á þessu aldursskeiði.

Hinn þáttur till. snýr að áætlun um uppbyggingu stofnana fyrir þetta skólastig á grundvelli þeirrar löggjafar sem till. gerir ráð fyrir að sett verði um forskólastigið.

Það er kannski svolítil hætta á því vegna þess að nafngiftir hafa verið nokkuð á reiki varðandi þetta aldursstig og stofnanir þar að lútandi að menn átti sig ekki strax á því um hvað þetta snýst. Ég ræddi við marga aðila sem starfa á dagvistarheimilum og uppeldisstofnunum fyrir börn við undirbúning þessa máls og niðurstaðan varð sú að halda sig við þetta heiti „forskólastig“. Starfandi hafa verið skólar fyrir börn undir skólaskyldu sem kallaðir hafa verið forskólar og eru reyndar yfirleitt í því formi að bætt er við bekk neðan grunnskóla fyrir sex ára börn og í nokkrum tilvikum fyrir fimm ára börn og kallaðir forskólar. Ég tel að það eigi ekki að koma í veg fyrir það að tala um forskólastig í þessu samhengi.

Örar þjóðfélagsbreytingar valda því að aðstaða barna er nú öll önnur en áður var. Stórfjölskyldan er að heita má úr sögunni og við hafa tekið kjarnafjölskyldur þar sem börnum fer fækkandi. Fjöldi barna elst upp hjá einstæðu foreldri, oftast mæðrum. Konum hefur fjölgað óðfluga á vinnumarkaði og þær eru ómissandi fyrir atvinnulífið. Þjóðfélagið hefur hins vegar ekki brugðist við þessum breytingum með viðunandi hætti þar sem börnin eiga í hlut.

Í því sambandi skiptir mestu uppbygging góðra dagvistarheimila út frá uppeldislegum og félagslegum sjónarmiðum þannig að litið sé á þroskaskilyrði barnsins í samfellu frá byrjun. Því þarf að móta löggjöf um forskólastigið ekki síður en um grunnskólann.

Það er að mínu mati löngu úrelt sjónarmið að dagvistarheimili séu einhvers konar neyðarbrauð fyrir börnin. Undir það sjónarmið er tekið af flestum sem um þessi mál fjalla og tengdir eru þessum málum. Uppeldislegt gildi góðra dagvistarstofnana er löngu viðurkennt og því eiga þær ekki aðeins að vera opnar fyrir börn þeirra sem stunda nám eða vinna utan heimilis heldur einnig fyrir börn heimavinnandi foreldra.

Heimilið verður að sjálfsögðu áfram kjölfestan í uppeldi barnsins, en á góðum dagvistarstofnunum er hægt að þroska aðra þætti ekki síður en leitast er við að gera í grunnskólum. Þar á börnunum að gefast kostur á að vera innan um jafnaldra sína og njóta handleiðslu fullorðinna með sérþekkingu á uppeldismálum. Því yngra sem barnið er þeim mun mikilvægara er að vel takist til um uppeldi þess og persónuþroska. Börnin eru sú auðlind sem mestu skiptir fyrir hverja þjóð að vel sé að hlúð. Því á það að vera réttur hvers barns og forráðamanns þess að eiga kost á forskóla fyrir barnið með vel menntuðu starfsliði og sá réttur ætti að vera jafnsjálfsagður og skóli frá sjö ára aldri.

Þessi mál eru hérlendis og vissulega víða erlendis ekki í því horfi sem skyldi. Því er nauðsynlegt vegna barnanna og framtíðarinnar að hið fyrsta verði gert samstillt átak í dagvistannálum.

Í gildi eru um þessi efni lög frá árinu 1973, en það eru fyrstu lögin sem taka á dagvistarmálum nokkuð heildstætt og varða þátttöku ríkisins í stofnkostnaði vegna dagvistarheimila og vegna reksturs dagvistarheimila. En það var þó miklu fyrr sem farið var að hyggja að þessum málum af hálfu áhugasamtaka, fyrst hér í höfuðborginni að ég hygg á árunum upp úr 1920 og síðan komu sveitarfélög eins og Reykjavíkurborg inn í þau mál.

Ég vil minna á það hér án þess að fara að rekja sögu þessara mála að á árinu 1946 kom fram, að ég hygg, fyrsta frv. sem tengist þessu máli. Það var flutt af þáverandi þingmanni Katrínu Thoroddsen á aðalþinginu 1946 og bar heitið „Um dagheimili fyrir börn innan skólaskyldualdurs.“ Það er svo merkilegt að í þessu frv., sem flutt er af Katrínu á árinu 1946, er í raun að finna þá hugsun sem er fram borin skv. þessari till.

Hún gerir ráð fyrir mikilli þátttöku opinberra aðila í uppbyggingu dagvistarheimila, að ríkissjóður greiði 50% stofnkostnaðar og bæjar- eða sveitarfélag hinn hlutann og að ríkið taki þátt í rekstrarkostnaði dagheimila og foreldrarnir greiði aðeins fæðiskostnað.

Í grg. fjallar Katrín um þetta með mjög skilmerkilegum hætti og einmitt út frá því sjónarmiði að það séu uppeldisskilyrðin sem þarna skipti máli, það séu góð dagvistarheimili sem þurfi að reisa af þeim sökum vegna breyttra þjóðfélagsþátta. Hún segir í lokaorðum greinargerðar með þessu lagafrv., með leyfi forseta:

„Af dagheimilum er þegar fengin góð reynsla bæði hér og erlendis. Þau eru viðurkenndar uppeldis- og fræðslustofnanir er að því miða að veita börnunum meira öryggi og ákjósanlegri þroskaskilyrði en kostur er á í heimahúsum án þess þó að taka ábyrgð uppeldis úr höndum foreldranna.“

Næst bar þessi mál fyrir Alþingi að því ég best veit árið 1963 þegar Einar Olgeirsson og Geir Gunnarsson fluttu frv. til laga um dagvistarheimili og þátttöku ríkisins í þeim málum með ekki ósvipuðum hætti og Katrín Thoroddsen hafði vakið upp tillögur um þegar á árinu 1946. En það liðu enn tíu ár eða til ársins 1973 þegar vinstri stjórnin þáverandi stóð að lagasetningu um þessi efni með lögbindandi ákvæðum um þátttöku ríkisins bæði í stofnkostnaði og rekstrarkostnaði dagvistarheimila.

Þau lög sem í gildi eru frá 1976 um dagvistarheimili eru að stofni til hin sömu og sett voru 1973. Breytingin sem gerð var 1976 var um að fella niður ákvæði um þátttöku ríkisins í rekstrarkostnaði dagvistarheimilanna. Það var spor til baka, að mínu mati, og nú á yfirstandandi þingi höfðum við til meðferðar frv. sem sem betur fer hefur ekki verið vakið upp eftir að umræðum var frestað eða lokið um það áður en málið fór til nefndar. Það var bandormurinn svokallaði um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga þar sem ráðgert var af þeim sem báru málið fram að dagvistarmálin yrðu eingöngu á verksviði sveitarfélaga og að fella skyldi niður m.a. úr gildandi lögum 11. gr. sem kvæði á um húsnæði og aðbúnað og fjölda barna á dagvistarheimilum. Ég tel að þarna sé á ferðinni ákvæði sem ekki sé rétt að fara lengra með vegna þess að þó að sveitarfélögin séu frumkvöðlar á þessu sviði finnst mér eðlilegt að taka á uppbyggingu og rekstri stofnana fyrir börnin á þessu aldursstigi með hliðstæðum hætti og um grunnskólann og ég legg áherslu á að með þessi mál ætti að fara, það er mitt viðhorf, með hliðstæðum hætti og varðandi grunnskólann hvað kostnaðarskiptingu snertir. Ég teldi t.d. mjög eðlilegt, ef það verður að ráði að sveitarfélög standi að stofnkostnaði grunnskóla en ríkið annist launakostnað kennara, að hið sama gildi varðandi forskólastigið, að launakostnaður viðurkenndra starfsmanna á þessu stigi verði borinn uppi af ríkinu.

Með till. minni fylgir, virðulegur forseti, ítarleg grg. þar sem er að finna rök fyrir nauðsyn löggjafar á þessu sviði og ábendingar um á hvaða þáttum eigi að taka í þeim efnum svo og hvað ber að hafa til hliðsjónar í sambandi við þá tíu ára áætlun um uppbyggingu dagvistarheimila eða stofnana á forskólastigi, hvaða þættir það séu sem hafa ber í huga í því samhengi.

Ég hef ekki aðstöðu til þess að rekja það allt í framsögu minni fyrir þessu máli, en ég tel þó rétt að nýta tímann sem mér er heimill til að víkja m.a. að stöðu þessara mála á hinum Norðurlöndunum, en á því er vakin athygli í grg. með þessari till. Það er ekki óeðlilegt að við lítum til annarra Norðurlanda í sambandi við félagsmál og menntunarmál af þessu tagi og vissulega er það svo í þeim löndum, Danmörku, Noregi og Svíþjóð, þar sem ég hef kynnt mér allvel hvernig þessum málum er háttað, að það eru sveitarfélögin sem eru frumkvæðisaðilar í sambandi við dagvistarheimilin og þetta skólastig og þetta aldursstig barna, en ríkið er alls staðar þátttakandi í uppbyggingunni og sums staðar í rekstrinum líka þannig að við finnum ekki fordæmi hjá hinum Norðurlöndunum í því að fara að varpa þessum málum alfarið kostnaðarlega yfir á sveitarfélögin.

Til samræmis við það sem ég er að leggja hér til ber að geta þess að í Svíþjóð hefur þjóðþingið samþykkt tillögu sem felur í sér hliðstæða stefnumörkun og hér er fram borin, þ.e. að öll börn frá 18 mánaða aldri og þar til þau byrja í grunnskóla hafi rétt til þess að vera í forskóla þarlendis, öll börn í síðasta lagi árið 1991. Það er sem sagt á allra næstu árum sem á að ná því markmiði í Svíþjóð sem sett er fram í þessari tillögu. Í Noregi er mikið rætt um þessi mál að frumkvæði ríkisstjórnar norska Verkamannaflokksins einmitt núna þessi missiri. Þar hefur verið sérstök aðgerð í gangi af hálfu ríkisstjórnarinnar til þess að ýta við sveitarfélögunum að herða sig í sambandi við uppbyggingu og aðbúnað dagvistarstofnana fyrir börn, aðgerðum undir nafninu „Bygg barnehager“ eins og það heitir á norskunni. Þeir hafa staðið fyrir sérstökum ráðstefnum í öllum fylkjum í Noregi að undanförnu til þess að vekja athygli á þörfinni á stórátaki í þessum málum og markmiðið þar er að þetta verði komið í viðunandi horf fyrir aldamótin, ekki ósvipað markmið og er verið að setja fram með þessari till. Í Danmörku eru þessi mál einnig til mikillar umfjöllunar þessa mánuðina og þar hygg ég að að starfi sé sérstök þingnefnd með fulltrúum allra flokka til að marka stefnu um þessi mál.

Eitt af því sem er til umræðu í nágrannalöndum okkar og hér þarf að vera til umræðu einnig í tengslum við þetta mál eru skilin á milli forskólastigs og grunnskóla. Hér hefur þróunin verið sú að menn hafa verið að færa sig niður fyrir grunnskólastigið með því að veita börnum aðgang að svokölluðum forskóla, en ég tel að í sambandi við þessi skil á milli skólastiganna þurfi að gæta að mörgum þáttum miklu betur en gert hefur verið. Það hafa komið fram tillögur um það að færa skólaskylduna beinlínis niður um eitt ár. Ég vil ekki leggja neitt endanlegt mat á það, en ég legg aðaláhersluna á réttinn, að rétturinn sé til staðar frá því að fæðingarorlofi lýkur og þangað til skólaskyldan hefst fyrir börnin á góðum dagvistarheimilum, í góðum forskóla. Það er einmitt uppeldisþátturinn, menntunarþátturinn sem þarf að gefa alveg sérstakan gaum á þessu stigi. Í sambandi við það vil ég nefna að fóstrurnar sem starfa á þessu stigi sem uppalendur, samtök fóstra, Fóstrufélag Íslands, leggja sérstaka áherslu á að halda yfirumsjón þessara mála innan menntmrn. en færa það ekki yfir til félmrn. eins og rætt mun hafa verið nokkuð um á vegum nefndar sem starfandi er á vegum núverandi hæstv. félmrh.

Ég vek athygli á þessu um leið og ég vek athygli á þeirri ráðstefnu sem fór fram á vegum Fóstrufélags Íslands fyrir hálfum mánuði eða svo, dagana 14.–16. apríl, og er einhver ánægjulegasta samkoma sem ég hef tekið þátt í lengi vegna þess hversu geysilega þróttmikil hún var, vegna þess hve áhuginn var mikill, hversu undirbúningur var vandaður. Ég veit að hjá þeim aðilum, fóstrunum, er að finna öflugan bakhjarl og stuðning við þau markmið sem ég er að reyna að koma á framfæri með flutningi þessarar till. þó ég vilji á engan hátt gera Fóstrufélagið ábyrgt fyrir efni hennar í einstökum atriðum. Væntanlega verður Fóstrufélagið einn af þeim aðilum sem leggja á ráðin í sambandi við frekari mótun og útfærslu þeirrar stefnu sem hér er lögð til.

Ég geri ráð fyrir því, virðulegur forseti, að að lokinni umræðu verði till. vísað til hv. félmn.